Reykjavík er höfuðborg okkar allra. Þess vegna skiptir máli að hún sé fjölbreytt, lifandi og skemmtileg og haldi áfram að vera borg fyrir okkur öll.
Ég vil búa í höfuðborg þar sem hægt er að ganga, hjóla og taka strætó milli hverfa. Þar sem hægt er að taka Borgarlínu hratt og örugglega borgarmarka á milli og minnka mengun í leiðinni. Þar sem auðvelt er að rölta í sund, á kaffihús og í verslanir. Þar sem leiðirnar á þessa staði eru gerðar fyrir gangandi og hjólandi fólk en ekki einungis fyrir bíla.
Þannig borg vil ég – og þannig borg eigum við öll að geta tekið þátt í og búið í. Hún einkennist af blandaðri byggð þar sem stúdentaíbúðir, íbúðir fyrir eldri borgara, íbúðir verkalýðshreyfingarinnar og félagsbústaða eru hluti af öllum hverfum. Borg þar sem þeim sem minnst eiga á milli handanna er ekki hrúgað í ný hverfi á útjaðrinum langt frá hverfum fyrir efnað fólk. Borg sem einkennist af líflegu háskólasvæði þar sem nóg er til af stúdentaíbúðum og þær eru til staðar í nálægð við háskólann. Enda er þéttari byggð forsenda aukinnar þjónustu við þá sem þar búa fyrir.
Ég vil líka búa í borg þar sem verkefni á borð við Druslugönguna eru styrkt af yfirvöldum og átökum til að útrýma kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi er gert hátt undir höfði. Ég vil búa í borg þar sem miðstöðvar eins og Bjarkarhlíð eru starfræktar og brugðist er af festu við áköllum eins og #metoo. Borg þar sem unnið er markvisst að því að útrýma kynbundnum launamun jafnvel þó launamunur ríkisins og almenna markaðarins sé að aukast á sama tíma. Borg þar sem hatursorðræða er fordæmd og markvisst er unnið að því, í samstarfi við grasrótarhreyfingar, að útrýma fordómum gagnvart minnihlutahópum með fræðslu og opnu samtali.
Þannig borg vil ég búa í – og það er borgin sem Reykjavík er og stefnir áfram í að vera ef núverandi meirihluti heldur velli. Þess vegna er mikilvægt að við öll sem trúum á þessa sýn fyrir höfuðborgina okkar tökum þátt í að halda í hana. Tökum virkan þátt í kosningunum framundan og kjósum!
Áfram Reykjavík.
Ragna Sigurðardóttir er kosningastýra Samfylkingarinnar í Reykjavík og skipar 9. sæti listans