Framsóknarmaður réðst á mann!

Fjölmiðlar á Íslandi virðast oft vera mjög uppteknir af þjóðerni afbrotamanna. Hildur Edda Einarsdóttir bendir á hvað getur verið varasamt í þeim efnum.
Annað slagið birtast í fjölmiðlum fréttir af glæpamálum þar sem tekið er fram hverrar þjóðar gerendurnir eru ef þeir reynast ekki vera íslenskir. Í sumum tilfellum má vera að þjóðerni gerenda komi málinu við, til dæmis í smyglmálum eða málum sem tengjast erlendum glæpasamtökum, en í langflestum tilfellum má það hins vegar teljast stórfurðulegt að fréttaritarar telja sig knúna til þess að tiltaka þjóðerni meintra glæpamanna, enda engin tenging milli þjóðernis annars vegar og glæpahneigðar hins vegar. Til hvers í ósköpunum skyldu almennir borgarar þurfa að vita að maður, sem er handtekinn vegna meintra afbrota, reynist vera rússneskur en ekki íslenskur? Er með því beint eða óbeint verið að vara okkur hin við fólki af erlendum ættum? Og fyrst að það þarf að taka fram þjóðerni, af hverju er ekki alveg eins tekið fram ef meintur glæpamaður er yfirlýstur Framsóknarmaður, kaþólikki eða rauðhærður?

Hver er útlendingur og hver er íslendingur?
Ef 10% íbúa á Íslandi eru útlendingar þarf ekkert að koma á óvart ef 10% glæpamanna á Íslandi eru útlendingar og engin ástæða til þess að tengja þjóðerni við glæpsamlega hegðun. Og óháð réttmæti fréttaflutnings af þessu tagi er langt frá alltaf auðvelt að skilgreina þjóðerni. Fjöldi íslenskra ríkisborgara er fæddur og uppalinn í fjarlægu landi og talar ef til vill litla sem enga íslensku. Og margir Íslendingar sem hafa alltaf búið á Íslandi eru jafnframt erlendir ríkisborgarar, til dæmis vegna þess að annað foreldrið er ekki íslenskt. Hvenær skyldi maður vera nógu „útlenskur” til þess að það þyki þess virði að tiltaka það opinberlega þegar maður kemst í kast við lögin? Tökum lítið dæmi;
-Einn maður, Li, sem er íslenskur ríkisborgari og búinn að búa á Íslandi í sjö ár en talar litla íslensku og er fæddur og uppalinn í Kína, ræðst á annan mann, Guðmund, sem á íslenska móður og pólskan föður, er fæddur og uppalinn á Íslandi en er með pólskan ríkisborgararétt.-
Hvernig ætli væri hægt að blanda þjóðerni inn í fréttaflutninginn af þeim verknaði? Réðst Kínverji á Íslending eða Íslendingur á Pólverja? Það gæti vafist fyrir ýmsum. Svo má velta því fyrir sér hvaða atriði það eru sem skipta máli. Ætli tungumálaörðugleikar geri þjóðerni fólks fréttnæmara, eða kannski kynþáttur? Og í hvaða flokk skyldu afkomendur innflytjenda raðast?

Fréttamenn bera ábyrgð
Einhverjir kynnu að vilja saka mig um pólitískan rétttrúnað eða benda mér á málfrelsið sem varið er í stjórnarskránni, og halda því fram að þetta skipti engu máli. Ég vil hins vegar meina að fréttaflutningur af þessu tagi ali á sleggjudómum og jafnvel hræðslu við útlendinga. Þeir sem skrifa fréttirnar eru aldrei alveg fullkomlega hlutlausir, enda mannlegir eins og aðrir. Þeir ættu því að vera gagnrýnir á eigin skrif og velta því alvarlega fyrir sér hvort þeir séu að fjalla um atriði sem skipta máli eður ei, og velta fyrir sér orsökum og afleiðingum skrifa sinna.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið