Á meðan við Íslendingar búum í einu ríkasta þjóðfélagi heims þá er það til háborinnar skammar hversu illa við gerum við þá kynslóð sem varðaði leið okkar til þessarar velsældar. Málefni eldri borgara hafa því miður setið á hakanum í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ekki hefur verið unnið að bættum kjörum, auknu vali og auknum mannréttindum hjá þessum hóp eins og þeir hafa margsinnis kallað eftir heldur hafa aðgerðir þessarar ríkisstjórnar gert það að verkum að kjör þeirra hafa dregist verulega aftur úr kjörum annarra þjóðfélagshópa. Í fréttum í vikunni var rætt um fyrirhugaða álversverksmiðju á Norðurlandi og er nú svo komið að stefna stjórnvalda miðar að því að reisa slíkar verksmiðjur á hverju landshorni. Endurspeglast þessi umræða í stefnu stjórnvalda í atvinnumálum þjóðarinnar sem oft á tíðum er í engum takti við nútímann. Á sjöunda áratug síðustu aldar hófst uppbygging stóriðju hér á landi með tilheyrandi virkjanaframkvæmdum og má segja ekki sjái fyrir endan á þeirri uppbyggingu.
Það hlýtur að vera markmið stjórnvalda í hverju landi að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi þar sem að reynt er að takmarka vægi einstakra atvinnugreina. Við Íslendingar ættum nú ekki að vera búnir að gleyma þeim áhrifum sem samdráttur í sjávarútvegi hafði á þjóðfélagið og atvinnulífið hér á árum áður. Á síðustu árum 10-15 árum hefur fjölbreyttni í íslensku atvinnulífi aukist til allrar hamingju. Íslensk fyrirtæki hafa í kjölfar aukins frjálsræðis á markaði haldið í útrás á erlenda markaði með góðum árangri að jafnaði. Fjármálafyrirtæki, fjárfestingafyrirtæki og hátæknifyrirtæki hafa vakið athygli bæði hér heima og erlendis fyrir framgöngu sína á erlendum mörkuðum. Svo er nú komið að vægi hátækniiðnaðar í gjaldeyristekjum er orðið meira en í sjávarútvegi og stóriðju.
Því miður virðist sem svo að skammtímasjónarmið ráði ríkjum hjá núverandi stjórnarflokkum, ekki síst Framsóknarflokknum. Eina lausnin í atvinnumálum landsbyggðarinnar felast í að reisa álver í hverjum landsfjórðung. Með þeirri stefnu eru Íslendingar farnir að keppa við láglaunasvæði í frumframleiðslu og lágtækniiðnaði. Nú þegar erum við farin að sjá afleiðingar þessarar stóriðjustefnu þar sem að hátæknifyrirtæki hafa á síðustu misserum íhugað að flytja hluta af starfsemi sinni erlendis þar sem starfsumhverfið er vænlegra.
Ég verð að játa að ég óttast mjög framtíðarsýn Framsóknarflokksins í atvinnumálum. Hér vil ég sjá öflug hátæknifyrirtæki, fjölbreytt atvinnulíf og öfluga háskóla í framtíðinni. Tel ég vænlegra til árangurs að virkja íslenskt hugvit en íslenskar fallvötn. Til þess að standast erlenda samkeppni, auka hér kaupmátt og velmegun þarf að auka áherslu á hátækniiðnað, menntun og rannsóknir.
Það er ýmislegt sem stjórnvöld geta gert til þess að greiða fyrir uppbyggingu hátækniiðnaðar. Nauðsynlegt að tryggja atvinnulífinu stöðugt starfsumhverfi og stöðugan gjaldmiðil. Taka þarf upp skattalaga hvata til rannsóknar og þróunarstarfs innan fyrirtækja líkt gert hefur verið í öðrum ríkjum. Efla þarf menntastofnanir landsins og hvetja fólk til náms á verk- og tæknisviðum. Síðast en ekki síst þurfa stjórnvöld að móta markvissa stefnu með skýr markmið á sviði hátækniiðnaðar.
Frá umhverfislegum sjónarmiðum fara stóriðjuframkvæmdir og umhverfisvernd illa saman. Sérstaða Íslands á alþjóðlegum vettvangi felst í ósnortinni náttúru þar sem hingað koma árlega þúsundir ferðamanna til þess að upplifa nátttúru sem á sér enga líka. Fórnarkostnaður við eitt stykki álver er umtalsverður og með óafturkræfum framkvæmdum verða menn að vega og meta áhrif virkjunar á umhverfi sitt. Veltir maður fyrir sér í hver framtíðarsýn Framsóknarflokksins sé í umhverfismálum. Hvernig vill flokkurinn skila af sér landinu til komandi kynslóða?.
Það er mikilvægt að stjórnvöld fari að horfa til framtíðar þegar unnið er að atvinnumálum þjóðarinnar. Það er von mín að sjá hér í framtíðinni vel menntað þekkingarsamfélag en í dag er staðreyndin sú að um 40% af vinnuafli á Íslandi hefur lokið stúdentsprófi sem er undir meðaltali OECD. Ljóst er að núverandi atvinnumálastefna eykur ekki það hlutfall á næstunni.
Mynd: www.angliacampus.com