Jerúsalem Aameríka Ísraelsson

Samskipti Ísraela og Bandaríkjanna hafa farið versnandi og fjalla um fjölmiðlar mikið um deilurnar en lítið um aðalatriðið: Palestínumenn! Samam á við um ráðamenn, sem reyna allt til að styrkja samband þjóðanna tveggja. Svo mikil er virðingin!

Fyrir um tveimur vikum síðan tilkynntu yfirvöld í Ísrael að þau stefndu á að byggja 1600 nýjar íbúðir fyrir Ísraela á landnemabyggðum sínum í austurhluta Jerúsalem. Þessi áform Ísraela hafa vakið mikla reiði um allan heim, ekki bara hjá Palestínumönnum heldur einnig hjá Sameinuðu Þjóðunum, Evrópusambandinu, Rússum og meira að segja hjá bestu (og sumir segja einu) vinum Ísraela, Bandaríkjunum, en Ísraelar tilkynntu um áform sín á sama tíma og Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, var í „heimsókn“ og þótti það afskaplega móðgandi.

Samskipti Ísraela og Bandaríkjanna hafa farið versnandi á síðustu dögum og hætti George Mitchell, sérlegur sendiherra Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndunum, til að mynda við „heimsókn“ sína til Ísraels um daginn. Þá hafa Bandaríkjamenn (ásamt öðrum) krafist þess að Ísraelar hætti við áform sín um að byggja íbúðir fyrir gyðinga í arabíska hluta borgarinnar. Fjölmiðlar hafa farið mikinn um deilur Ísraela og Bandaríkjanna síðustu daga, en hafa hins vegar gleymt aðal atriðinu: Palestínumönnum!

Þegar flutningur gyðinga til Palestínu hófst fyrir alvöru eftir fyrri heimstyrjöldina þegar landið féll í hendur Breta höfðu Palestínumenn búið þar í um 1300 ár. Flutningar gyðinga héldu áfram næstu áratugi og árið 1948 var Ísraelsríki stofnað innan landamæra Palestínu. Bretar höfðu misst kjarkinn og falið Sameinuðu Þjóðunum að sjá um vandamálið en það gátu þeir hins vegar ekki.

Meira en 60 árum síðar eru enn átök á svæðinu. Ísraelar hafa meðal annars stundað landrán, aðskilnaðarstefnu og kúgun á Palestínumönnum og dauði barna, kvenna og annarra óbreyttra borgara er nánast daglegt brauð á þessu hertekna svæði. Nauðsynjavörur eins og matur, vatn, rafmagn og jafnvel þak yfir höfuðið er ekki á boðstólnum fyrir alla og tala flóttamanna sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín hækkaði úr rúmlega 711.000 árið 1950 í yfir fjórar milljónir árið 2002 og fer enn hækkandi. Palestínumenn eiga sér ekki heimili, meðan Ísraelar vilja byggja sér fleiri.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segist ekki vera á leiðinni að hætta við að byggja enda eigi Ísraelar fullan rétt á því að byggja hús í Jerúsalem. Hann segir gyðinga hafa byggt hús í Austur-Jerúsalem í fjörtíu ár og að það hafi á engan hátt skaðað Palestínumenn og að þetta sé alls ekki á þeirra kostnað. Með ummælum sínum gerir Netanyahu lítið úr ástandinu sem og þjáningum Palestínumanna.

Palestínumenn vilja ekki sjá fleiri gyðinga í þessum arabíska borgarhluta Jerúsalem enda óska þeir eftir því að fá þennan hluta Jerúsalem sem höfuðborg í sínu sjálfstæða ríki. Það stangast hins vegar á við hugmyndir Netanyahu og fleiri Ísraela sem telja Jerúsalem alla vera höfuðborg sína. Þá hefur forsætisráðherran svo vingjarnlega bent á að hann óttist mjög að friðarviðræður í Mið-Austurlöndum geti tafist ef Palestínumenn láti ekki af kröfum sínum um frystingu á fyrirhuguðum landnemabyggðum Ísraela á Vesturbakkanum, en Palestínumenn bökkuðu út úr friðarviðræðunum við Ísraela eftir að þeir tilkynntu um áform sín.

Með gjörðum sínum og ummælum hefur Benjamin Netanyahu gert okkur ljóst enn á ný að það sé enginn vilji fyrir frið á svæðinu. Strax eftir að yfirvöld tilkynntu um áform sín hófust átök milli Palestínumanna og Ísraela enn og aftur og er sextán ára palestínskur strákur á meðal fórnarlamba ísraleska hersins, en hann var skotinn til bana, og spennan eykst með hverjum deginum á herteknu svæðum Palestínumanna en ráðamenn Ísraela og Bandaríkjanna eyða á meðan öllu sínu púðri í að fljúga á milli Ísraels og Bandaríkjanna til þess að styrkja á ný ástina á milli vinaþjóðanna tveggja. Svo mikil er virðingin fyrir lífi Palestínumanna!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand