Það hefur verið makalaust að fylgjast með framgöngu ríkisstjórnarinnar undanfarnar vikur og mánuði í tengslum við framtíð hersins á Miðnesheiði. Er ekki laust við að hinn sígildi Dátaslagari um leyndarmálið sem ekki mátti segja frá hafi leitað á hugann. Það hefur verið makalaust að fylgjast með framgöngu ríkisstjórnarinnar undanfarnar vikur og mánuði í tengslum við framtíð hersins á Miðnesheiði. Er ekki laust við að hinn sígildi Dátaslagari um leyndarmálið sem ekki mátti segja frá hafi leitað á hugann.
Hvort sem fólki líkar vera hersins hérlendis vel eða illa er ljóst að spurningin um tilvist hans varðar mikla atvinnu- hagsmuni á Suðurnesjum. Forsætisráðherra hefur nú viðurkennt að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi fengið vitneskju um fyrirætlanir Bandaríkjastjórnar, um verulegan samdrátt á Miðnesheiði, töluvert fyrir Alþingiskosningarnar 10. maí. Hér er um gríðarstórt atvinnumál að ræða sem undir öllum kringumstæðum átti að taka til umræðu í kosningabaráttunni og gefa þjóðinni þannig kost á að lýsa afstöðu sinni til málsins og þeirra leiða sem fara ætti. Slíkt hentaði hins vegar ekki stjórnarherrunum. Þó fjölmörg hitamála kosninganna blikni í samanburði við þær spurningar sem nú þarf að svara um atvinnumál á Suðurnesjum þögðu forystumenn ríkisstjórnarinnar þunnu hljóði. Lýðræðisleg umræða kom þeim nógu vel.
Leyndóleiknum hefur síðan verið haldið áfram þannig að í raun hefur enginn kostur gefist á eðlilegri og opinskárri umræðu um málið. Stjórnarandstöðunni hefur markvisst verið haldið frá og fréttir að mestu leyti byggst á getgátum um það sem á að hafa gerst eða á að fara að gerast. Á meðan bíða mörg hundruð manns í algjörri óvissu um hvað verður um atvinnu sína. Þetta kallar forsætisráðherra „að vinna á faglegum nótum“.
Opinber og gagnrýnin umræða er einn mikilvægasti hornsteinn lýðræðisríkja. Hún er ein helsta forsenda eðlilegra stjórnarhátta og að auki aflvaki framfara, skynsamlegra lausna og sátta í erfiðum málum. Það er því miður hvernig umræða um utanríkismál á Íslandi er að þróast út í einhvers konar taboo hjá stjórnarherrunum og leyndarmál þeirra á milli. Þögn Davíðs og Halldórs vegna ofangreindra fyrirætlana Bandaríkjastjórnar og hið tveggja manna ákvörðunarferli í tengslum við þær er alls ekki eina dæmið. Það eru ekki nema örfáir mánuðir síðan þjóðinni var tilkynnt frá Washington að hún væri þátttakandi í ólögmætu árásarstríði í Írak, án þess að nokkur umræða um þá leynilegu ákvörðun hefði farið fram eða kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi verið spurðir álits. Önnur utanríkismál vilja stjórnarherrarnir líka ógjarnan ræða. Öll umræða um Evrópumál virðast t.d. koma forsætisráðherra í vont skap og því hafa þeir blóðbræður fyrir löngu samið um að þau séu ekkert á dagskrá meðan ríkisstjórnin sitji.
Það er nauðsynlegt að opna umræðuna um utanríkismál og gefa landsmönnum kost á eðlilegum skoðanaskiptum og vitrænni umræðu um þau mál sem hæst bera. Utanríkismál eru ekki leyndarmál sem varða aðeins forsætis- og utanríkisráðherra. Það verður að veita almenningi sem og kjörnum fulltrúum þau sjálfsögðu réttindi að fá að koma að umræðunni og nýta þá ótvíræðu kosti sem í slíkri umræðu felast. Það er eitthvað óheilbrigt við þjóðfélag þar sem tveir valdamestu einstaklingarnir pukrast með mikilvægustu utanríkismálin bak við luktar dyr á meðan almenningi gefst ekki einu sinni kostur á að mótmæla þeim að hætti Jóns Sigurðssonar á 17. júní.
Annars óska ég herrunum í stjórnarráðinu innilega til hamingju með daginn og landsmönnum öllum góðrar helgar.