Fyrirhugaðar breytingar á almenningssamgöngum eru til háborinnar skammar. Breytingar sem eiga að lækka rekstrarkostnað Strætó Bs. um 360 milljónir króna. Stjórn Strætó bs. tók ákvörðunina í ljósi þess að gífurlegur rekstrarhalli hefur verið á fyrirtækinu það sem af er ári. Breytingarnar fela í sér að dregið verður verulega úr þjónustu strætó, þessar aðgerðir bitna helst á skólafólki og öðrum sem höfðu nýtt sér stofnleiðir.
Það kemur þó ekki á óvart að þetta gerist, nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn er kominn með yfirburðastöðu í stjórn Strætó og Ármann Kr. Ólafsson orðinn formaður. Ljóst er að þessum aðgerðum stjórnar Strætó Bs. verður að mótmæla, við getum ekki liðið að sífellt sé traðkað á opinberri þjónustu, hún fjársvelt og loks látin líða út af.