Í fjötrum FLOKKSINS

Undanfarið hefur um fátt verið meira rætt en hvort forseta Íslands hafi verið stætt á að skjóta fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar til þjóðaratkvæðis. Hefur forseti meðal annars verið sakaður um það opinberlega að vega að „þingræðinu“ fyrir „smámál“, seilast út fyrir valdsvið sitt, já, jafnvel að hafa reynt „coup d’état“ (valdarán). Er engu líkara en nú þurfi stjórnarliðar að engjast milli vonar og ótta um geðslag bóndans á Bessastöðum hvenær sem þeir leggja fram frumvarp til laga. Í sumum skúmaskotum er jafnvel pískrað um að þjóðin sé of illa að sér til að geta skorið úr um hvort fjölmiðlalögin eru fremur til blessunar eða bölvunar. Undanfarið hefur um fátt verið meira rætt en hvort forseta Íslands hafi verið stætt á að skjóta fjölmiðla- frumvarpi ríkisstjórnar- innar til þjóðaratkvæðis. Hefur forseti meðal annars verið sakaður um það opinberlega að vega að „þingræðinu“ fyrir „smámál“, seilast út fyrir valdsvið sitt, já, jafnvel að hafa reynt „coup d’état“ (valdarán). Er engu líkara en nú þurfi stjórnarliðar að engjast milli vonar og ótta um geðslag bóndans á Bessastöðum hvenær sem þeir leggja fram frumvarp til laga. Í sumum skúmaskotum er jafnvel pískrað um að þjóðin sé of illa að sér til að geta skorið úr um hvort fjölmiðlalögin eru fremur til blessunar eða bölvunar.

Hér má þó hreyfa mótbárum. Fyrst er til þess að taka að fjölmiðlalögin munu að öllum líkindum þrengja að tjáningarfrelsinu með fábreyttri fjölmiðlaflóru í stað fjölbreyttrar, harðindum í stað grósku. Í þokkabót verður lífsviðurværi hundraða manna teflt í tvísýnu, jafnvel brotið í bága við íslensku stjórnarskrána og/eða almenn mannréttindi. Þegar á heildina er litið virðast fjölmiðlalögin helst til þess fallin að grafa undan fjórða valdinu í samfélaginu, valdi sem oftar en ekki stuðlar að gagnrýninni hugsun um löggjafar-, framkvæmda- og dómsvald og veitir þannig þarflegt aðhald. Hér er enda um slíkt „smámál“ að ræða að forsætisráðherra sjálfur sá sig tilknúinn að fylgja frumvarpinu úr hlaði.

Núverandi forseti náði að sitja á Bessastöðum í heil átta ár áður en hann greip til málskotsréttarins og gerir það varla öðru sinni nema Alþingi gangi einu sinni enn fram af þjóðinni. Þess utan er hann þjóðkjörinn og er það meira en sagt verður um ráðherra landsins eins og fimm af sex framsóknarráðherrum fá nú að reyna. Það verður víst ekki heldur nógsamlega áréttað að lög taka gildi jafnvel þótt forseti Íslands neiti þeim staðfestingar. Eftir það getur þjóðin ein numið þau úr gildi í leynilegri atkvæðagreiðslu kosningabærra manna. Ef þjóðin er of fávís til að sjá út hvers konar fjölmiðlum hún vill geta gengið að, hvernig getur hún þá verið nógu vís til að gera upp á milli flokka og lista í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum? Það er varla nema von að spurt sé: Hvar er glæpurinn?

Steininn tekur þó úr þegar kemur að hugmyndum um að 75% kosningabærra manna þurfi að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu svo að lög falli úr gildi. Þar með yrði freistandi fyrir fylgismenn fjölmiðlafrumvarpsins að sitja heima í stað þess að greiða því atkvæði sitt. Þröngur hópur gæti þá ráðið úrslitum og yfirgnæfandi meirihluti engu áorkað. Væri það til þess fallið að friða þjóðarsálina? Hvernig þætti stjórnarherrunum það ef fjórðungur alþingismanna (16 af 29 þingmönnum stjórnarandstöðunnar) gæti fellt lagafrumvörp með því að sitja hjá eða vera fjarverandi?

Þegar alþingismenn segja vegið að „þingræðinu“, hvernig getur almenningur þá verið viss um að ekki búi að baki hugsunin: Það er vegið að valdi FLOKKSINS? Af hverju ættu þeir, þjónar lýðsins, annars að óttast lýðræðið? Spyr sá sem ekki veit. En í fyrravor var lagt til að atkvæði í alþingiskosningunum yrðu endurtalin vegna þess að litlu munaði að 30. þingmaður stjórnarandstöðunnar færi inn og 34. maður stjórnarinnar út. Tillagan var felld á Alþingi með 34 atkvæðum gegn 29; slíkur var þingviljinn til að spegla þjóðarviljann. Einnig er alkunna að stjórnmálamenn svíkja iðulega kosningaloforð eins og dæmin sanna síðasta vetur. Þannig veiða þeir atkvæði á fölskum forsendum og þurfa jafnvel ekki að standa reikningsskap gjörninga sinna fyrr en að fjórum árum liðnum; slíkt er „þingræðið“. Í 48. grein stjórnarskrárinnar segir að alþingismenn séu „eingöngu bundnir við sannfæringu sína“ en þegar þóknast þarf forystu FLOKKSINS liggja fæstir stjórnarþingmenn á LIÐI sínu. Sú varð raunin þegar greidd voru atkvæði um fjölmiðlafrumvarpið og fór þó lítið fyrir mörgum stjórnarliðanum í umræðunum.

Hollustuna við FLOKKINN má ekki aðeins marka af því hvaða lagafrumvörp hljóta náð fyrir augum stjórnarliða heldur einnig því hvaða frumvörp gera það ekki. Undanfarin ár hafa verið felld nær öll frumvörp sem þingmenn stjórnarandstöðunnar eru einir um að flytja, í vetur öll nema eitt. Þó virðast þau mörg hver til góðs eins gerð, þar á meðal frumvarp Samfylkingar um að lækka virðisaukaskatt á matvælum úr 14% í 7% en það yrði kjarabót fyrir alla, ekki síst fjölskyldufólk og þá sem minnstu hafa úr að spila. Á sama tíma hafa þingmenn úr Samfylkingu greitt atkvæði með ýmsum stjórnarfrumvörpum. Það gildir einu hvaðan gott kemur, segir máltækið, en stjórnarliðar virðast ekki kunna gott að meta. Í staðinn bera þeir flokkshlekkina svo að glamrar í og nú fórna þeir fjötruðum höndum og kveina hástöfum að „þingræðinu“ sé ógnað. Verður því ekki annað séð en þeir telji þingvilja æðri þjóðarvilja og spyrja má: Hvernig hugnast þjóðinni það?

Forseti Íslands þarf að hafa döngun í sér til að láta ekki misvitra stjórnmálamenn misbjóða þorra þjóðarinnar með lögum sem eru hvort tveggja í senn illa grunduð og illa séð. Vonandi hafa menn það í huga að morgni 26. júní. Ekki er heldur borin von að í komandi atkvæðagreiðslu í ágúst geri almenningur nokkuð sem reynist stjórnarþingmönnum ósjaldan um megn: að fylgja hjartanu.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand