John Kay

Í sumar kom út í Bretlandi bók sem vakið hefur athygli og hlotið mikið lof þar í landi. Bókin heitir The Truth about Markets og hið virta tímarit Economist telur höfund hennar einn mikilvægasta hagfræðing Breta á okkar dögum. Hagfræðingurinn heitir John Kay og verður sérstakur gestur Samfylkingarinnar á landsfundinum um helgina. Í sumar kom út í Bretlandi bók sem vakið hefur athygli og hlotið mikið lof þar í landi. Bókin heitir The Truth about Markets og hið virta tímarit Economist telur höfund hennar einn mikilvægasta hagfræðing Breta á okkar dögum. Hagfræðingurinn heitir John Kay og verður sérstakur gestur Samfylkingarinnar á landsfundinum um helgina.

Ástæða þess að Economist telur The Truth about Markets tímamótaverk er sú að þar er fjallað af yfirburðaþekkingu og skilningi um hvernig markaðir virka í raun, hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi svo þeir virki til góðs og hvenær þeir gera það ekki. Að mati Economist réttir bókin af umræðuna um tengsl ríkis og markaðar og öll helstu dagblöð Bretlands, til vinstri og hægri, taka undir þá skoðun. Staðreyndin er sú að úti í hinum stóra heimi, ekki síst í Bretlandi þar sem nýfrjálshyggjan þó upphófst, eru nær horfnar kreddur af því tagi sem við þekkjum frá núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins. Íslenska frjálshyggjan afneitar mikilvægi pólitískrar forystu um að tryggja eðlilega samkeppni á mörkuðum. Hún hefur ekki þolinmæði til að liðsinna sprotafyrirtækjum og byggja þannig upp nýjar atvinnugreinar. Hún gengur út frá því sem gefnu að samskiptareglur á markaði séu frumskógarlögmál. Samfélagið er ekki til eins og menn muna.

Í júlí síðastliðnum var haldin í Lundúnum stærsta alþjóðlega ráðstefna jafnaðarmanna um langt árabil. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sótti þessa ráðstefnu fyrir hönd Samfylkingarinnar og sú sem þetta ritar einnig. Í málstofu um tengsl ríkis og markaðar voru hugmyndir Johns Kays lagðar til grundvallar umræðu í hópi sem innihélt nokkra af helstu efnahagsráðgjöfum Bills Clintons, Gerhards Schröders og Görans Perssons, auk forystumanna t.d. úr breska Verkamannaflokknum. Niðurstaðan var mikilvægi pólitískrar forystu með þeirri aðferð sem John Kay nefnir agaða fjölhyggju þ.e. stefnumótun sem byggist á víðtæku og opnu samráði sem margir koma að, stjórnvöld og fyrirtæki, en um leið strangri endurskoðun þess hvaða lausnir virka í raun og hverjar ekki. Þetta er hagstjórn og stefnumótun í samfélagi byggð á reynslurökum um markaði og ríki en ekki einfaldaðri módelahagfræði einni saman. Laura Tyson fyrrum formaður efnahagsráðgjafanefndar Clintons forseta gerði grein fyrir niðurstöðum málstofunnar og þær má lesa hér.

En hver er þá þessi John Kay og hverjar eru hugmyndir hans?John Kay er fæddur í Skotlandi og nam á slóðum Adams Smiths í Edinborg. Aðeins 21 árs gamall varð hann yngstur manna í sögunni gerður að félaga (fellow) og þar með háskólakennara við St. Johns College í Oxford í Englandi. Hann hefur gegnt prófessorsstöðu í hagfræði við London School of Economics og London Business School og prófessorsstöðu í stjórnun við Oxford University þar sem hann var einnig fyrsti rektor Saϊd viðskiptaháskólans. Enginn hefur átt meiri þátt í því að ýta undir að stjórnunar- og rekstrarfræði öðluðust virðingu sem raunveruleg fræðigrein í bresku háskólasamfélagi og kjör hans í Bresku Akademíuna 1996 markaði straumhvörf að því leyti. Hann hefur víðtæka reynslu úr einkageiranum, sem sérfræðingur á Institue of Fiscal Studies, stofnandi og eigandi London Economics ráðgjafafyrirtækis og stjórnarformaður í fjölda fyrirtækja, þar á meðal Halifax plc eins stærsta fjárfestingabanka í Evrópu. Hann hefur verið fastur dálkahöfundur í Financial Times frá árinu 1995.

Hvers vegna sér maður slíkan bakgrunn sig knúinn til að segja „Sannleikann um markaði” í bók sem beinlínis ætlað vera skiljanleg fyrir leikmenn í hagfræði og viðskiptum? Ástæðan er sú að hann telur innihaldslausa ímyndarsmíð fjölmiðla eins og Bloomberg- sjónvarpsstöðvarinnar og CNBC um að hlutabréfamarkaðir, spákaupmennska og ofurforstjórar séu allsráðandi um efnahagslega velsæld þjóðfélaga helbera heimsku. Hann nefnir þetta ameríska viðskiptamódelið sem almenningur sé farinn að trúa á en sé í raun staðleysa, hafi ekkert með það að gera hvernig kaupin gerast á eyrinni, ekki einu sinni í Ameríku sjálfri. Kay skilgreinir fjórar grundvallarhugmyndir ameríska viðskiptamódelsins (kunnuglegar úr íslenskri umræðu, sérstaklega frá Heimdellingum á öllum aldri) og leiðir í ljós að þær eru fjarri því að lýsa raunverulegri virkni markaða: Með öðrum orðum markaðir eru ekki knúnir áfram af sjálfselsku einstaklinga og hreinum eiginhagsmunum, segir John Kay. Ef hugmyndin um að frelsi markaða skuli vera svo algjört að þeim skuli aldrei setja reglur hefði verið hrundið í framkvæmd í Bandaríkjunum væru þau fátækt ríki. Þau væru einnig fátækt ríki ef hlutverk stjórnvalda væri það eitt að tryggja efndir samninga og vernd eignarréttinda og skattheimta einungis miðuð við slíkt lágmarksríki. Hrikaleg staða Nýja-Sjálands árið 1999 eftir fimmtán ára samfellda stjórn bókstafstrúaðra frjálshyggjumanna er til marks um þetta. Hugmynd frjálshyggjunnar og hin ágenga ímynd ameríska viðskiptamódelsins er einfaldlega ekki góður bisniss.

Sannleikurinn um markaði er sá að þeir eru óaðskiljanlegur hluti samfélagsins, viðskipti fara fram í samfélögum og arðsöm viðskipti í þróuðum samfélögum. Gróði er ekki tilgangur markaðshagkerfis í sjálfu sér heldur er framleiðsla vöru og þjónustu tilgangur markaðshagkerfis og gróði tæki til að ná því markmiði. Einkavæðing er heldur ekki markmið í sjálfu sér eða forsenda öflugs markaðshagkerfis heldur ber að meta aðstæður og skilyrði til stjórnunar og hagkvæms rekstrar hverju sinni. Einkavæðing járnbrautakerfisins í Bretlandi heppnaðist illa og fyrir því eru ástæður er rétt er að læra af. T.d. það að almannaþjónustu er rétt að einkavæða þegar afurðir þjónustunnar eru nákvæmlega skilgreinanlegar og „vandaðir starfshættir” almennt viðurkenndir og óumdeildir. Versta útgáfa af samskiptum ríkis og markaðar er sú þegar viðskipti á markaði virðast formbundin í nákvæma samninga eða bundin af ítarlegri löggjöf sem skipta svo engu máli í raun. Þetta heitir spilling og lýsir sér í ógegnsæjum mörkuðum. Árangursríkir markaðir myndast með í samspili þátttakenda sem enginn einn stjórnar, hvorki forsætisráðherra, bankastjóri né ofurforstjóri. Framþróun markaða ræðst síðan af hvorutveggja í senn opinberri löggjöf og vönduðum viðskiptaháttum einkafyrirtækja sem mörg hver eru hlutafélög í almannaeigu.

John Kay verður aðalræðumaður í opinni málstofu á landsfundi Samfylkingarinnar á Ásvöllum í Hafnarfirði laugardaginn 1. nóvember. Málstofan hefst kl. 15:30 og stendur í eina klukkustund.

– – –

Mánudaginn 3. nóvember kl. 12.05 verður fundur í Háskóla Íslands þar sem John Kay um einkavæðingu með sérstöku tilliti til rekstrar menntastofnana og heilbrigðisþjónustu. Þátttakendur í pallborði verða Ásta Möller varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og Jón Torfi Jónasson prófessor. Sjá grein Johns Kay um árangur af einkavæðingu í Bretlandi 1979-1999 hér og grein um rekstrarkröfur til opinberrar þjónustu hér.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand