Kammerherrar keisarans

„Talsmennirnir minntu höfundinn óneitanlega örlítið á kammerherra keisarans sem fékk svikahrappana tvo til að sauma á sig ný föt. Og í skrúðgöngunni, þegar allt fólkið kallaði ,,hann er ekki í neinu, hann er ekki í neinu” löbbuðu kammerherrarnir áfram og báru kjóldragið, sem ekkert var.“ Segir Agnar Freyr Helgason formaður Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík í grein dagsins.

Skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun og fyrir vikið greiðir láglaunafólk sífellt hærra hlutfall tekna sinna í formi skatta . Bendillinn blikkaði með taktföstum hraða og beið óþreyjufullur eftir næstu skipun. Nei, þetta gengur engan veginn hugsaði höfundurinn með sér – hverjir aðrir en algjörir nörrar myndu eiginlega lesa áfram?


Höfundurinn var svo sem ekki í þessari klemmu í fyrsta skiptið. Einu sinni sem oftar hafði hann lofað upp í ermina á sér, nú átti hann að skrifa læsilega og áhugaverða grein um gífurlega aukningu ójafnaðar í tíð núverandi ríkisstjórnar.


Fimmtán mínútur liðu. Bendillinn blikkaði áfram… og áfram. Er ég að sjá ofsjónir eða er þriðja hvert blikk virkilega hraðara en hin, hugsaði hann með sér.


Höfundurinn sat áfram sem dáleiddur fyrir framan tölvuskjáinn, sötraði volgt kaffið sitt og gjóaði augunum annað slagið að hálfopnum eldhúsglugganum. Látum okkur nú sjá. Ójöfnuður á Íslandi virðist hafa aukist meira síðustu tólf árin en í Bandaríkjunum á tíma Reagans, í Bretlandi á tíma Thatchers og í Chile á tíma Pinochets.


Ríkisstjórnin hefur vísvitandi látið skattleysismörkin ekki fylgja launaþróun, sem er alþekkt brella fjármálaráðherra sem vilja auka fjárhagslegt svigrúm hins opinbera, án þess að þurfa að réttlæta beinar skattahækkanir fyrir kjósendum sínum. Og hverjir þurfa að súpa seyðið? Eldri borgarar, öryrkjar, námsmenn, ungar barnafjölskyldur og ófaglærðir á vinnumarkaðinum.


Ójöfnuður hefur ekki aukist vegna markaðsaflanna, heldur vegna meðvitaðra aðgerða flokkanna tveggja sem farið hafa með völdin í landinu undanfarin tólf ár. Þeir sem þar fara í fylkingarbrjósti skeyta litlu um félagslegt réttlæti og virðast ónæmir fyrir þeirri staðreynd að örlög okkar allra sem byggjum þetta sker eru samofin.


Höfundurinn vissi svo sem að það væru engin ný sannindi í þessari upptalningu. Virtir fræðimenn, ásamt fjölmörgum óháðum aðilum, höfðu margoft vakið máls á þessu við litla hrifningu yfirvalda. Talsmenn þeirra voru hins vegar duglegar við að bera blak af nýfrjálshyggjunni og úthrópa þá sem ræddu þessi mál opinskátt sem arga sósíalista eða fúskara. Í staðinn fyrir að vega og meta röksemdirnar sem bornar voru fram var strax hafist handa við að verja vonlausan málstaðinn og bera í bætifláka fyrir allt það sem aflaga hafði farið.


Talsmennirnir minntu höfundinn óneitanlega örlítið á kammerherra keisarans sem fékk svikahrappana tvo til að sauma á sig ný föt. Og í skrúðgöngunni, þegar allt fólkið kallaði ,,hann er ekki í neinu, hann er ekki í neinu” löbbuðu kammerherrarnir áfram og báru kjóldragið, sem ekkert var.


Jú, þetta verður kannski ekki eins strembið og ég hélt í upphafi, muldraði höfundurinn um leið og hann teygaði síðasta sopann af bragðvonda kaffinu. Ég klára þetta í fyrramálið.

_________

Greinin birtist kosningablaði ungs Samfylkingarfólks – Jöfn og frjáls – er kom nýverið út. Blaðinu var ritstýrt af Helgu Tryggvadóttir og komu fjölmargir að vinnu við blaðið sem er hið glæsilegasta. Ágúst Ólafur Ágústsson varaformaður Samfylkingarinnar veitti blaðinu formlega viðtöku. Myndir úr útgáfugleðinni er hægt að sjá hér.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand