Ég er líklega ekki sú eina sem hef tekið eftir þeirri vakningu sem virðist hafa orðið meðal ungs fólks á málefnum líðandi stundar. Eftir það sem einna helst má líkja við pólitískan svefngengilshátt síðustu áratuga hefur ungt fólk nú vaknað til lífsins og stundar mótmælastöður og alls kyns uppákomur af miklu kappi. Ég er líklega ekki sú eina sem hef tekið eftir þeirri vakningu sem virðist hafa orðið meðal ungs fólks á málefnum líðandi stundar. Eftir það sem einna helst má líkja við pólitískan svefngengilshátt síðustu áratuga hefur ungt fólk nú vaknað til lífsins og stundar mótmælastöður og alls kyns uppákomur af miklu kappi.
Auðvitað eru það hernaðaraðgerðir undanfarinna ára – innrásirnar í Afghanistan og Írak – sem eiga stóran þátt í að kveikja upp í fólki þessi sterku viðbrögð. Andrúmsloftið í kringum þessi stórfelldu brot á mannréttindum líkist, að sögn þeirra sem það muna, þeim hræringum sem voru í gangi á 7. og 8. áratugnum; Víetnamstríðið og sextíuogátta.
Ullarpeysur eru inn
Aftur rís ungt fólk upp gegn óréttlætinu sem það sér að verið er að beita, ullarpeysur eru komnar aftur í tísku, en ég velti fyrir mér hvort að ekki sé eitthvað stærra menningarlegt fyrirbæri hér á ferðinni, eitthvað sem ristir dýpra en einvörðungu uppreisn gegn stríði. Ég velti fyrir mér hvort að einstaklingshyggja sú sem ráðið hefur ríkjum, hér á Íslandi í öllu falli, sé ekki á undanhaldi. Ummerki þessa má einna helst finna í listum, en stefnuskrá listamanna hefur að mínu mati breyst töluvert undanfarið, -listamenn hafa snúið frá innhverfi (introvert) sköpun til þess að vera meira úthverfir, list þeirra hefur eitthvað erindi til samfélagsins í heild sinni.
Á sviði tónlistarinnar eru rapparar og harðkjarnahreyfingin sér í lagi að gagnrýna samfélagið og hvetja ungt fólk til að taka pólitíska afstöðu, þeir eru ófáir myndlistarmennirnir, og þá helst kvikmyndagerðarmenn sem hafa til umfjöllunar samfélagsleg málefni. Þá eru teikn á lofti í leiklistarheiminum um endurkomu pólitísks leikhúss en sem dæmi um það má nefna þrjú leikverk sem að Þorleifur Örn Arnarson hefur leikstýrt síðan hann útskrifaðist úr leiklistardeild Listaháskóla Íslands; Aðfarir að lífi hennar, Pentagon og 1984-ástarsaga, sem er nú verið að sýna í Tjarnarbíói. Þá var augljóst á örleikritasamkeppni framhaldsskólnema sem haldin var á árinu að stríð og mannréttindi eru ungu fólki ofarlega í huga. Einnig í bókmenntum má sjá ákveðna hreyfingu í átt til útrásar, s.s. í nýlegum verkum Einars Más Guðmundssonar og Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, þó að yngri kynslóðin þar á bæ virðist ekki vera eins í mun að hafa áhrif á samfélagið.
Sameinuð stöndum vér…
En það eru ekki bara listamennirnir sem eru farnir að hugsa minna um sjálfa sig og meira um samfélagið, ég held að sá vindur sem kvenréttindabaráttan hefur fengið í seglin nýverið sé líka tengdur þessu undanhaldi einstaklingshyggjunnar. Þá hefur fjöldi hópa og samtaka verið stofnaður til að vinna að auknum réttindum innflytjenda.
Það lítur út fyrir að almenn samfélagsvitund ungs fólks og fólks almennt fari vaxandi, eigin hagur er ekki það eina sem skiptir máli, allavega ekki hjá mörgum. Það er tekið að vora í pólitísku hugsanalífi Íslendinga, leysingar eru hafnar. Ég vona bara að þetta menningarlega fyrirbæri, þessi vitundarvakning, geti haldið áfram þó svo að hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna taki enda. Einhverjar kenningar eru uppi um að umburðarlyndi og samfélagsleg ábyrgðarkennd þjóða haldist í hendur við félagslegt öryggi, svo að við ættum að geta haldið áfram að þroskast í þessa átt. Ég segi í öllu falli fyrir sjálfa mig að mér finnst skemmtilegra að vera í samfélagi þar sem er að finna lifandi pólitíska umræðu á mörgum sviðum og fólk vill hafa eitthvað að segja um samfélagið í kringum sig heldur en þar sem fólk getur ekki hugsað um annað en að eiga stærri bíl en hinn. Vonandi erum við búin að eyða nægum tíma að hugsa um sjálf okkur og getum farið að nota hluta af þeim auðæfum, tíma og kröftum sem við erum svo heppin að búa yfir í að hafa áhrif á það sem er að gerast í kringum okkur. Eða er þetta kannski bara óskhyggja hjá mér, -erum við ennþá bara svengenglar vanans, stöðnuð og sofandi – er ennþá vetur?