Ímynd Mosfellsbæjar

Ungir Jafnaðarmenn í Mosfellsbæ stefna að því að gera fólki á öllum aldri unnt að dvelja við leik og störf í sínum heimabæ svo sómi sé af. Yfirvöld í Mosfellsbæ hafa reynt að skapa bænum þá ímynd að hann sé fjölskyldu- og barnvænt bæjarfélag. Til að svo megi verða þurfa bæjaryfirvöld að taka sig verulega á og vera öðrum bæjarfélögum fyrirmynd. Daglegt líf í Mosfellsbæ er nokkuð sem skiptir okkur bæjarbúa miklu máli. Í því samhengi er áríðandi að hlúa vel að því góða fólki sem hér býr og gera búsetu í bænum eftirsóknaverða. Hvernig er hægt að gera umhverfi okkar betra en það er?

Á stofnfundi Ungra jafnaðarmanna í Mosfellsbæ (UJM) sem haldinn var fyrir stuttu, voru rædd ýmis málefni sem varða Mosfellinga og ímynd bæjarins. Í framhaldi af þeirri umræðu ályktaði fundurinn um dagvistunarmál og málefni ungs fólk í bæjarfélaginu. Fundurinn lýsti áhyggjum af stöðu dagvistunarmála í Mosfellsbæ. Auk húsnæðisskorts komast börn í Mosfellsbæ seinna inn í leikskóla heldur en víða annars staðar. Enn fremur verður æ erfiðara að manna stöður vegna lágra launa, slæmrar aðstöðu og álags. Þessu verður að breyta og UJM skoruðu á bæjaryfirvöld að taka á þessum málum.

Á fundinum var einnig fjallað um málefni ungs fólks í bæjarfélaginu en UJM telja að hér sé ekki nægilega vel búið að ungu fólki. Ólíkt því sem tíðkast í öðrum bæjarfélögum af svipaðri stærð er hér hvorki að finna framhaldsskóla né neins konar menningarmiðstöð fyrir ungt fólk. Hér er lítið við að vera þegar grunnskólagöngu lýkur. Þessu verður að breyta. Brýnt er að gæta að velferð þessa aldurshóps og hefja byggingu framhaldsskóla hið fyrsta. Jafnframt þarf að huga að afþreyingu fyrir ungt fólk, til dæmis með því að koma á fót miðstöð af einhverju tagi sem sinnt gæti fjölþættri menningartengdri þjónustu.

UJM telja að efla þurfi atvinnu. Tryggja þarf að öllum bjóðist fjölbreytileg og áhugaverð störf í Mosfellsbæ. Nauðsynlegt er að styðja þau fyrirtæki sem starfandi eru í bænum. Einnig þarf að gera starfsumhverfið eftirsóknarverðara til að laða að fleiri fyrirtæki. Bæta þarf íþróttastarfið og auðvelda foreldrum að leyfa börnum sínum að stunda þær íþróttir sem í boði eru. Til dæmis mætti lækka, greiða niður eða jafnvel afnema æfingagjöldin. Í Hafnarfirði eru æfingargjöld hjá börnum og unglingum greidd niður og það var að frumkvæði Samfylkingarinnar að það var gert.

UJM stefna að því að gera fólki á öllum aldri unnt að dvelja við leik og störf í sínum heimabæ svo sómi sé af. Yfirvöld í Mosfellsbæ hafa reynt að skapa bænum þá ímynd að hann sé fjölskyldu- og barnvænt bæjarfélag. Til að svo megi verða þurfa bæjaryfirvöld að taka sig verulega á og vera öðrum bæjarfélögum fyrirmynd.

Greinin birtist áður í tímaritinu Mosfellingi

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand