Almenningur þarf svör strax

„Hallveig – ungir jafnaðarmenn í Reykjavík krefst þess að stjórnvöld móti skýra stefnu að framtíð sem ungir sem aldnir Íslendingar geta sætt sig við. Við sættum okkur ekki við að vera fangar húsnæðisskulda um ókomin ár vegna óréttlátrar verðtryggingar sem er til komin vegna ónýts gjaldmiðils,“ skrifar Guðrún Birna Le Sage de Fontenay, formaður Hallveigar.

Hallveig – ungir jafnaðarmenn í Reykjavík krefst þess að stjórnvöld móti skýra stefnu að framtíð sem ungir sem aldnir Íslendingar geta sætt sig við. Við sættum okkur ekki við að vera fangar húsnæðisskulda um ókomin ár vegna óréttlátrar verðtryggingar sem er til komin vegna ónýts gjaldmiðils.

Lausn til framtíðar
Stjórnvöld hafa nú valið þá áhættusömu leið að taka stórt lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að koma gjaldeyrisviðskiptum við Ísland í gang. Þetta er eflaust illskársta leiðin ef leggja á í  björgunarleiðangur til að koma íslensku krónunni á flot. En er hún áhættunnar virði? Eins og staðan er nú erum við með nær ónothæfan gjaldmiðil en fari allt á versta veg gæti niðurstaðan, eftir fleytingu krónunnar, verið ónýtur gjaldmiðill og sex milljarða dollara skuldsetning. Þessi áhætta kallar á að við ræðum alvarlega aðrar lausnir án tafar.

Hallveig harmar að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki dug til að endurskoða hug sinn til Evrópusambandsaðildar og upptöku Evru þegar í stað. Allar helstu forsendur gegn Evrópusambandsaðild eru brostnar og ef Sjálfstæðismenn hafa ekki kjark og dug til að leysa innanflokkserjur um málið á flokkurinn að stíga til hliðar svo hægt sé að móta lausnir til framtíðar án tafar.

Lausn til skemmri tíma til að milda fallið fyrir almenning
Það sem brennur helst á Hallveigu er að settar verði fram lausnir þegar í stað sem koma í veg fyrir að vítahringur óðaverðbólgu og gífurlegra hækkana skulda almennings rúlli af stað um leið og krónan verður sett á flot. Íslenskur almenningur mun á næstu árum taka á sig mikla kjaraskerðingu vegna rýrnunar kaupmáttar launa, atvinnuleysis og þeirra miklu skulda sem hann mun þurfa að greiða með skatttekjum sínum næstu tugi ára. Ekki er á það bætandi að missa grunnundirstöðuna í lífinu, húsaskjól, vegna óréttlátrar verðtryggingar eða gengistryggingar eins og vísara væri að kalla hana við þjóðfélagsaðstæður okkar nú.

Hin séríslenska verðtrygging átti upprunalega að tryggja að verðgildi lána héldist samhliða aukinni þenslu og verðbólgu í samfélaginu. Verðabólga næstu mánuða er hins vegar ekki byggð á þenslu heldur hruni ónýts gjaldmiðils sem er varla eingöngu á ábyrgð almennings. Óhætt er að fullyrða að forsendubrestur hafi orðið frá því fólk tók lán. Það treysti stjórnvöldum til að standa við yfirlýst verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Gefum Íslendingum von svo þeir flýi ekki land
Nú er svo komið að almenningur hefur á síðustu árum keypt húsnæði á verði sem var langt yfir raunvirði og skuldsett sig mikið. Stjórnvöld eru að vinna að því að koma til móts við þá sem horfa fram á greiðsluerfiðleika en betur má ef duga skal. Spáð er mikilli verðbólgu og hruni á fasteignaverði. Ef almenningur sér ekki fram á annað en frelsisskerðingu og að skuldir vaxi yfir eignir þá munum við sjá fram á flótta þeirra úr landi. Sá flótti er þegar hafinn. Skoða verður aðrar lausnir en þær að lengja í hengingarólinni.

Hallveig leggur til að sett sé þak á þá prósentu sem verðtryggðu lánin geta hækkað um. Hún mætti til dæmis miðast við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Seðlabankinn og ríkið þarf að taka ábyrgð á eigin hagstjórnarmistökum og nær ónýtum örgjaldmiðli. Lífeyrissjóðirnir munu fá á sig högg við þetta en það sama gildir um alla launþega í landinu á tímum sem þessum. Hafa ber í huga að lífeyrisþegar eru einnig líklegir til að vera í skuldsettu húsnæði og hafa því eigi að síður þeirra hagsmuna að gæta að koma í veg fyrir mikla hækkun verðtryggðra skulda. Skerðist réttindi núverandi lífeyrisþega gæti Tryggingastofnun bætt þann skaða upp af sömu ástæðum og áður voru nefndar.

Stjórnvöld í lið með fólkinu í landinu
Að lokum vill Hallveig brýna fyrir stjórnvöldum að það sem skiptir nú öllu máli ef við eigum að komast yfir þessar þrengingar er að allir sem einn séu tilbúnir til að spýta í lófana og hefjast handa við að endurreisa Ísland. Við þurfum því að halda vinnufæru fólki í landi og mæta grundvallarþörf þess að eiga öruggt húsaskjól. Ef ekki verður komið í veg fyrir að óréttlát verðtrygging éti upp eignir fólksins í landinu þá upplifir almenningur varla þá liðsheild sem nú er svo nauðsynleg.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið