Vindasamt hjá Frjálslyndum

Frá því að Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður af Sverri Hermannssyni í lok nóvember árið 1998 hefur ýmislegt gengið á. Flokknum tókst vel upp að því leyti í kosningunum í fyrra að gera sitt helsta stefnumál að kosingamáli og auka þingstyrk sinn um helming. Flokknum skrikaði þá alvarlega fótur í miðri kosningabaráttunni varðandi stefnu flokksins í skattamálum. Síðasta hálfa ár hefur svo verið afar stormasamt innan flokksins. Frá því að Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður af Sverri Hermannssyni í lok nóvember árið 1998 hefur ýmislegt gengið á. Flokknum tókst vel upp að því leyti í kosningunum í fyrra að gera sitt helsta stefnumál að kosingamáli og auka þingstyrk sinn um helming. Flokknum skrikaði þá alvarlega fótur í miðri kosningabaráttunni varðandi stefnu flokksins í skattamálum. Síðasta hálfa ár hefur svo verið afar stormasamt innan flokksins.

12 milljarða skekkja í kosningabaráttunni
Fræg er útreið flokksins þegar formaður flokksins mætti formanni Framsóknarflokksins í Kastljósi um miðjan apríl á seinasta ári þegar kosningabaráttan var komin á fleygi ferð. Guðjón Arnar Kristjánsson útlistaði skattastefnu flokksins í þættinum, en stefnan gekk út á að hækka persónuafslátt um 10.000 krónur. Hann hélt því jafnframt fram að þetta kostaði 10 milljarða króna. Formaður Framsóknarflokksins, gat hins vegar upplýst formann Frjálslyndra um að tillögur þeirra myndu í raun og veru kosta 22 milljarða króna. Frjálslyndi flokkurinn misreiknaði þannig skattastefnu sína um tólf milljarða! Í fréttum daginn eftir sagði Guðjón að stefna flokksins væri óbreytt hvað þessi mál varðaði.

Fangelsisdómur og yfirlýsingaglaður varaformaður
Þegar Alþingi kom saman eftir sumarfrí tók Gunnar Örlygsson, einn af nýju þingmönnum flokksins, ekki sæti á þingi vegna þess að hann átti eftir að afplána dóm. Málið vakti mikla athygli í kosningunum í fyrra, en virtist hafa haft lítil áhrif á fylgi flokksins í Suðvesturkjördæmi þar sem Gunnar leiddi lista flokksins. Guðjón Arnar sagði 10. september dóminn engu breyta varðandi störf Gunnars fyrir flokkinn á Alþingi. Varaformaður flokksins, Magnús Þór Hafsteinsson, var þessu ekki sammála og sagði nokkrum dögum síðar: ,,Ég dreg enga dul á það að ég er mjög ósáttur við framkomu hans [Gunnars] í þessu máli” Magnús Þór undraðist að Gunnar hefði ekki sagt flokknum afdráttarlaust frá þessari fortíð sinni. Hann sagði einnig að þingflokkurinn væri sammála um að bíða eftir svari frá Gunnari og leyfa honum að skýra mál sitt því hann hefði fullan rétt á því. Samt sem áður sagði varaformaður flokksins áður en Gunnar hafði gert grein fyrir mál sínu: „Það kemur ekki til greina að hann setjist inn á þing fyrr en hann er búinn að klára sín mál.“ Gunnar er sagður hafa verið afar ósáttur með þessar yfirlýsingar varaformanns síns og lái hver honum það.

Hálfkæringur aðfaranótt föstudags
Í lok janúar fyrr á þessu ári komust ummæli varaformanns Frjálslynda flokksins í hámæli eftir glannaleg skrif á hans á vefsíðuna Málefni.com. Þar skiptist Magnús Þór á skoðunum við aðra málverja og í þeim skoðanaskiptum sagði hann meðal annars: ,,Ekki gleyma því að svína á Hellisheiðina, fara gegnum Þrengslin, lenda svo Spittfærnum á Kaldaðarnesmelum, fljúga svo norður í Eyjafjörð yfir Kjöl, sprengja Stebbafr og Halldór Blöndal til helvítis, snúa svo til baka yfir heiðina og bomba Björn Bjarna og borgarstjórnarminnihlutann hálfa leið til andskotans og lenda svo við gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og hrynja í það á kránum í Miðbænum.” Eftir á sagði Magnús að hann hefði þarna verið að nota myndlíkingu með skírskotun til pólitískrar baráttu og eftir á að hyggja hefði þetta verið heldur fast að orði kveðið.

Úrsögn Sigurðar Inga
Síðasti atburðurinn sem gæti haft áhrif á tiltrú fólks á Frjálsynda flokknum var úrsögn Sigurðar Inga Jónssonar úr flokknum í seinustu viku. Sigurður var fyrsti maður á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í kosningunum í maí s.l. og hann var ekki langt frá því að ná kjöri sem þingmaður flokksins. Sigurður Ingi sagðist hafa ákveðið þetta eftir að Magnús Þór hafði verið kosinn formaður þingflokksins. Aðdragandinn að þessu hefði verið langur og sneri að miklu leyti að því tjáningarformi sem varaformaðurinn hefði tileinkað sér. Hann kynni ekki við hvernig Magnús hefði komið fram í ræðu og riti, jafnvel stundum í þingsal, og þó sérstaklega á spjallvefnum Málefni.com. Magnús talaði um að hæstiréttur væri handbendi sjávarútvegsráðuneytisins og að hæstaréttardómarar væru misvitrir. Sigurður sagðist ekki vera: ,,… sáttur við að þetta sé viðurkennt tjáningarform eða tjáningaraðferð hjá forystu flokksins.” Hann sagðist líta svo á eftir að hafa ítrekað kvartað yfir þessum tjáningarmáta Magnúsar við Guðjón Arnar og miðstjórn Frjálslynda flokksins að honum hafi í rauninni verið hyglað með því að gera hann að þingflokksformanni.

Talsvert verk framundan
Frjálslyndi flokkurinn hefur farið i gegnum tvennar kosningar til Alþingis og hefur í dag fjóra þingmenn. Flokkurinn hefur þannig styrkt sig í sessi en á móti hefur hann nær eingöngu lagt áherslu á andstæðu sína við kvótakerfið og margir vilja kalla flokkinn ,,einsmálefnaflokk.” Mikil umræða varð um kvótakerfið í kosningabaráttunni á seinasta ári og tókst flokknum vel að gera sitt (eina) mál að helsta kosningamálinu.

Neikvæðir atburðir undanfarna mánuði hljóta aftur á móti að veikja flokkinn – jafnt inn á við sem og út á við. Ég held að það sé fullljóst að sjávarútvegsmál og kvótakerfið verði ekki jafn fyrriferðamikil í næstu kosningum, þ.e.a.s. sama málið verður ekki helsta kosningamálið tvennar kosningar í röð. Flokkurinn þarf því að reka af sér sliðruorðið og jafnframt að móta og koma stefnu sinni í öðrum málaflokkum á framfæri. Það er því ljóst að Frjálsynda flokknum bíður mikið verk framundan.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand