Leikhús og bíóborgin Reykjavík

Reykjavíkurborg hefur þurft að glíma við illan þurs, þveran og úrilllan; Ríkið. Það er merkilegt að fylgjast með því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn í krafti ráðherravaldsins berst með bolabrögðum gegn kjörnum meirihluta í borgarstjórn. Í hvert sinn sem takast þarf á við stór og krefjandi samgöngumál er Sturla í veginum. Ríkið fer nefnilega með þann málaflokk á stórum svæðum í borginni í formi Vegagerðarinnar og Flugmálastjórnar. Þar er Sturla innsti koppur í búri. Reykvíkingar eru bíó og leikhúsglatt fólk sem gerir kröfur um úrval og gæði. Kvikmyndahátíðir hér í borg eru mjög vel sóttar, oft svo vel að nauðsynlegt er að framlengja sýningarfjölda kvikmynda svo að allir geti barið dýrðina augum. Leikhúslíf borgarinnar er spriklandi fjörugt og sýningar ótal margar á ári hverju. Ríkis- og borgarreknu leikhúsin standa fyrir sínu en Sjálfstæðu Leikhúsin hafa síður en svo verið þeirra eftirbátar. Árlega taka sjálfstæðu sviðslistahóparnir á móti 150.000-200.000 áhorfendum, hvorki meira né minna! Það er ótrúlega hátt hlutfall af öllum leikhúsgestum á ársgrundvelli og á sér varla hliðstæðu í öðrum löndum. Leikhóparnir eru æði fjölbreyttir og snerta flesta fleti leiklistarinnar í starfsemi sinni. Þeir heita margvíslegum nöfnum; Vesturport, 540 gólf, Kómedíuleikhúsið, Sögusvuntan, Draumasmiðjan, Sokkabandið, Möguleikhúsið og mörg, mörg fleiri. Leikhóparnir vinna öfluga grasrótarvinnu og það er áberandi hvað konur njóta sín vel innan vébanda sjálfstæðra leikhópa. Oft er talað um slæma stöðu kvenna í íslensku leikhúsi en hjá sjálfstæðu leikhópunum eru konur áberandi, bæði sem listamenn og stjórnendur. Fjölmenningin hefur fengið sitt pláss undir merkjum SL og er það afar jákvætt, enda snýst leikhús fyrst og fremst um fólk, ekki bara um menningararf þess svæðis sem leikhúsið er staðsett á.

Tjarnarbíó
Í átta ár hafa Sjálfstæðu Leikhúsin rekið Tjarnarbíó, í sögufrægu og gömlu íshúsi við Tjarnargötu. Leikhóparnir hafa þó sýnt víðs vegar um bæinn í hinum ýmsu sölum, á litlum og stórum sviðum. Reykjavíkurborg hefur lagt þeim húsið til án gjalds en SL hafa haft leigutekjur af Tjarnarbíói og Reykjavíkurborg hefur greitt rekstrarkostnað hússins. Nýverið styrktu Reykjavíkurborg og Menntamálaráðuneyti SL til að gera úttekt á húsinu og áætlun um breytingar á því. Hljómburður er frábær í húsinu og það hentar vel fyrir bíósýningar enda hefur húsið verið vinsæll vettvangur fyrir kvikmyndahátíðir. En aðstaða fyrir leikhópa og til leiksýninga er slæm og húsið í marga staði óheppilegt fyrir leikhússtarfsemi eins og staðan er í dag. Búninga- og leikaraaðstaða er varla til staðar, anddyri of lítið, ekkert skrifstofurými og sjálfur salurinn gallaður að mörgu leyti. SL lét gera fyrir sig teikningar að endurbótum á húsinu og þær lofa góðu. Í teikningunum er gert ráð fyrir að hið fallega og sérstaka útlit hússins haldi sér, sem og hvelfingin í lofti salarins, en það er einmitt hún sem gerir hljómburðinn svo afburða góðan. Einnig er gert ráð fyrir að reisa glerskála við aðra hlið hússins þar sem yrði aðstaða fyrir sýningar, fyrirlestra, kaffihús og aðra blómlega starfsemi.

Hagræðing
Það vinnst margt með því að koma starfsemi Sjálfstæðu Leikhúsanna undir eitt þak, markaðssetning og miðasala yrði öll á einni hendi og frábær tækniaðstaða í fullbúnu leikhúsi fyrir allar tegundir leikhúss. Síðastliðin ár hefur það viljað brenna við að kraftar leikhópanna hafa að stóru leyti farið í að viða að sér tækjabúnaði, sinna markaðsmálum og ófáum aurum kastað á glæ sökum óhagræðinnar sem í þessu felst. Það er lýjandi að byrja alltaf frá grunni á nýjum stað og finna hjólið upp í hvert skipti. Endurreisn Tjarnarbíós yrði sem happadrættisvinningur fyrir Sjálfstæðu Leikhúsin og þá hundruði þúsunda leikhúsgesta sem sækja sýningar þess á ári hverju og það má hnykkja á því að stór hluti gestanna eru börn sem Sjálfstæðu Leikhúsin hafa glatt og örvað af miklum myndugleik.

TjarnarBÍÓ
En kvikmyndir eru ekki síður vel sóttar af Reykvíkingum en leiksýningar. Lengi hefur verið þörf fyrir kvikmyndahús sem sinnir þeim bíógestum sem vilja sjá eitthvað annað en það sem rennur í stríðum straumi frá draumaborginni Hollywood. Þeir bíógestir hafa flykkst á kvikmyndahátíðirnar en sá böggull fylgir skammrifi að þá eru fleiri tugir frábærra kvikmynda í boði á nokkrum vikum og sannir bíóáhugamenn verða helst að taka sér frí í vinnunni til að vera nálægt því að hesthúsa öll herlegheitin. SL hafa sýnt því verulegan áhuga að sinna óhefðbundinni og óháðri kvikmyndagerð í húsinu, með reglulegum sýningum og vinna með þeim aðilum sem standa að kvikmyndahátíðum í Reykjavík, hvort sem um er að ræða langar eða stuttar myndir, erlendar eða íslenskar. Reykjavíkurborg er menningarborg og víðfræg sem slík. Leiðin hefur einungis legið upp á við síðastliðin ár og mikið í húfi að tryggja skapandi og kraftmiklu fólki sæti í borgarstjórn í kosningunum í vor.
Áfram Reykjavík!

Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið