EES og ESB – ólík orðræða

Hvort EES samningurinn eða ESB aðild sé það eina rétta má um það deila enda er ljóst af orðræðunni hér að erfitt getur reynst að samþætta þau. Þess vegna verða menn alltaf að fagna því þegar heit og spennandi málefni eru komin til nefnda. Í upphafi var allt jákvætt…
Þegar Íslendingar undirbjuggu inngöngu sína í EES komst nefnd fjögurra sérfræðinga á vegum utanríkisráðuneytisins að þeirri niðurstöðu að slíkur samningur bryti ekki gegn fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar, en var það frekar umdeilt. Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til – gegn þessari klausu fór samningurinn ekki á sínum tíma en núna eru uppi skiptar skoðanir um það.

Eins og samningurinn hefur verið að þróast núna á síðustu árum mætti segja að hann takmarkaði nú enn frekar fullveldi íslands meiri en í upphafi og sé nú loks að brjóta fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar og hafa fleiri tekið undir þessi sjónarmið og í stjórnarskrárnefndinni er skipuð var í byrjun árs 2005 af forsætisráðuneytinu hafa komið fram ýmsar vangaveltur varðandi þetta ákvæði, sem og aðkomu þjóðarinnar er varða alþjóðamál. Hægt er að finna í fundargerðum nefndarinnar atriði eins og:
– ,,…. þar þyrfti að vera ákvæði um að allt vald væri upprunnið hjá þjóðinni.” (24.ágúst 2005)
– ,,..að vald til túlkunar væri ekki í of miklum mæli framselt dómstólum. “ (24.ágúst 2005)
– ,,… opnað yrði fyrir svokallað þjóðarfrumkvæði, þ.e. að hluti kjósenda gæti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál.” (24.ágúst 2005)
– ,,… ákvæði yrði sett í stjórnarskrá um málsmeðferð þegar taka bæri ákvörðun um aðild að alþjóðastofnunum. // …[t.d. þyrfti] slík ákvörðun samþykki í þjóðaratkvæðagreiðslu enda hefði verið tiltekin lágmarksþátttaka.“ (24.ágúst 2005)

Svo fór það eftir því hver var í brúnni…
Ísland er bundið að taka við öllum þeim reglugerðum ESB er falla undir EES samninginn og er ekki alveg á hreinu hversu mikið það er. Ólíkar tölur hafa komið frá utanríkisráðuneytinu. Þegar Halldór Ásgrímsson (B) var utanríkisráðherra voru þær upplýsingar frá ráðuneytinu árið 2004 að Ísland tæki yfir um 70-80% allra reglugerða frá ESB sem gilda á innri markaðinum. Þegar leitað var eftir upplýsingum árið 2005 um fjölda EES reglugerða sem Ísland innleiddi voru svörin önnur en þá var einungis talið að um 6,5% reglugerða væru innleiddar frá Brussel.Telur Eiríkur Bergmann Einarsson þessar tölur reyndar endurspegla ólíkar áherslur utanríkisráðherra og finnur það einu breytuna. Það sem eftir stendur til að skoða er nýr utanríkisráðherra (Davíð Oddsson (D)) og hefur hann neikvæðari afstöðu en sá sem fyrir var og er það hin pólitíska breyta sem skilar þessum ólíku niðurstöðum. Reyndar telur Eiríkur tölu Halldórs Ásgrímssonar fv. utanríkisráðherra ekki alskostar rétta þar sem ekkert aðildarríki ESB tekur í raun yfir svo mikið magn reglugerða. Samkvæmt greiningu Eiríks á svari fv. utanríkisráðherra Davíðs Oddssonar er það ekki samræmi við hvernig ESB hagar sínum tölum. Ekki er greint á milli tilskipana, reglugerða eða ákvarðana og enginn þessara þátta fær aukið vægi. Einu tölurnar sem eru notaðar koma frá sameiginlegu EES-nefndinni en þó vantar í þær upplýsingar, einnig vantar í svarið allt það sem kemur frá EES í geggum þriðju stoðina sbr. Schengen samstarfið.

Lagasetning er varða t.d. umhverfismál og matvælaeftirlit kemur nær öll frá ESB og hafa lýðræðislegir kjörnir fulltrúar á Íslandi lítið um málið að segja, m.a.s. borgarar innan ESB ríkja hafa margvíslegar leiðir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri sem íslenskir borgarar hafa ekki.

Frá því að EES samningurinn var gerður hafa orðið miklar breytingar á Evrópusambandinu sjálfu og hafa t.a.m. verið samþykktir þrír aðrir sáttmálar eftir að EES-samningurinn var gerður, en hann byggðist á Rómarsáttmálanum. Þessar breytingar á ESB hafa leitt til þess að EES samningurinn er orðinn allt annars eðlis en hann var og leitt til mikils gaps í samstarfinu. Miklar líkur eru á því að ef hin nýja stjórnarskrá ESB tekur gildi að muni þetta gap breikka enn frekar.

og stundum er sléttur sjór og stundum ólgandi haf …
Samkvæmt EES samningnum er framkvæmdastjórn ESB talsmenn EFTA ríkjanna innan ESB stofnanna en vald hennar hefur minnkað töluvert. Vægi Evrópuþingsins hefur aukist sem löggjafarvald innan ESB og þar hafa Íslendingar ekki aðgang. Einnig hefur vægi leiðtogaráðsins aukist allverulega og má segja að það leiði ESB áfram, en í upphafi ESB var ekki gert ráð fyrir leiðtogaráði og spratt það fram af nauðsyn þar sem stofnanir innan ESB veittu ekki forystu.

Forsendur EES samningsins fyrir Íslendinga hafa breyst allverulega, ekki bara vegna þeirra sáttmála er samþykktir hafa verið innan ESB heldur hefur EFTA stoð hans rýrnað. Í upphafi voru löndin sex er stóðu að EFTA stoðinni en eftir að Austurríki, Finnland og Svíþjóð fóru í ESB hefur pólitísk vægi EFTA stoðarinnar minnkað og þau þrjú lönd er standa að henni eiga erfiðara með að koma sínum sjónarmiðum að. Eftir því sem ESB stækkar því hlutfallslega verður erfiðara fyrir EFTA stoðina að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þeir sáttmálar sem hafa verið undirritaðir eftir Rómarsáttmálann hafa leitt til þess að samstarf ESB bæði orðið nánara og samstarfssviðum verið fjölgað en ákvarðanatökuferli sambandsins hefur líka breyst og vegna þessa er hægt að segja að EES-samningurinn endurspeglar því ekki Evrópusambandið eins og það er nú. Mikil valdatilfærsla hefur orðið til ráherraráðsins og Evrópuþingsins með gildistöku Maastricht-samningsins og síðan Amsterdam- og Nice-samningsins og hafa EFTA-ríkin lítinn aðgang að þessum stofnunum. Í árdaga EES samningsins fengu EES löndin mun meira tækifæri til áhrifa innan ESB, meira en kvað á í samningnum. Nú á síðari árum hefur orðið mikil stefnubreyting innan ESB og er EES samningurinn túlkaður það þröngt að EES ríkjunum hefur verið í kjölfarið meinaður aðgangur að undirbúningsvinnu lagagerða

síðan heyrðist kallað úr káetunni: ,,Hvert er verið að fara?”
Að mati Halldórs Ásgrímssonar árið 2002 var stóra spurningin sú hvort hag Íslands sé best borgið á grundvelli EES samningsins eða með aðild að ESB? ,,Þetta er ein stærsta spurning sem íslenska þjóðin mun standa frammi fyrir á næstunni, umræða um hana verður ekki umflúin og henni verður að svara að lokum.“

Í skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA 2004 kemur fram að fyrirferðamesti hlutinn í umræðum nefndarinnar hafi verið aðkoma að ákvarðanatöku og lýðræðisleg vinnubrögð.Til að efla samstarfið og auðvelda þingmönnum að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við EES ráðið var stungið upp á því af hálfu þingmannanefndar EES að formaður og varaformaður nefndarinnar gætu setið fundi ráðsins og máli sínu til stuðnings var bent á að forseti Evrópuþingsins situr fundi ESB ráðsins. Forseti sameiginlegu EES nefndarinnar gat ekki lofað neinu að svo stöddu en tók vel í hugmyndina og ætlaði að kanna hvað hægt væri að gera. Þessar áhyggjur hafa verið viðloðandi Evrópusamstarfið í einhver ár eins og finna má í ræðu Halldórs Ásgrímssonar á aðalfundi landsnefndar Alþjóðaverslunarráðsins en þar segir hann: ,, Við höfum undanfarið í vaxandi mæli þurft að leita til aðildarríkjanna og eiga samskipti beint við ráðamenn. “

Hið mikla áhrifa- og aðkomuleysi sem virðist einkenna að miklu leyti Evrópusamstarf Íslendinga hlýtur að vera áhyggjuefni, þar sem þróunin í gegnum árin hefur aukið á þetta valdaleysi fremur en aukið það. Einar K. Guðfinnsson núverandi sjávarútvegsráðherra sagði þó við umræðu munnlegrar skýrslu utanríkisráðherra á Alþingi, í nóvember 2004 að aðgengi Íslendinga að ákvarðanaferlinu innan EES væri fullkomið og taldi jafnframt að vegna þróunar ESB í ,,í allar mögulegar áttir“ ætti staða samningins um EES að verða margfalt sterkari. Að hans mati gæti jafnvel þróunin verið sú að til verði tvenns konar Evrópusamband, þ.e. ,,Evrópusamband þar sem ríkjasamvinnan er náin og Evrópusamband þar sem hún er ekki jafnnáin.“ Árið 2005 þegar munnleg skýrsla utanríkisráðherra var flutt fór lítið fyrir umræðu um Evrópumál og komust þau sjaldnast á blað enda voru þá miklar og heitar umræður um Íraksstríðið, íslensku friðargæsluliðana og breytingar á rekstri herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Þáverandi utanríkisráðherra Davíð Oddsson sagði að breytingar hafa orðið á áherslum EFTA ríkjanna og þau séu í vaxandi mæli að leita eftir fríverslun við Asíuríki og þannig hætt að feta í fótspor ESB við gerð fríverslunarsamninga, enda hafi ESB aldrei gert fríverslunarsamninga í Asíu. Hann telur þar að auki að það sé ekki sjálfgefið að hagsmunavarsla EFTA-ríkjanna og ESB fari alltaf saman.

Og svarað var: ,,Við vitum ekki en það er komið í nefnd!”
Hvort EES samningurinn eða ESB aðild sé það eina rétta má um það deila enda er ljóst af orðræðunni hér að erfitt getur reynst að samþætta þau. Þess vegna verða menn alltaf að fagna því þegar heit og spennandi málefni eru komin til nefnda. Í júlí 2004 ákvað forætisráðherra að setja nefnd á um Evrópumál og er formaður hennar dóms- og kirkjumálaráðherra Björn Bjarnason. Nefndin er skipuð einstaklingum frá þingflokkum og svo fræðimönnum og er verkefni hennar m.a. að kanna framkvæmd EES-samningsins, hvort og þá hvers konar undanþágur séu veittar í aðildarsamningum að Evrópusambandinu, hvað aðild myndi kosta ríkissjóð til lengri og skemmri tíma litið og hverjir væru kostir og gallar evrunnar fyrir Ísland. Hún á einnig að ræða þau álitaefni er varða tengsl Íslands og Evrópusambandsins og þau mál sem nefndin telur til þess fallin að skýra stöðu Íslands sérstaklega í þessu samhengi. Skipsrotturnar sem skipta máli á 4ra ára fresti bíða spenntar enda er forvitnilegt að vita hvar akkerið verður sett niður eða hvort upp verði í hið minnsta gefin samræmd GPS hnit.

Greinin er m.a. byggð á þessum heimildum
Eiríkur Bergmann Einarsson. Október. 2004 og fyrirlestri hans nú 28.október 2005 HÍ.
Heimasíðu stjórnarskrárnefndar. Www.stjornarskra.is
Halldór Ásgrímsson. 26.september 2002

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið