Landbúnaðarkerfið á Íslandi þarf ekki að vera jafn slæmt og raun ber vitni. Einar Eyjolfsson er með nokkrar hugleiðingar í þeim efnum.
Viðbrögð stjórnvalda
Eftir að skýrslan kom út hafa stjórnvöld látið hafa eftir sér að nauðsynlegt sé að standa vörð um íslenskan landbúnað. Um það eru allir sammála en þýðir það óbreytt ástand?. Geir H. Haarde hefur látið hafa eftir sér að ýmislegt megi betur fara í landbúnaðarkerfinu. Af hverju hefur lítið sem ekkert verið gert síðastliðin 11 ár? Hverjir eru að hagnast á íslenskum landbúnaði? Ekki eru það bændur og ekki eru það neytendur. Í raun hefur núverandi kerfið staðið í vegi fyrir framförum og möguleikum í íslenskum landbúnaði. Það er staðreynd að innan landbúnaðarkerfisins eru of margir milliliðir sem gerir það að verkum að verð hækkar. Þá skortir samkeppni víða innan kerfisins þar sem stórir markaðsráðandi aðilar (t.d. Mjólkursamsalan) geta haldið uppi háu verði.
Tími til breytinga – frjáls samkeppni
Núverandi landbúnaðarkerfi er ekki að virka sem skildi og því breytinga þörf. Það er mín skoðun að ríkisafskipti eru yfirleitt ekki af hinu góða og það sé tímabært að stíga skrefið til fulls og veita íslenskum bændum svigrúm til þess að taka þátt í frjálsri samkeppni. Íslenskir bændur eru fullfærir til þess að taka ákvarðanir varðandi eigin búskap og bregðast við breytingum á íslenskum markaði. Til þess að það geti orðið þarf meðal annars að auka samkeppni á landbúnaðarvörum þannig að dregið sé úr innflutningshömlum í formi tolla og heimila þarf innflutning á erlendum landbúnaðarvörum. Ég leyfi mér að efast um að Íslendingar muni upp til hópa hætta að kaupa íslenskar landbúnaðarafurðir þó þeim myndi bjóðast erlendar landbúnaðarvörur. Vissulega þyrfti landbúnaðurinn að ganga í gegnum miklar breytingar sem vissulega yrðu ekki sársaukalausar en breytingarnar væru engu að síður óhjákvæmilegar og kæmu bændum til góða síðar meir.
Landbúnaðarkerfi án styrkja?
Ekki er óhugsandi að hér væri hægt að byggja upp landbúnaðarkerfi án beinna styrkja eða niðurgreiðslna til bænda þar sem frjáls samkeppni myndi ná yfir landbúnaðinn líkt og aðrar atvinnugreinar. Slíkt var gert í Nýja-Sjálandi árið 1984 en áður hafði landbúnaðurinn þar í landi notið svipaðra sérkjara og tíðkuðust í öðrum ríkjum. Vissulega óttuðust margir afleiðingar af frívæðingu landbúnaðarins og var talið að fjölmargir bændur yrðu að finna sér nýtt lífsviðurværi. Niðurstaðan var hins vegar sú að aðeins 1% bænda brugðu búi. Bændur sýndu og sönnuðu að þeir væru betur færir en stjórnvöld um lesa skilaboð markaðarins og löguðu sig að breyttum aðstæðum. Helsta breytingin fólst í að fjölbreytni innan landbúnaðargeirans jókst, menn hófu að framleiða vörur sem þeir höfðu ekki framleitt áður. Bændur hagræddu í rekstri sínum og markaðurinn réði verði á aðföngum til bænda. Þó vissulega hafi komið upp erfiðleikar við þessar breytingar, þá blasir við sú staðreynd að eftir breytingarnar þá stórjókst framleiðni og nýting á landbúnaðarafurðum batnaði.
Eftir að stjórnvöld hættu öllum styrkveitingum til landbúnaðar hefur reynsla Ný-Sjálendinga verið eftirfarandi:
• Fjöldi bændabýla var í kringum 80.000 árið 1984. Eftir að stjórnvöld hættu að veita styrki fækkaði býlum hins vegar um 1%, mun minna en búist hafði verið við.
• Landbúnaðurinn er sú atvinnugrein sem hefur vaxið hvað hraðast innan hagkerfisins. Hlutfall landbúnaðar af þjóðarframleiðslu hefur aukist úr 14,2% árið 1986 í 16,6% árið 2000.
• Íbúafjöldi í dreifbýli hefur haldist stöðugur. Þrátt fyrir að hefðbundnum bændastörfum hafi fækkað þá hefur störfum í ferðatengdum iðnaði fjölgað í dreifbýli.
• Framleiðni innan landbúnaðarins hefur aukist um 5,9% á ári síðan 1986.
• Fjöldi sauðfjárs hefur minnkað um 29% en nautgripum hefur fjölgað um 35% en sauðfjárrækt naut mestrar styrkveitingar á sínum tíma.
• Árið 2001 nam fjárhagsaðstoð stjórnvalda til landbúnaðarins einungis 1% af framleiðsluvirði en sambærilegt hlutfall er um 30% meðal annarra iðnvæddra ríkja. Styrkveitingin var aðallega í formi rannsóknarstyrkja.
• Um 90% af landbúnaðarvörum Nýja-Sjálands er útflutt. Nemur þessi útflutningur um 55% af heildar vöruútflutningi landsins. Meirihluti þeirrar matvöru sem er neytt í Nýja-Sjálandi er framleidd innanlands.
Margt má læra af reynslu Ný-Sjálendinga, þó svo að Íslendingar fari ekki út í jafn rótækar breytingar á landbúnaðarkerfi sínu. Til þess að auka hagkvæmni og stuðla að framförum innan landbúnaðarins ætti það að vera forgangsatriði stjórnvalda að auka frjálsræði innan landbúnaðarkerfisins. Ef til vill mættu stjórnvöld eftirfarandi í huga: “ Óttastu ekki breytingar, óttastu það eitt að standa í stað”.
-Einar Eyjolfsson