Týndi tilgangurinn

Ég á mér draum um að sá komi dagur í náinni framtíð þegar menn á andstæðum pólum í stjórnmálum geti rætt málefni á málefnalegan máta án þess að einblína á að sigra andstæðinginn. Það er engin skömm, sumir myndu ganga svo langt að kalla það dyggð, að vera fær um að skipta um skoðun. Eins og segir svo göfuglega í 48. gr. Stjórnarskrárinnar eru alþingismenn einungis bundnir við sannfæringu sína. En þá er spurn: Hvaðan kemur sannfæringin? Samræðan
Rökræður skiptast í tvo flokka eftir markmiði þeirra. Rökræðuaðferðirnar eru síðan mismunandi eftir því að hvoru markmiðinu er stefnt.

Annars vegar geta rökræður miðað að því að sannfæra andstæðinginn, að færa sem best rök fyrir einhverju, burtséð frá afstöðu manna til málefnisins. Þetta markmið er til dæmis haft að leiðarljósi í rökræðukeppnum þar sem ræðumönnum eða ræðuliðum er úthlutað umræðuefni og er jafnvel skipuð afstaða líka. M.ö.o. er það rökræðunum alls óviðkomandi hvaða skoðun ræðumenn hafa raunverulega á umræðuefninu og/eða afstöðunni sem þeim er úthlutuð eða hvort niðurstaðan sé „rétt“ eða „röng“, hvernig svo sem á það er svo litið.

Annað markmið með rökræðum er þróun hugmyndar eða skoðunar sem svo á endanum er ætlað að leiða til ,,réttrar” niðurstöðu. Kenningar um mikilvægi málfrelsis eru einmitt margar hverjar byggðar á þeirri hugmynd að skoðun eða fullyrðing sem aldrei verður fyrir áreiti (þ.e. mótmælum, mótrökum) geti ekki talist rétt eða sönn þar sem hin hlið málsins hefur ekki verið skoðuð, sbr. þá kenningu að þó að niðurstöðu sé ekki hægt að sanna, þá sé e.t.v. hægt að afsanna hana.

Við ákveðnar aðstæður, s.s. í keppnum og við þjálfun og kennslu í ræðulist er fyrri aðferðin best þar sem hún gengur einungis út á að hafa rökstuðninginn sem bestan. Sú aðferð getur aftur á móti haft slæmar afleiðingar við aðrar aðstæður, s.s. í umræðum um hagsmunamál þar sem markmiðið hlýtur að vera að fá út sem besta og réttasta niðurstöðu. Þá skiptir rökstuðningurinn miklu máli en einkum vegna innihaldsins, ekki einungis rökstuðningsins sem slíks.

Í pólitískum umræðum hlýtur því síðari aðferðin að vera „réttari“ þar sem grunntilgangur stjórnmála og stjórnmálaumræðna er að bæta líf manna. Í þess háttar umræðum er það fengin niðurstaða sem skiptir mestu máli, ekki bara „að sigra andstæðinginn“.

Þetta virðist vefjast fyrir mörgum og þróast pólitískar umræður oft út í einhvers konar sandkassarifrildi í ætt við „pabbi minn er sterkari en pabbi þinn“.

Margur heldur mig sig
Af þessu leiðir einnig annars konar misskilning. Umræður um fjölmiðlafrumvarpið hafa í mörgum tilfellum þróast í þá átt að vera rifrildi um það hver heldur með hverjum. Þá eru menn búnir að missa sjónar á raunverulega vandamálinu og týndir í einkapólitík þar sem hver hugsar aðeins um sjálfan sig og sinn stól.

Það er svo með það eins og svo margt annað að menn gera ráð fyrir að finna eigin lesti hjá öðrum eða eins og málshátturinn segir: „margur heldur mig sig“. Þær hugmyndir hafa komið upp að Bónusfeðgar styrki Samfylkinguna og einkum þess vegna sé flokkurinn að berjast gegn þessu frumvarpi. Menn gera ráð fyrir að á bak við afstöðu hljóti helst að felast einkahagsmunir.

Sú er ekki alltaf raunin. Það er nefnilega svo að ólíkt því sem þeir eru vanir sem þessa flugu hafa fengið í höfuðið, þá láta ekki allir stjórnmálamenn stjórnast einvörðungu af einkahagsmunum. Það er eðlilegt að menn telji andstæðinga sína nota sömu taktík og þeir sjálfir nota, einkum þegar um áhrifaríkar aðferðir er að ræða. En það er ekki sjálfgefið, einkum ekki þegar um siðferðislega gagnrýndar aðferðir er að ræða.

Ég á mér draum um að sá komi dagur í náinni framtíð þegar menn á andstæðum pólum í stjórnmálum geti rætt málefni á málefnalegan máta án þess að einblína á að sigra andstæðinginn. Það er engin skömm, sumir myndu ganga svo langt að kalla það dyggð, að vera fær um að skipta um skoðun. Eins og segir svo göfuglega í 48. gr. Stjórnarskrárinnar eru alþingismenn einungis bundnir við sannfæringu sína. En þá er spurn: Hvaðan kemur sannfæringin?

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand