Kerry hefur verið hampað af félagshyggjufólki sem frambjóðanda friðar og jafnréttis, sem skynsömum manni sem muni vonandi geta rétt við bandarísku ,,þjóðarskútuna” eftir fjögur eftirminnileg ár undir stjórn George W. Bush. Í nýlegri könnun kom fram að Kerry nýtur stuðnings meirihluta kjósenda í 30 af 35 löndum sem könnunin náði til. En er Kerry þessi boðberi friðar eins og af er látið og ef Kerry væri í íslenskum stjórnmálum stæði hann með Samfylkingunni? Kerry hefur verið hampað af félagshyggjufólki sem frambjóðanda friðar og jafnréttis, sem skynsömum manni sem muni vonandi geta rétt við bandarísku ,,þjóðarskútuna” eftir fjögur eftirminnileg ár undir stjórn George W. Bush. Í nýlegri könnun kom fram að Kerry nýtur stuðnings meirihluta kjósenda í 30 af 35 löndum sem könnunin náði til. En er Kerry þessi boðberi friðar eins og af er látið og ef Kerry væri í íslenskum stjórnmálum stæði hann með Samfylkingunni?
Friðar Kerry
Ég las einhverstaðar að aðal munurinn á Demókrata og Repúblikana sé að Demókratinn kunni að nota orðið kúkur í staðin fyrir skít. Þetta má til sanns vegar færa þegar litið er yfir stefnuskrá Kerry. Um málefni Mið-Austurlanda segir orðrétt að hann vilji: ,,Improve social, economic, political conditions in region.” Sem þýðist lauslega: ,,Bæta félags, efnahags og stjórnmálalegar aðstæður á svæðinu.“ Húrra, húrra, Kerry er maður með viti. Þetta hljómar svo vel að Ghandi hefði öfundað hann. Hvað þýða þessi orð Kerry í raun og veru? Hvernig ætlar hann að fara að þessum háleitu markmiðum? Hann ætlar að halda áfram stuðningi við Ísrael og skipulögðum morðum þeirra á Palestínumönnum og hann styður rétt Ísraela til byggingu ,,varnarveggsins” svo kallaða. Í rauninni er stefna hans í þessum málum nákvæmlega sú sama og stefna Bush. Honum tekst bara að kalla skít, kúk.
Margir segja að stefna Kerry í málefnum Ísraels sé skiljanleg vegna hins mikla fjölda gyðinga í Bandaríkjunum. Þetta stenst hins vegar alls ekki nánari skoðun. Aðeins 2,3% Bandaríkjamanna eru gyðingar og samkvæmt annarri könnum kom fram að meiri hluti þeirra eru á móti aðgerðum Ísraela gegn Palestínumönnum. Þessi stefna Bush og Kerry er ekki fyrir gyðinga, hún er fyrir lýðræði. Hið mikla lýðræði sem felst í því að skjóta flugskeytum á flóttamannabúðir, láta jarðýtur jafna hús við jörðu og nú er nýjasta útspil Bandaríkjamanna að selja Ísraelum ný vopn. Meðal annars sprengjur sem grafa sig niður í neðanjarðarbyrgi. Þetta eru vopn sem beinast aðallega gegn óbreyttum borgurum og því sorglegt að heyra Kerry og Bush hreykja sér fyrir varðveislu lýðræðis.
En stefna Kerry er ekki aðeins slæm í Mið-Austurlöndum. Hann leggur til að fjölga í hernum og í kjölfarið að senda fleiri hermenn til Írak. Einnig leggur hann til aukinna útgjalda til þróunar á nýjum vopnum og vopnaframleiðslu almennt. Hann hefur gefið það út að hann muni vinna stríðið í Afganistan og útrýma Al-Quaeda. Einhvernvegin efast ég um að hann geri það með því að bjóða þeim öllum í mat. Ef þessi stefna stuðlar að friði þá var Hitler hippi.
Frjálslyndi Kerry?
Einnig er talað um að Kerry sé svo frjálslyndur og sé í raun jafnaðarmaður. Þetta segja andstæðingar Kerry óspart, munurinn er að á Íslandi telst Sjálfstæðisflokkurinn til hægri, framsókn í miðju (það veit í raun enginn hvar þeir standa því þeir hafa enga stefnu), og Samfylkingin til vinstri. Á bandaríska skalanum væri Sjálfstæðisflokkurinn til vinstri og Samfylkingin væri talinn vera dulnefni fyrir Kommúnistaflokkinn. Sannleikurinn er sá að Kerry er samkvæmt vefriti frjálslyndra Bandaríkjamanna, frjálslyndasti þingmaðurinn á eftir Teddy Kennedy. Það þýðir hins vegar ekki að hann sé frjálslyndur á íslenskan mælikvarða. Til að mynda er hann á móti hjónaböndum samkynhneigðra þótt hann styðji vissulega aukin réttindi samkynhneigðra para, sem er ein ástæða þess að hann er kallaður vinstrisinni af andstæðingum sínum. Ef við berum þetta saman við íslensk stjórnmál er ljóst að hann á þarna vel heima í Sjálfstæðisflokknum sem er því miður enn á móti hjónaböndum samkynhneigðra.
Hvað á ég við?
Hvað á ég við með öllu þessu fjasi um gallana á stefnu Kerry? Ég er alls ekki að lýsa yfir stuðningi við Bush. Fyrr frýs í helvíti en að ég styðji þann mann. Rétt er að benda á grein mína þar sem ég fer yfir fyrstu sex mánuði Bush í starfi. Þar má sjá skoðun mína á þessum manni. Stefnuskrá Bush fyrir þessar kosningar er röng, hættuleg, ómannúðleg, hræðileg, skelfileg, svo fáránleg að jafnvel Björn Bjarnason mundi ekki einu sinni láta sér detta í hug að leggja hana fram. Sem dæmi má nefna að Bush er algjörlega á móti samkynhneigðum samböndum, vill ekki sjá neina viðurkenningu á þeim, hvað þá réttindi. Hann er á móti ættleiðingu samkynhneigðra. Hann er á móti því að glæpir gegn samkynhneigðum teljist til hatursglæpa (hatursglæpir eru glæpir td. gegn trú eða húðlit fólks og hljóta þeir sem sakfelldir eru fyrir slíka glæpi þyngri dóma en ella). Hann leggur til að áfram verði ausið peningum í eldflaugavarnarkerfið sitt sem er brot á þó nokkrum alþjóðasáttmálum, þá aðallega ABM (Anti-Ballistic Missile) samningnum við Rússa. Hann styður olíuboranir á verndarsvæðum og þjóðgörðum. Styður enn frekari einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Þetta eru bara örfá dæmi, listinn yrði miklu mun lengri ef farið væri í utanríkis og varnarmálastefnu hans sem er eins og að lesa vísindaskáldsögu.
Það sem ég er að segja er að við, jafnaðarmenn og félagshyggjufólk, ættum að fara varlega í það að hrósa Kerry og lýsa yfir aðdáun okkar honum. Í fyrsta lagi er opinber stefna hans lengra til hægri en jafnvel stefna Sjálfstæðisflokksins og í öðru lagi á eftir að koma í ljós hve mikið af fögru orðunum hann á eftir að standa við. Auðvitað eigum við öll að vona að hann sigri kosningarnar og komi Bush þeim hættulega glæpamanni frá. Munum bara að kúkur er alveg eins og skítur.