Ljós í myrkri mannfyrirlitningar

Nýverið lagði nefnd á vegum forsætisráðuneytisins til ýmsar réttarbætur samkynhneigðum til handa. Samkvæmt þeim fá samkynhneigð pör að skrá sig í óvígða sambúð hjá Hagstofunni og að frumættleiða íslensk börn. Á hinn bóginn lögðust þrír af sex nefndarmönnum (hér eftir þremenningarnir) gegn því að samkynhneigðum yrði leyft að frumættleiða útlend börn, töldu að önnur ríki kynnu að setja það fyrir sig. Svíar hafa þó gengið á undan með góðu fordæmi án þess að vera útskúfað í samfélagi þjóðanna. Eins gæti verið heillaráð að Ísland semdi um að ættleiða börn frá ríkjum þar sem samkynhneigð er ekki eitur í beinum yfirvalda. Um ættleiðingu og tæknifrjóvgun
Nýverið lagði nefnd á vegum forsætisráðuneytisins til ýmsar réttarbætur samkynhneigðum til handa. Samkvæmt þeim fá samkynhneigð pör að skrá sig í óvígða sambúð hjá Hagstofunni og að frumættleiða íslensk börn. Á hinn bóginn lögðust þrír af sex nefndarmönnum (hér eftir þremenningarnir) gegn því að samkynhneigðum yrði leyft að frumættleiða útlend börn, töldu að önnur ríki kynnu að setja það fyrir sig. Svíar hafa þó gengið á undan með góðu fordæmi án þess að vera útskúfað úr samfélagi þjóðanna. Eins gæti verið heillaráð að Ísland semdi um að ættleiða börn frá ríkjum þar sem samkynhneigð er ekki eitur í beinum ráðamanna.

Þremenningarnir bentu á að útlend börn mættu fordómum á Íslandi og töldu ekki á þá bætandi ef uppalendurnir væru samkynhneigðir. En væri það bágara hlutskipti en að alast upp munaðarlaus í þriðja heims ríki? Auk þess dregur eflaust úr andúð á samkynhneigð hér á landi ef meira verður lagt í fræðslu í grunn- og framhaldsskólum og réttindi samkynhneigðra bætt. Engar rannsóknir benda heldur til annars en að samkynhneigðir og gagnkynhneigðir séu jafnfærir um að ala upp börn, rétt eins og nefndin viðurkennir.

Þremenningarnir lýstu sig einnig mótfallna því að samkynhneigðum konum yrði leyft að gangast undir tæknifrjóvgun, bentu á að börnin fengju ekki að vita hver sæðisgjafinn væri og það gæti lagst á sálina í þeim. Börn sem getin eru með tæknifrjóvgun og alin upp í ranni gagnkynhneigðra verða þó ekki endilega nokkurs vísari um sinn kynföður.

Um hjúskaparvígslu
Nefndin hvetur svo þjóðkirkjuna til að breyta afstöðu sinni og veita samkynhneigðum pörum kirkjulega vígslu. En í lögum nr. 87/1996 segir aðeins að sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra geti staðfest samvist samkynhneigðra; Alþingi þarf því væntanlega að láta til sín taka.

En hver veit nema áskoranir og jafnvel lagabreytingar dugi skammt og íhaldssamari öfl innan kirkjunnar komist enn og aftur upp með moðreyk. Ef svo fer heldur kirkjan áfram að auka á ósætti og sundurlyndi í þjóðfélagi sem orðið er langeygt eftir að samkynhneigðir fái réttarbætur. Það sýndu Gallup-könnun í maí síðastliðnum og rúmlega fjörutíu þúsund manns í verki á Gay Pride þann 7. ágúst.

Efast má um að kirkjunnar þjónar hafi nokkurt „umboð að ofan“ til að ýta beint eða óbeint undir fordóma í garð meðbræðra sinna. Menn sem halda að þeir séu Guðs útvaldir til þess ættu fremur að rifja upp boðskap Krists um jöfnuð og umburðarlyndi og reyna að aðlagast skilningsríkara samfélagi. Ef evangelísk-lúterska kirkjan ætlar sér að láta fjölmörg safnaðarbarna sinna sitja skör lægra en önnur og misbjóða í leiðinni þorra þjóðarinnar má vissulega spyrja hvort hún eigi heimtingu á að teljast þjóðkirkja og vera rétthærri en önnur trúfélög.

En fyrst kemur til kasta Alþingis; vonandi eru menn þar nógu kjarkaðir og góðviljaðir til að veita samkynhneigðum meiri réttarbætur en þremenningarnir leggja til. Með því og bættri kirkjustefnu geta Íslendingar orðið ljósberar í myrkri mannfyrirlitningar, brugðið upp ljósi sem aðrar þjóðir sjá vonandi með tíð og tíma.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand