Bann við nektardansi

Íslendingar hafa lengi stært sig af því að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum. Ef Ísland vill gera konum og körlum jafn hátt undir höfði, þá ber að fagna því skrefi sem Íslendingar tóku í jafnréttisbaráttunni í dag.

Í dag, þann 23. mars 2010, stigu Íslendingar skref í rétta átt í mannréttindabaráttu. Samþykkt var á Alþingi að fella úr gildi undanþáguheimild til nektarsýninga í atvinnuskyni á veitingastöðum.

Árið 2007 var nektardans í atvinnuskyni bannaður með lögum, en hægt var að sækja um undanþágu ef nektardans færi fram í atvinnuskyni á veitingastað og ef umsagnaraðili, sveitastjórnir eða lögregla, gæfi jákvæða umsögn. Þessi undanþáguheimild varð fljótt að meginreglu.

Þessi undanþáguheimild gekk gegn megintilgangi laganna og hvöttu sveitastjórnir tveggja stærstu sveitarfélaga landsins til þess að öllum vafa yrði eytt að þessu leyti í lögunum. Stjórnvöld lögðu til í aðgerðaáætlun gegn mansali að lagt yrði fram frumvarp til breytinga á lögunum og að undanþáguheimildin yrði felld burt. Nú hefur þessi undanþáguheimild loks verið fjarlægð úr íslenskum lögum.

Sú starfsemi sem býður upp á nektardans á Íslandi byggist nær eingöngu á ungum erlendum konum. Ár hvert koma nokkur hundruð kvenna til landsins í þessum tilgangi, oftar en ekki frá löndum sem teljast vera upprunalönd mansals. Konurnar stoppa oftast stutt og erfitt er fyrir lögregluyfirvöld að tryggja öryggi þeirra og fylgjast með hvort þær stundi þessa iðju sjálfviljugar eða þvingaðar með einum eða öðrum hætti. Alsherjarnefnd telur að verulegar líkur séu á því að á þessum stöðum starfi konur sem ekki njóta fullra persónuréttinda og eru mögulegir þolendur mansals.

Tengsl eru á milli vændis og íslenskra nektardansstaða. Komið hafa fram vísbendingar um að skipulagt og óskipulagt vændi sé stundað í tengslum við nektardansstaði á Íslandi. Samkvæmt heimildarmönnum Drífu Snædal (2003) í skýrslunni Kynlífsmarkaður í mótun var hægt að nálgast vændi á flestöllum nektardansstöðum. Hægt var að greiða fyrir kynlíf beint til staðarins eða beint til stúlknanna. Að auki hafa upplýsingar um mansal hafa komið frá konum sem hafa unnið á slíkum stöðum.

Framsögumaður tillögunnar sem um ræðir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, benti réttilega á að Íslendingar hafa lengi stært sig af því að við séum til fyrirmyndar í jafnréttismálum. Ef Ísland vill vera land þar sem konum og körlum er gert jafn hátt undir höfði, þá ber að fagna því sögulega skrefi sem Íslendingar tóku í jafnréttisbaráttunni í dag.

Yndislestur:
Drífa Snædal. (2003). Kynlífsmarkaður í mótun. Reykjavík: Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar.

Félags- og tryggingamálaráðuneyti. (2009). Skýrsla félags- og tryggingamála-ráðherra, Ástu R. jóhannesdóttur, um aðgerðaáætlun gegn mansali. Reykjavík: Félags- og tryggingamálaráðuneyti.

Fríða Rós Valdimarsdóttir. (2009). Líka á Íslandi: Rannsókn á eðli og umfangi mansals. Reykjavík: Rauði kross Íslands.

Gísli Hrafn Atlason & Katrín Anna Guðmundsdóttir. (2008). Vændi og mansal á Íslandi. Reykjavík: Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið