Ungir jafnaðarmenn kalla eftir kosningum á fyrri hluta næsta árs og fullyrða að innganga í Evrópusambandið sé forsenda þess að vel takist til við uppbyggingu landsins. Þá myndi afdráttarlaus yfirlýsing um að Íslendingar stefndu að upptöku evru auka líkur á að vel tækist til við fleytingu krónunnar.
Ungir jafnaðarmenn vilja að kosið verði til Alþingis á fyrri hluta næsta árs. Það er nauðsynlegt til þess að ná sátt í íslensku samfélagi. Pólitískt umhverfi Íslands er breytt eftir fall fjármálakerfisins og kjósendur eiga að fá tækifæri til þess að hafa áhrif á hvernig uppbyggingu Íslands verður háttað. Ríkisstjórn landsins þarf að sækja nýtt umboð til þjóðarinnar.
Stjórnmálaflokkarnir þurfa á endurnýjun að halda. Bæði hvað varðar málefni og mannskap. Grasrót flokkanna verður að hafa áhrif á forgangsröðun þeirra. Það er undirstaða fulltrúalýðræðisins, stjórnskipulagsins sem við byggjum á.
Ungir jafnaðarmenn fullyrða að kosningar og innganga í Evrópusambandið sé forsenda þess að vel takist til við uppbyggingu landsins. Mótrökin gegn inngöngu í Evrópusambandið eru veigalítil í samanburði við kostina. Afdráttarlaus yfirlýsing um að Íslendingar stefndu að upptöku evru myndi auka líkur á að vel tækist til við fleytingu krónunnar.