Keflavíkurflugvöllur 3. hluti – Óþrjótandi möguleikar

Á Suðurnesin fluttist fjöldi fólks víða að af landinu til að stunda þá atvinnu sem þar var að fá eftir að herinn hóf hér starfsemi sína. Þessi stóri vinnustaður hafði veruleg áhrif á aðra atvinnustarfsemi. Oft hafa Suðurnesin ekki notið sömu fyrirgreiðslu vegna þess að „þar var herinn”. Óþrjótandi möguleikar
Á Suðurnesin fluttist fjöldi fólks víða að af landinu til að stunda þá atvinnu sem þar var að fá eftir að herinn hóf hér starfsemi sína. Þessi stóri vinnustaður hafði veruleg áhrif á aðra atvinnustarfsemi. Oft hafa Suðurnesin ekki notið sömu fyrirgreiðslu vegna þess að „þar var herinn”.

Nú í samdrættinum þrengir að. Það má ekki loka augunum fyrir því sem er að gerast. Nagandi óvissa um framtíðina og óundirbúinn samdráttur eins og hann kemur nú fram er eins og hægfara dauði. Lítið gerist, menn reyna að hanga í því sem þeir hafa, þora ekki að hugsa annað af ótta við að haldreipið slitni. Það verður því að gefa Suðurnesjamönnum nýja von, benda á aðra möguleika og sýna vilja til að hrinda þeim í framkvæmd. Það eru hagsmunir byggðanna á Suðurnesjum að tekið verði af alvöru á þeim vanda sem vera hersins hefur skapað á svæðinu.

Hér á eftir ætla ég að nefna nokkur dæmi sem skoða þarf af fullri alvöru, einmitt út frá því ástandi sem hér getur skapast.

Innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar
Lengi hefur verið rætt um þann möguleika að flytja innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar. Margir kostir eru við það. Búast má við að aukinn kostnaður af rekstri flugvallarins lendi á Íslendingum í framtíðin og því enn nauðsynlegra að auka nýtingu hans og losna við kostnað við rekstur annars flugvallar í tæpra 50 km. fjarlægð. Tvöföldun Reykjanesbrautar auðveldar flutning til og frá flugvellinum til höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt mætir þetta óskum margra Reykvíkinga um að losa um landið í Vatnsmýrinni.

Landhelgisgæsluna til Suðurnesja
Ein ástæða þess að íslensk stjórnvöld héldu fast í það að flugherinn væri hér með ,,trúverðugar varnir” var sú staðreynd að það kallaði á veru þyrlubjörgunarsveitarinnar hér. Á Keflavíkurflugvelli er aðstaða fyrir þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og hafnaraðstaða t.d. í Keflavíkurhöfn.

Fangelsi
Bent hefur verið á að það gæti falið í sér verulegan sparnað fyrir íslenska ríkið að nýta húsnæði Íslenskra Aðalverktakar undir nýtt ríkisfangelsi. Sé jafnframt tekið tillit til atvinnuástandsins hér og að mikilvægt er að húsnæði sem er að losna vegna minnkandi umsvifa hjá hernum fái nýtt hlutverk, virðist áhugavert að þessi kostur sé skoðaður af mikilli alvöru.

Kvikmyndaver
Nokkuð langt er orðið síðan bent var á möguleika á að nýta hluta af aðstöðunni á Keflavíkurflugvelli undir kvikmyndaver. Þarna eru stór hús sem hægt er að nýta til slíkrar starfsemi. Sumir gerðu góðlátlegt grín að þessari hugmynd þegar hún var fyrst sett fram. Sú gróska sem verið hefur í kvikmyndagerð hér á landi gerir þessa hugmynd þó enn áhugaverðari. Framtíðarmöguleikar okkar á þessu sviði eru miklir og þessi hugmynd því verulega áhugaverð, fáist menn til að vinna í þessu máli af alvöru.

Háskólabær, orkugarðar
Nýlega kom fram að sérstök staðarvalsnefnd vegna Tækniháskólans er nú að skoða sjö hugsanlega staði fyrir nýja byggingu skólans. Búist er við að nefndin skili af sér tillögum til menntamálaráðuneytisins á næstu dögum. Áhugaverð staðsetning fyrir skóla á háskólastigi gæti einmitt verið á Suðurnesjum. Á Keflavíkurflugvelli er mikið húsnæði sem kemur til með að losna, húsnæði sem ekki má fara á almennan markað, en gæti hentað vel sem stúdentagarðar. Þar eru líka margvíslegir aðrir kostir s.s. félagsaðstaða, leikskóli, íþróttahús og þannig mætti áfram telja. Það fólk sem þar býr nú hefur nýtt margvíslega þjónustu í nágrannasveitarfélögunum. Þess vegna má tala um nokkra umframgetu í þjónustu t.d. í Reykjanesbæ. Fjöldi fólks á Suðurnesjum sækir háskólanám til Reykjavíkur. Tvöföldun Reykjanesbrautar og hugsanlegur innanlandsflugvöllur gerir Suðurnesin að tilvöldu svæði fyrir háskóla.

Hugmyndir hafa verið uppi um orkugarða sem tengst gætu því háhitasvæði sem hér er. Hitaveita Suðurnesja er leiðandi aðili í orkunýtingu. Slík aðstaða í tengslum við háskóla gæti skapað gott sambýli.

Heilsutengd ferðaþjónusta
Töluverðir möguleikar geta falist í móttöku ferðamanna sem hingað vilja leita sér til heilsubótar. Bláa Lónið er leiðandi fyrirtæki á því sviði. Margir telja að hægt sé að færa út kvíarnar og bjóða jafnvel uppá margvíslegar læknisaðgerðir. Á Keflavíkurflugvelli er sjúkrahús, við brottför hersins gæti skapast möguleiki á að nýta það í þessum tilgangi.

Styrking ferðaþjónustunnar
Það sem hér hefur verið nefnt mun jafnframt nýtast til að styrkja enn frekar almenna ferðaþjónustu á svæðinu. Möguleikarnir eru miklir og má t.d. nefna safn um landafundina sem gerði grein fyrir siglingum víkinga hingað og héðan til vesturheims. Hér er til staðar skip, Íslendingur, sem er eftirlíking af skipum forfeðra okkar og því hefur verið siglt þá leið sem þeir sigldu forðum. Hér eru miklir möguleikar sem kæmu til með að styrkjast með nýjum áherslum í atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Stjórnvöld hafa brugðist
Því miður hafa stjórnvöld ekki látið hagsmuni Suðurnesjamanna ráða sínum gjörðum. Hagsmunir þeirra sem starfa hjá hernum eru ekki þeir að vera í stöðugri óvissu um framtíðina, að kjör þeirra séu skorin jafn og þétt niður og að þrengt sé að þeim á allan hátt. Þeirra hagsmunir eru fyrst og fremst að hafa trausta og örugga vinnu, ekki endilega að hafa vinnu hjá bandarískum her. Stjórnvöld þurfa því að beita sér á allan hátt til að efla atvinnu til mótvægis við þann samdrátt sem nú á sér stað. Leita þarf allra leiða til uppbyggingar og möguleikarnir eru margvíslegir, mun fleiri en hér hafa verið nefndir. Til að nýta þá þurfa menn hins vegar að vera tilbúnir að horfa til framtíðar og hætta að einblína á hvort þeir vilji af einhverjum ástæðum hafa hér her eða ekki.

Keflavíkurflugvöllur 1. hluti – Brottför hersins
Keflavíkurflugvöllur 2. hluti – Eðlileg viðbrögð

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið