Íslenskir auðmenn – gefið peninganna ykkar!

Ég velti þessu smá stund fyrir mér (Ég hef efni á dagdraumum – þeir kosta ekkert) og komst að þeirri niðurstöðu að ef Björgúlfur Guðmundsson væri andsetinn af mér í einn dag þá myndi þetta vera nokkurn veginn hvernig dagskráin hans myndi líta út þann daginn: Aldrei fyrr hefur íslenskt stóreignafólk haft það jafn gott og nú. Innlend hlutabréf hafa margfaldast í verði, bankar og fjárfestingafyrirtæki slá hvert hagnaðarmetið á fætur öðru og þeir sem eiga flottustu lúxusbílana sem kosta yfir 10 milljónir króna eiga þá gjarnan fleiri en einn slíkan. Sögur heyrast af stjórnendum sem fljúga hver öðrum út í einkaþotum á leiki í ensku úrvalsdeildinni, allt á kostnað fyrirtækisins. Íslenskir auðmenn eru flottari á því en margir erlendir kollegar þeirra, sumir jafnvel orðnir húseigendur í Beverly Hills. Aðrir eru svo umsvifamiklir að þeir gera sig líklega til að eignast stærsta fyrirtæki í einkaeign í gamla heimsveldinu, Bretlandi. Gott hjá þeim.

Eninga Meninga – Er gott að eiga of mikla peninga?
Venjulegt fólk (Jónar og Gunnur) endist sem betur ekki til að öfundast út í öll auðæfin sem elíta Íslands hefur sankað að sér. Það er líka margt jákvætt við elju þeirra sem myndast við að græða peninga. Fyrir utan það hversu rosalega stolt við verðum þegar fréttist af kaupum einhverra íslenskra uppa á austur-evrópskum verksmiðjum þá skapar slíkt frumkvöðlastarf einnig fjölmörg tækifæri fyrir Íslendinga. Til að mynda möguleikar á að starfa erlendis um hríð, reynsla sem ætti síðar að nýtast heima á Íslandi, enda trúum við að allir snúi þeir aftur, nútímavíkingarnir okkar. Fögur er hlíðin og vonandi finnst flestum nýju milljónerunum líka best að búa á Íslandi (hér eru góðar laxveiðiár og ódýrt í sund).

Sælla er að gefa en þiggja
Við, þetta venjulega launafólk, veltum því gjarnan fyrir okkur hvort það geti verið að hamingjan sé keypt fyrir peninga. Hristum síðan höfuðið, en hugsum um það í laumi hversu ágætt væri að geta sannreynt á sjálfum sér hvort peningar tryggi ekki algjört frelsi og hamingju.

“Hversu mikið af peningum er nóg?” er spurning sem mörgum auðmönnum væri kannski hollt að spyrja sjálfa sig. Við höfum innleitt hérna markaðskerfi sem leiðir til þess að sumir eru ofurríkir á meðan aðrir eru fátækir og það væri gaman ef auðmenn tækju að upp hjá sjálfum sér að gefa eitthvað af þessum peningum til baka. Guð veit að ekki þurfa þeir alla þessa peninga sjálfir.

Hver er svo sem tilgangurinn með því að safna auði ef ekki til að gefa hann á endanum áfram? Þó að við fæðumst ekki öll jöfn (Samfylkingin er að vinna í því máli) þá er alveg öruggt að þegar við loksins deyjum (fátækir reyndar að jafnaði nokkru fyrr en ríkir) þá tökum við ekkert af peningunum með okkur. Í dauðanum erum við öll jöfn og ég og Björgúlfur Thor getum áreiðanlega gengið sáttir, hönd í hönd, inn í eilífðina…

…hann Bjöggi yrði líka örugglega hressari á göngunni ef hann væri búinn að gefa sjóði sína til einhverra þurfandi áður en það var of seint.

Gerið eins og Gates!
Góðgerðastofnun Bill Gates hefur nú yfir 800 milljörðum að ráða og Gates hefur á þessu ári gefið yfir 250 milljarða íslenskra króna til að berjast gegn ólæsi, fátækt og barnasjúkdómum í þriðja heiminum. Hvað ætli íslenskir auðmenn hafi gefið samanlegt til þessa málstaðar?

“Being Bjorgulf Gudmundsson”
Ég velti þessu smá stund fyrir mér (Ég hef efni á dagdraumum – þeir kosta ekkert) og komst að þeirri niðurstöðu að ef Björgúlfur Guðmundsson væri andsetinn af mér í einn dag þá myndi þetta vera nokkurn veginn hvernig dagskráin hans myndi líta út þann daginn:

Kl.08 – Borða hafragraut og drekk lýsi. Hafragrautur er góður þegar þú hefur efni á að borða hvað sem er annað og lýsi er allra meina bót. Mikilvægt að byrja góðan dag vel.

Kl.09 – Fyrst á dagskrá: Selja alla leikmenn KR sem ekki eru aldir upp í Vesturbænum og ráða áhugamenn í staðinn. Þessi ofurmetnaður er að skemma fótboltann. Það er ekkert gaman að vinna leik þegar mannskapurinn kostar svo mikið að það búast allir við sigri – alltaf.

Kl.10 – Jóhannes í Bónus er með Framsóknarflokkinn í áskrift á 50 þúsund kalli á mánuði. Ég myndi nota hugmyndina en áskrifendurnir yrðu hins vegar þrjú munaðarlausu börnin hennar Sri Ratmahwati. Ég myndi svo hringja í Jóhannes og fá hann til að gera slíkt hið sama og kötta alveg á Framsókn.

Kl.11 – Ég er kominn á flug og myndi næst lýsa því yfir að það hafi verið mistök hjá ríkisstjórninni að selja mér málverkasafnið stóra með Landsbankanum og ég muni því gefa það í heilu lagi inn í artótek Borgarbókasafnins svo að pöpullinn geti leigt Kjarval á 3000 kall á mánuði.

Kl.12 – Ég skipulegg söfnun meðal þeirra 100 Íslendinga sem þénuðu mestan pening á síðasta ári. Markmiðið er að hver gefi 5% af því sem þeir græddu og stofni sjóð sem styrkir öryrkja til að eignast bíla, fara til útlanda eða senda börnin sín í tónlistarskóla. Afgangurinn fer í að gera leikskóla á Íslandi gjaldfrjálsa. Nokkuð sem pólitíkusarnir ættu að hafa drifið í fyrir löngu.

Kl.13 – Ég man allt í einu að Íslendingar hafa það nú flestir allgott og að það séu fleiri sem þurfi aðstoð en heimamenn. Ég hringi í endurskoðandann minn til að fá að vita stöðuna á bókinni minni og kemst að því ég á 40 milljarða inn á henni. Ég gef samstundis einn milljarð til að bólusetja börn í Afríku.

Kl.14 – Gæinn hjá Unesco á Íslandi hringir í mig til að þakka mér fyrir milljarðinn sem fór í bólusetninguna og segir mér að ég hafi líklega á einu bretti bjargað lífi 3475 barna. Hann segir mér að þessi eini milljarður sé meira en ríkið hafi gefið í beina þróunaraðstoð allt þetta ár. Ég er sárhneykslaður á Halldóri og Davíð og smelli tveim milljörðum af mínu fé í þróunarhjálpina svo þeir skammist sín loks almennilega.

Kl.15 – Mér líður vel. Ég er búinn að gefa 3-4 milljarða í dag og það sér vart högg á vatni á formúunni minni. Ég fer í Kringluna og stend þar í c.a. klst. að safna styrktarlínum fyrir Amnesty International (Það er gott að gera eitthvað sjálfur). Ég reikna út í huganum að ekki hefði þurft að segja upp neinum á Landspítalanum síðasta vetur ef við hefðum sleppt því að gefa út bók um alla forsætisráðherra Íslands og ef að afmæli heimastjórnar á Íslandi hefði verið haldið bara í einn dag í staðinn fyrir heilt ár með þrjá vini Davíðs á feitum launum.

Kl.16 – Ég er svo ríkur að ég þarf ekki að vinna lengur en til kl.16 í dag. Ég fæ skyndilega hugljómun um að tíminn sé í raun það dýrmætasta sem við eigum og að það sé synd hversu miklum tíma aðrir Íslendingar en ég, eyði í vinnunni. Ég skrifa undir yfirlýsingu að fordæmi Bill Gates sem segir að ég hyggist á næstu árum gefa, smátt og smátt, u.þ.b. 95% eigna minna og þær muni fara í að stytta vinnutíma á Íslandi. Þannig geti Íslendingar eytt meiri tíma með fjölskyldum sínum og ég geti notið þess að hafa átt þátt í að búa hér til enn betra samfélag.

Ætli Björgúlfi myndi nokkuð líða verr þegar að hann vaknaði, ég horfinn úr líkama hans og búinn að gefa mestalla peningana hans í hluti sem auðga líf annarra? Ég held ekki.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand