Fátt er jafn órjúfanlegur hluti af áramótastemmningunni og að tala illa um skaupið. Þá rifjar maður upp hvað skaupið í fyrra var hrikalegt, staðfestir að í ár sé það jafnvel enn verra og spáir því að það verði vont um næstu áramót líka, en rámar í að skaupið ´95 hafi verið ágætt. Reyndar var ég tíu ára þá og fannst allt fyndið þó ég skildi það ekki eða kannski einmitt þess vegna. Fátt er jafn órjúfanlegur hluti af áramótastemmningunni og að tala illa um skaupið. Þá rifjar maður upp hvað skaupið í fyrra var hrikalegt, staðfestir að í ár sé það jafnvel enn verra og spáir því að það verði vont um næstu áramót líka, en rámar í að skaupið ´95 hafi verið ágætt. Reyndar var ég tíu ára þá og fannst allt fyndið þó ég skildi það ekki eða kannski einmitt þess vegna.
Ekki var útlitið vænlegra þegar fréttist að Spaugstofudrengirnir ættu að fá að spreyta sig á skaupinu í þetta sinn. Það er reyndar alls ekki óeðlileg hugmynd þar sem þeir ættu að vera orðnir æfðir í þeim eftirhermum og vísnasöng sem skaupið samanstendur yfirleitt af, með áratuga þjálfun. Hoknir af reynslu, á fótboltamáli.
Það sem einkum vakti athygli í skaupinu í ár var sú hugmynd Spaugstofumanna að láta fólkið sem þeir gerðu grín að leika sig sjálft. Davíð Oddsson í hlutverki Davíðs Oddssonar lagðist á skurðarborðið, Vala Matt í hlutverki Völu Matt skoðaði skemmtileg rými. Sumir voru hrifnir af þessu, mér fannst það vandræðalegt. Hins vegar vakti þessi nýjung í hlutverkaskipaninni athygli mína því hún staðfesti það sem fyrr eða síðar hlaut að gerast: Spaugstofan hefur gefist upp fyrir pólitíkusunum. Hún hefur loksins viðurkennt tilgangsleysi sitt. Stjórnmálamennirnir eru búnir að ræna íslenska eftirhermugrínara hlutverki sínu og eru farnir að jarða sig sjálfir algjörlega hjálparlaust.
Ég meina – ef við lítum á liðið ár, hvernig er hægt að gera það hlægilegra en það var? Þingmenn kalla hvern annan gungur og druslur. Fráfarandi forsætisráðherra líkir Írökum við eigið krabbamein. Það fyrsta sem fólki dettur í hug í baráttunni við offitu er að hætta að auglýsa mat fyrr en eftir tíu á kvöldin, eins og það sé sjónvarpið sem beri ábyrgð á litlu stóru börnunum en ekki djúpsteiktir foreldrar þeirra. Dómsmálaráðherra ákveður að skeina sér á jafnréttislögunum.Tveir ráðherrar taka þá ákvörðun upp á sitt einsdæmi að vond athygli sé betri en engin athygli og það sé til þess vinnandi að styðja innrás Bandaríkjanna í Írak til að hægt sé að gera grín að Íslendingum á alþjóðavettvangi. Ég meina, vá, við komumst í Fahrenheit 9/11! Og síðast en ekki síst greip annar fyrrnefndra ráðherra til svo róttækra aðgerða til að klekkja á fólkinu sem hann var ekki að fíla að meiraðsegja Mogginn tók andköf og Árvakur sendi út mótmælayfirlýsingu. Svo bregðast flokkstré sem önnur tré.
Ef ég hefði séð þetta allt saman sett upp í Spaugstofuþátt hefði ég öskrað af hlátri og hugsað með mér að þeir væru kannski að ná sér á strik, kallarnir. En ekkert af þessu var djók heldur einhvers konar absúrd tragikómedía sem olli því að grínarar þessa lands standa uppi efniviðslausir og geta ekkert gert nema víkja auðmjúkir burt úr hlutverkum sínum og leyfa pólitíkusunum að taka alfarið við. Kannski losnum við loksins við Spaugstofuna. Í staðinn verða teknar upp sýningar á fréttaannál vikunnar á eftir Gísla Marteini og ef við reynum að gleyma því að þetta fólk sé í alvörunni á flippinu á Alþingi Íslendinga á hverjum degi þá gætum við bara skemmt okkur konunglega.