Í maí eru 20 ár liðin síðan Jóhanna Sigurðardóttir flutti lengstu ræðu sem flutt hefur verið í sögu Alþingis. Þá talaði Jóhanna í rúmar 10 klukkustundir til að berjast gegn áformum ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks um að leggja niður verkamannabústaðakerfið.
Af þessu tilefni fengu Ungir jafnaðarmenn 40 fulltrúa Samfylkingarinnar til að endurflytja ræðu Jóhönnu í heild sinni í miðborginni á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins, 1. maí. Ræðuhöldin hófust kl. 09:00 um morguninn og meðal flutningsmanna voru sveitarstjórnarfulltrúar, þingmenn og fyrrverandi forystufólk flokksins. Þegar Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hafði lokið við að flytja síðasta hluta ræðu Jóhönnu steig Jóhanna sjálf í ræðustól og flutti ræðuna sem hún flutti þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu og sagðist þá eiga margt ósagt um málið.
Með ræðuhöldunum vildu Ungir jafnaðarmenn vekja athygli á húsnæðisvandanum og krefjast endurreisnar hins félagslega húsnæðiskerfis sem Jóhanna barðist svo ötullega fyrir. Í hennar tíð sem félagsmálaráðherra var uppbygging félagslegs húsnæðis 36% af heildarfjölda íbúðabygginga þess tíma. Ef verkamannabústaðakerfið hefði ekki verið lagt niður má ætla að um 12 þúsund íbúðir væru innan þess kerfis í dag.
Myndir: Jónas Már Torfason