Lætur ekki þagga niður í sér

Heiða Björg Hilmisdóttir er borgarfulltrúi, formaður ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur og varaformaður Samfylkingarinnar. Hún skipar 2. sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík og segir að valið í borginni snúist um það hvort við viljum halda áfram að þróa borg fyrir okkur öll eða hverfa aftur til fortíðar. Við tókum Heiðu tali í Ráðhúsi Reykjavíkur og ræddum við hana um #metoo-hreyfinguna, næturstrætó og áherslur hennar í borgarstjórn Reykjavíkur.

Þrátt fyrir að hafa alist upp í mjög pólitískri fjölskyldu hóf Heiða Björg ekki bein afskipti af stjórnmálum fyrr en árið 2013 þegar hún var kjörin í stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar. Hún tók fljótt við sem formaður Kvennahreyfingarinnar og var í kjölfarið farin að sitja fundi í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar. Þá var ekki aftur snúið og vorið 2014 gaf hún kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningar.

Vill hjálpa börnum sem eiga erfitt

„Mér fannst þörf á að gefa jafnréttismálum meira vægi á Íslandi og það var þess vegna sem ég fór inn í Kvennahreyfinguna,” segir Heiða um ástæður þess að hún hóf þátttöku í stjórnmálum. Kvennahreyfingin hvatti konur innan Samfylkingarinnar til að gefa kost á sér í sveitarstjórnum og þá fannst Heiðu skrítið að gera það ekki sjálf, hafandi fullt af skoðunum á því hvernig samfélagið ætti að vera.

„Þá hafði bæst við að sonur minn veiktist og í gegnum þá lífsreynslu að eiga veikt barn sem þarf mikla þjónustu fann ég fyrir því hvað þarf að slípa kerfið mikið svo það styðij betur við einstaklinginn. Ég fann líka fyrir því hvað við vorum í mikilli forréttindastöðu því ég var í þannig vinnu að ég gat skotist mikið frá til að aðstoða hann. Það eru alls ekki allir í þeirri stöðu þannig að ég fór að hugsa um allt fólkið sem hefur ekki sama bakland og sonur minn.

Heiða tók sæti í borgarstjórn Reykjavíkur þegar Björk Vilhelmsdóttir hvarf til annarra starfa árið 2015. Hún segir reynsluna af veikindum sonar síns hafa haft mikil áhrif á störf sín í borgarstjórn.

„Ég hef lagt áherslu á stuðning við börn sem eiga í erfiðleikum. Það á að vera hægt að hjálpa þeim hratt og örugglega. Við erum að ná árangri þar með því að minnka þessa tilhneigingu okkar til að setja alla á biðlista eftir greiningu og spyrja frekar börnin hvað þau þurfa.

Mikilvægt að útrýma ofbeldi í samfélaginu

Þrátt fyrir að hafa aðeins setið í borgarstjórn í þrjú ár hefur Heiða sannarlega sett mark sitt á borgina. Hún er m.a. formaður stjórnar Strætó og formaður ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkur sem hún hafði forystu um að setja á fót. Heiða segir það forréttindi að fá að hafa áhrif á samfélagið.

„Þau eru svo ótrúlega mikilvæg, þessi litlu augnablik þegar maður finnur að maður hefur áhrif, þó að aðrir viti kannski ekki af því eða maður fái ekki endilega kredit fyrir það. Sem borgarfulltrúi getur maður haft heilmikil áhrif. Ég á marga litla sigra sem ég er mjög stolt af, sérstaklega varðandi þjónustu við börn, fólk með fötlun og aldrað fólk. Svo er ég mjög stolt af Strætó, það hefur verið mjög gaman að vera stjórnarformaður þar og þar hefur mér tekist að ná fram mörgum litlum og stórum sigrum.

Þegar Heiða tók sæti í borgarstjórn lagði hún strax áherslu á baráttuna gegn ofbeldi. Hún er sérstaklega stolt af ofbeldisvarnarnefndinni sem borgarstjórn setti á fót sumarið 2015 og segir stofnun nefndarinnar hafa átt nokkurn aðdraganda. „Ég skrifaði greinar um að ég vildi stofna ofbeldisvarnarnefnd þegar ég var í prófkjörinu árið 2014 því mér finnst rosalega mikilvægt að sveitarfélög og ríki vinni markvisst að því að útrýma ofbeldi í samfélaginu, segir Heiða. Ofbeldisvarnarnefndin sé vettvangur sem sameini aðila frá borginni, grasrótarsamtök sem berjast gegn ofbeldi eða styðja við þolendur ofbeldis, lögregluna, landlækni og fleiri.

Heiða segir að nefndin hafi ekki setið auðum höndum. Hún hafi náð að setja ofbeldismál rækilega á dagskrá borgaryfirvalda þannig að ofbeldisforvarnir séu oft til umræðu í borgarráði og borgarstjórn. Nefndin hafi einnig hrint af stað verkefnum á borð við Bjarkahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Þá hafi hún sett af stað fræðslu á öllum skólastigum um ofbeldi og kynlíf og svarað þannig kalli ungmenna í borginni sem hafi ítrekað kallað eftir slíkri fræðslu.

„Nú erum við að setja af stað verkefni sem tengjast ofbeldi meðal aldraðra og fólks með fatlanir og ætlum að fara markvisst inn í allar stofnanir borgarinnar sem vinna með fötluðum til að fyrirbyggja ofbeldi. Við erum einnig að horfa á það hvernig við getum nálgast fólk af erlendum uppruna og karlmenn sem verða fyrir ofbeldi. Við höfum samþykkt aðgerðaráætlun gegn mansali og skipað teymi til að hindra að slíkt viðgangist, segir Heiða. Hún segir mikilvægt að Samfylkingin fái að leiða þetta mikilvæga starf áfram með jafnaðarstefnuna að leiðarljósi.

Reynt að þagga niður í konum

Heiða hefur einnig vakið athygli utan borgarstjórnar fyrir baráttu sína gegn ofbeldi. Hún stofnaði fyrsta íslenska #metoo-hópinn á Facebook en þar safnaði hún saman sögum íslenskra stjórnmálakvenna af ofbeldi og áreitni. Þá byrjaði boltinn að rúlla og nú hafa fjölmargir hópar komið fram og sagt sínar sögur. „Ég er mjög stolt af #metoo-hreyfingunni. Hún beinir augum okkar að samfélagsmeini sem við höfum horft allt of lengi framhjá. Við vitum að nánast allar konur verða fyrir áreitni og ein af hverjum þremur verður fyrir ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni. Einn af hverjum tíu strákum verður fyrir ofbeldi fyrir 18 ára aldur. Þetta er óásættanlegt. Áhrifin af ofbeldi geta verið svo langvarandi og alvarleg og þetta kostar okkur sem samfélag gríðarlega mikið, segir Heiða.

#Metoo-hreyfingin hefur undið upp á sig upp á síðkastið og nýjustu hóparnir til að stíga fram með sögur sínar eru konur af erlendum uppruna og konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi sem börn. Heiða segir mikilvægt að jaðarsettar konur stigi fram með sínar sögur. „Við lögðum mikla áherslu á það, við forréttindakonurnar sem komu fram fyrst, að styðja við aðra jaðarsettari hópa kvenna. Þessi hreyfing hefur sannarlega sannað mikilvægi sitt og ég er mjög stolt af því að hafa átt þátt í því að koma þessu af stað. Ég er líka þakklát fyrir það hvernig konur á Íslandi komu með og tóku þátt í þessu.

Heiða hefur orðið fyrir aðkasti frá þeim sem hún kallar „háværan en mjög fámennan hóp karlmanna” vegna þátttöku sinnar í #metoo-hreyfingunni. Þetta séu karlar sem finnst konur vera komnar út fyrir einhver mörk. „Sumir karlar eru alveg með mig á heilanum og fara varla í útvarpsviðtal án þess að nefna hvað ég sé hræðileg.”

Aðkastið hefur gengið óþægilega langt að mati Heiðu, svo langt að einu sinni var skorið á dekkin hjá konu sem hefur tekið virkan þátt í hreyfingunni. „Mér fannst þetta svolítið erfitt á tímabili en ég ætla ekki að láta þetta stoppa mig. Þetta er gert til að þagga niður í okkur en við ætlum ekki að leyfa þeim að gera það. Það er mikilvægt að #metoo-byltingin líði ekki út af heldur haldi áfram og það er hlutverk okkar allra að sjá til þess að hún skili sér í varanlegum breytingum á samfélaginu.

Fólk fái að skilgreina kyn sitt sjálft

Heiða segir að meirihlutinn í Reykjavík hafi ekki látið sitt eftir liggja í baráttunni fyrir jafnrétti. Borgin hafi t.d. sett þá skyldu á íþróttafélögin að þau bjóði upp á jafn góða íþróttaaðstöðu fyrir stelpur og stráka. Nú sé borgin að skoða sérstaklega hvernig hún geti mætt hinum kynjunum og líti t.a.m. til kynlausra búningsklefa í sundlaugum. Heiða bendir á að Reykjavík hafi verið fyrsta sveitarfélagið sem gerði samning við Samtökin ‘78 um fræðslu í grunnskólum og nú sé borgin að leita til Samtakanna um samstarf til að fyrirbyggja ofbeldi gegn hinsegin fólki.

„Eitt af þeim góðu verkefnum sem ég hef komið nálægt er Heilsueflandi samfélag og hluti af því er að fylgjast mjög náið með líðan ungmenna í hverfunum okkar. Við sjáum það að börn sem eru óviss um kynhneigð sína eða kyn, þeim líður langverst. Þannig að þessi fræðsla í skólunum um að það sé allt í lagi að vera öðruvísi, hún er gríðarlega mikilvæg. Heiða segir að samfélagið verði að átta sig á því að það sé ekki hlutverk þess að ákveða hvaða kyn fólk eigi að vera, fólk verði að fá að ákveða það sjálft. „Þess vegna viljum við halda áfram þessu starfi og ætlum til dæmis að taka út þessa kyngreiningu í kerfinu þannig að fólk sé ekki alltaf þvingað til að skilgreina sig sem annað hvort karl eða konu.

Strætó á að vera fyrir alla

Sem formaður stjórnar Strætó hefur Heiða beitt sér fyrir bættri þjónustu. Um síðustu áramót var tíðni aukin á háannatíma auk þess sem akstur var lengdur á kvöldin. Þá býður Strætó nú upp á næturakstur um helgar, í fyrsta sinn í fleir ár.

„Þessi ár sem ég er búin að vera stjórnarformaður Strætó hafa verið ótrúlega skemmtilegur tími. Það er mikill áhugi núna á almenningssamgöngum. Fólk er að vakna til meðvitundar um að við getum ekki haldið áfram að nota einkabílinn svona mikið. Börnin okkar eru að anda að sér bíldekkjum og malbiki og það er eitthvað sem við verðum að þora að tala um.

Heiða segir að breytingarnar um síðustu áramót hafi miðað að því að koma til móts við það sem notendur Strætó voru að kalla eftir. Kannanir hafi sýnt að fólk hafi vildi traustari þjónustu, ekki endilega ódýrari. Meðal þess sem kallað var eftir var meiri tíðni og að Strætó gengi lengur á kvöldin þannig að maður gæti klárað bíómyndina sína eða jafnvel kíkt á barinn og farið heim með Strætó. Þá var ákveðið að prófa að lengja akstur á kvöldin og hefja næturakstur um helgar.

„Það voru margar úrtöluraddir sem sögðu að þetta yrði ekki hægt, vagnarnir yrðu bara fullir af fullu ungu fólki í slagsmálum. Við höfðum meiri trú á unga fólkinu en það og kýldum á þetta, segir Heiða. Næturstrætó hafi gengið mjög vel og að ekki hafi komið upp neinar meiri háttar uppákomur. Heiða segir næturstrætó líka snúast um að jafna tækifæri fólks, því verið sé að bæta þjónustu við fólk sem vinni á óhefðbundnum tímum. „Strætó á að vera fyrir alla og þú þarft ekki að þurfa að eiga bíl til að komast á milli staða í borginni.

Meirihlutinn í Reykjavík leggur mikla áherslu á almenningssamgöngur og eitt af kosningamálum Samfylkingarinnar er að það verði sett upp borgarlína sem tengir saman allt höfuðborgarsvæðið.

„Borgarlínan er í rauninni bara flottir rafmagnsstrætisvagnar sem keyra á sérakgreinum. Þetta þýðir að þjónustan verði áreiðanlegri og vagnarnir alltaf á réttum tíma. Þá held ég að við munum sjá alvöru aukningu í notkun almenningssamgangna því á meðan strætó er fastur í umferðinni eins og hinir bílarnir, þá er erfitt að tryggja að hann sé á réttum tíma.

Valið er skýrt í borginni

Flestar skoðanakannanir benda til þess að meirihlutinn í borginni haldi velli. Segja má að tveir turnar berjist um völdin í borginni, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn. Heiða segir að val borgarbúa sé skýrt.

„Þessar kosningar snúast um það hvort við viljum halda áfram að þróa borgina í þá átt að vera borg fyrir okkur öll eða hvort við viljum horfa aftur til fortíðar og byggja upp gamaldags borg. Græna borg með góðar og áreiðanlegar almenningssamgöngur og líflegt mannlíf eða borg fyrir bíla þar sem úthverfin stækka og mengun eykst. Fjölbreytta borg með blönduðum og skemmtilegum hverfum eða stéttaskipta borg þar sem fólki er skipt upp í hverfi fyrir fátæka og hverfi fyrir ríka.

Heiða segir að þessi áherslumunur sjáist líka í skólamálunum, þar sem við valið standi á milli fjölbreyttra skóla þar sem börn hafa jöfn tækifæri eða einkaskóla þar sem börn eru flokkuð eftir efnahag og félagslegri stöðu. Samfylkingin hafi lagt áherslu á að þétta borgina og byggja upp ódýrt leiguhúsnæði í samstarfi við verkalýðshreyfinguna og samtök stúdenta á meðan Sjálfstæðismenn sjái fyrir sér frekari útþenslu byggðarinnar sem muni auka umferðarvandann í borginni og kalla á meiri kostnað í gatnakerfinu.

„Við viljum meiri jöfnuð og höfum verið að auka þjónustu við fólk sem þarf á henni að halda. Sjálfstæðismenn hafa hins vegar verið að leggja fram tillögur allt kjörtímabilið um að lækka fjárhagsaðstoð og draga úr stuðningi við þá sem hafa minna á milli handanna. Þannig að það eru mjög ólíkar áherslur í borginni um það hvert við viljum stefna og valið er skýrt.

Heiða var kjörin varaformaður Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins fyrr á þessu ári. Hún segir allt benda til þess að Samfylkingin muni hljóta gott gengi í komandi sveitarstjórnarkosningum.  

Flokkurinn hefur verið að eflast síðasta ár og í Alþingiskosningum tókum við stórt skref í þá átt að vinna fyrri styrk. Í komandi sveitarstjórnarkosningum höfum við alla möguleika á að styrkja stöðu okkar og það skiptir miklu máli að jafnaðarfólk stjórni sveitarfélögum. Mikið af nýju öflugu fólki hefur komið til liðs við okkur í bland við reynslumeira fólk. Með ríkisstjórn sem stendur fyrir kyrrstöðu er mikilvægt að jafnaðarfólk fái brautargengi til að stýra sveitarfélögum um allt land og vinni samhent að því að bæta samfélagið og nærþjónustu við íbúa.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand