Arðræningjar og almannahagur

Arðræningi er eitt af þessum gömlu hugtökum sem ekki þykir fínt að taka sér í munn nú þegar kommúnisminn er liðin undir lok og flestallir hafa tekið markaðslögmálin í sátt. Það er hinsvegar staðreynd að á Íslandi leika réttnefndir arðræningjar víða lausum hala. Arðræningi er eitt af þessum gömlu hugtökum sem ekki þykir fínt að taka sér í munn nú þegar kommúnisminn er liðin undir lok og flestallir hafa tekið markaðslögmálin í sátt. Það er hinsvegar staðreynd að á Íslandi leika réttnefndir arðræningjar víða lausum hala. Í skjóli þess sem oft virðist afar vafasamt umboð skammta þeir sér sjálfir stærri hluta af kökunni en þeir eiga skilið.

Ég er hér ekki að tala um fólk sem velur sér viðskipti að starfsvettangi og græðir peninga á heiðarlegan hátt. Vandamálið eru þessir menn sem nýta sér pólitísk tengsl eða afl fólgið í „fé án hirðis“ til að skara eld að eigin köku.

Markaðshagkerfi en ekki markaðssamfélag
Til þess að skapa umhverfi þar sem kostir markaðslögmálanna njóta sín til fullnustu þarf að vera til staðar öflugt eftirlitskerfi sem gætir þess að almannahagsmunir séu virtir. Það eru t.d. almannahagmunir að endurskoðað verði hvernig lífeyrissjóðum er stjórnað. Pólitískur vilji til þess að gera slíkar breytingar er hinsvegar nánast engin. Á meðan tapa sjóðfélagar á ábyrgðarlausum fjárfestingum og óhóflegum rekstarkostnaði. Viðurkennt er að lífeyrissjóðir séu gjarnan notaðir sem peð í valdatafli blokka í viðskiptalífinu. Þetta er óásættanleg staða. Það er réttlætismál að arðsemissjónarmið séu látin ráða í öllum fjárfestingum sjóðanna og það mun ekki nást að fullu fyrr en beint aðhald sjóðfélaga er komið til.

Vinstri-grænir vita kannski minnst en tala samt mest
Ég sakna þess að fleiri en Vinstri-grænir og einstaka Samfylkingarþingmenn tjái sig um þá víðtæku sérhagsmunagæslu sem viðgengst í þessu samfélagi. Um fákeppnina, samtrygginguna og spillinguna sem á rætur að rekja bæði í stjórnkerfinu og atvinnulífinu. Flest vildum við vera laus við þetta mein. Fæst okkar njóta góðs af þessu svínaríi sama hvaða flokk sem við kjósum. Ég veit að mörgum sjálfstæðismönnum blöskrar og réttlætiskennd þeirra hefur reglulega verið misboðið vegna ákvarðanna forystumanna sinna. Samt kjósa þeir að þegja.

Heiðarlegt, vel menntað fólk sem starfar í t.d. fjármálageiranum virðist ekki þora að tala nema þá bara almennt um þessi efni. Stóralvarleg mál þar sem brotið er á vítaverðan hátt gegn rétti fólks berast þannig, mörg hver, aldrei út fyrir veggi kaffistofanna.

Kári klári og innherjarnir 280.000
Það er opinbert leyndarmál að íslenskur hlutabréfamarkaður hefur snúist að miklu leyti um að nýta sér innherjaupplýsingar. Þetta er auðvitað ólöglegt en þrátt fyrir að mörg slík viðskipti hafi farið fram fyrir opnum tjöldum þá hefur ennþá enginn verið dæmdur fyrir að nýta sér innherjaupplýsingar.

Stór hluti þjóðarinnar taldi sig t.d vera að fara græða rosalega á þeim innherjaupplýsingum að Kári Stefánsson væri klár. Fremstir fóru innherjarnir í ríkisstjórninni og á alþingi sem ákváðu að það væri þeirra hlutverk að stunda áhættumikla spákaupmennsku með skattpeningana okkar og fjárfesta í Íslenskri erfðagreiningu þegar sérfræðingar á erlendum markaði treystu sér ekki einu sinni til þess.

Það virðist vera eitt einkenni á okkar sérstöku þjóðarsál að ef einhver fær nýstárlega hugmynd á Íslandi þá göngum við út frá því að hún sé einstök í heimi hér og að fyrirtæki byggt á hugmyndinni muni á svipstundu græða stórar fúlgur. Þetta er auðvitað tómt rugl.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um fákeppni
Að reyna að eyða samkeppni er eitt helsta lögmál viðskipta og margar leyfilegar aðferðir eru tiltækar til þess. Það er því barnalegt að ætla fyrirtækjum á frjálsum markaði að hafa eftirlit með sjálfum sér hvað þetta varðar. Stjórnvöld þurfa að setja leikreglurnar og það er vel þekkt að þær þurfa að vera í sífelldri endurskoðun til að halda í við markaðinn og tilraunir hans til að sveigja hjá þeim og teygja.

Samkeppnisstofnun er ein af vörnum almennings gegn þessu eðli fyrirtækja að ganga eins langt og þeim leyft til að auka hagnað sinn. Sjálfstæðisflokkurinn og ungliðahreyfingar hans hafa hinsvegar með óskiljanlegum rökum sagt stofnunina óþarfa og að hún hamli hagræðingu fyrirtækja. Hún beiti of harðneskjulegum aðferðum í aðgerðum sínum gegn stórfyrirtækjum sem fást t.d. við tryggingar, olíuverslun, flutninga og samgöngur. Mér virðist hinsvegar að ekki veiti af því þessi fyrirtæki hafa hingað til getað haldið uppi slíkri álagningu að nóg fjármagn verði afgangs til að kaupa upp aðrar atvinnugreinar í nánast heilu lagi.

Vilja éta kökuna og eiga hana líka
Þegar að himinhá laun ákveðinna stétta eru gagnrýnd þá er svarið gjarnan á þá leið að ábyrgðin sé svo mikil sem fylgi störfum þeirra. En þegar að menn standa ekki undir áðurnefndri ábyrgð þá þarf að veita þeim rándýra starfslokasamninga eða biðlaun svo hægt sé að reka þá. Sér er nú hver ábyrgðin.

Leyfist manni að velta vöngum?
Mér finnst t.d. undarlegt að fylgjast með því hvernig ákveðnir menn virðast hafa efnast stórkostlega án þess að sjá megi að þeir hafi lagt sérstaklega mikið undir sjálfir.
Ég furðaði mig t.d. á því þegar það var tilkynnt að framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins ætti, að mig minnir, hátt í hundrað milljónir í hlutabréfum í Landsbanka Íslands. Hvernig hafa menn tækifæri til að efnast svona gríðarlega meðfram því að gegna umfangsmiklum pólitískum trúnaðarstörfum? Reyndar sat þessi aðili um langt skeið sem formaður bankaráðs í þessum sama banka. Ef til vill á þetta allt sér eðlilegar skýringar. Ég hef svo sem engar upplýsingar um annað.
En forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa sjálfir bent á slíka hluti og gefið í skyn að ákveðnir aðrir aðilar kunni að hafa efnast með óeðlilegum hætti.

Engin öfund
Ég unni mönnum svo sannarlega velgengni í viðskiptum. Virkjun einkaframtaksins er vissulega hagkvæmasta aðferðin við alla framþróun. Sú einkavæðing sem farið hefur fram undanfarin ár hefur samt í fæstum tilfellum komið almenningi til góða. Í stað ríkisrekstrar hefur jafnan orðið til fákeppni og á þeim fáum sviðum sem einhver samkeppni hefur ríkt eru keppinautar búnir að vera að hamast við að sameinast undir því yfirskyni að þeir þurfi frekar að standast samkeppni við útlönd en hvora aðra.

Samfylkingin stendur vörð um almannahagsmuni
Stefna Samfylkingarinnar felur í sér að að almannahagsmunir séu látnir gilda umfram sérhagsmunina sem ríkisstjórnin hefur staðið vörð um. Stefna jafnaðarmanna hefur leitt af sér mestu umbæturnar á leikreglum í viðskiptum. Aðild okkar að EES hafði t.d. í för með sér miklar úrbætur á samkeppnislöggjöfinni. Aðild að ESB myndi fela í sér enn meiri umbætur á mörgum af ofangreindum annmörkum íslensks atvinnulífs.

Samfylkingin er eini kosturinn fyrir þá sem vilja að jafnt sé gefið í upphafi og staðið sé við að leiðrétta rangindi fortíðarinnar. Núverandi stjórnarflokkar hafa fært kvóta að verðmæti rúmlega 300 milljarða í hendur fárra. Samfylkingin hefur haft pólitískan kjark til að setja fram þessa réttlætisstefnu og mun framfylgja henni af einurð komist hún til valda.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand