Hvers vegna að hlutafélagavæða?

Í grein dagsins fjallar Andrés Fjeldsted um hlutafélagavæðingu fjölmiðla og í greininni segir Andrés m.a. ,,Það virðast í reynd öll rök standa gegn hlutafélagavæðingu. Því hlýtur maður að spyrja sig ef ekki á að selja – hvers vegna að standa í hlutafélagavæðingu? Ég persónulega treysti ekki sjálfstæðismönnum í þeim efnum. Og gleymum því ekki að þeir hafa farið með stjórn menningarmála allt of lengi. Vonum bara að það breytist sem fyrst.“
Það tíðkast allstaðar í Evrópu að ríkisvaldið grípi inn í miðlun upplýsinga með því að standa í rekstri ríkisfjölmiðils. Ástæðurnar eru margar, t.a.m. að ríkið verði að tryggja lýðræðislega umræðu í landinu og fjölbreytni í skoðanamyndun eða hlúa að ýmsum menningarlegum atriðum, s.s. tónlist, listum o.s.frv. Sumir hafa jafnvel beitt þeim rökum að ríkinu veri skylda til að tryggja upplýsingamiðlun til þegnanna, að einstaklingar hafi í reynd rétt á hendur ríkisvaldinu í þeim efnum. Á Íslandi er auk þess enginn pólitískur vilji fyrir því að ríkið dragi sig úr rekstri fjölmiðla. Ástæðurnar fyrir því að flest lönd ákveða að láta ríkið standa í fjölmiðlarekstri eru því þær að markaðurinn er ófullkominn. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að einkareknir fjölmiðlar, sem eru fyrirtæki og rekin á viðskiptalegum forsendum, fari rétt með það vald sem fjölmiðlar fara með í lýðræðislegu samfélagi.

Þá hlýtur maður að spyrja sig; hvers vegna að hlutafélagavæða? Hlutafélagavæðing felur í sér að stofnunin hallast meira að formi einkarekinna fyirtækja, sem að hljómar ansi öfugsnúið ef að menn taka undir þá staðhæfingu að það sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að einkareknir fjölmiðlar, sem eru fyrirtæki og rekin á viðskiptalegum forsendum, fari rétt með það vald sem fjölmiðlar fara með og því þurfi ríkið að grípa inn í.

Helsti kostur þess að hlutafélagavæða er sá að það er talið auka hagkvæmni, að það spari peninga. Í frumvarpinu um þessar breytingar segir einmitt að hagkvæmnisrökin séu megin rökin fyrir því þess að þetta form var valið. Það má hins vegar ekki gleyma því að þetta er aðeins í orði, og hefur í reynd í för með sér marga ókosti. Það má til að mynda færa fram sterk rök fyrir því, að það sé í reynd kostur fyrir stofnun að starfa ekki um of á hagkvæmnisgrundvelli, sérstaklega stofnun sem að þjónar jafn mikilvægu lýðræðislegu hlutverki. Of mikil áhersla á hagkvæmni getur þannig haft ýmis áhrif á hegðun stofnunarinnar og jafnvel dregið úr gæðum hennar.

Vald útvarpsstjóra verður mjög svipað því að hann sé forstjóri fyrirtækis á markaði, og þó svo að frelsi stofnunarinnar til að seilast lengra inn á svið einkaaðila sé eitthvað takmarkað, þá virðist það frelsi vera ansi mikið. Það eina sem að tekið er fram í frumvarpinu er að ef stofnunin fer út í starfsemi sem fellur ekki undir þau grunnhlutverk sem að sett eru fram – að tryggja lýðræðislega umræðu í landinu, að sem flestar raddir komist að, hlúa að menningarlegum atriðum, o.s.frv. – þá verði slíkur rekstur að vera fjárhagslega aðskilinn grunnrekstri stofnunarinnar. Sem þýðir væntanlega að megnið af slíkum rekstri verður rekinn með auglýsingatekjum.

Það má ekki gleymast að það er bráðnauðsynlegt að til staðar séu öflugir einkareknir miðlar sem veiti ríkisreknum miðlum aðhald. Ég tel að flestir séu sammála því. Samtök auglýsenda hafa nýverið lýst því yfir að þau telji mikilvægt að ríkisfjölmiðlarnir haldi áfram að standa í samkeppni á auglýsingamarkaðnum, þar sem að allar líkur séu til þess að auglýsingakostnaður stóraukist geri þeir það ekki. Það má vel vera að sú breyting myndi hafa í för með sér hærra verð fyrir auglýsendur. En er eðlilegt að ríkið sé á vissan hátt að niðurgreiða auglýsingar, að halda auglýsingaverði þeirra. Það má finna mörg rök fyrir ríkisafskiptum á ýmsum sviðum, en varla afskipti af auglýsingaverði. Í mínum huga stenst það enga gagnrýna skoðun. Hvatinn er því væntanlega sá sami, að spara pening ríkisins, sem í reyn eru ansi góð rök. En hverju er fórnað? Myndi það ekki í reynd auka möguleika einkarekinna miðla, ef að ríkið drægi sig út úr slíkri samkeppni? Fæli það ekki í sér aukna fjölbreytni, aukna umræðu o.s.frv., sem að ríkisrekinn fjölmiðill á að hlúa að? Það ýtir einnig undir þann málflutning að ríkið sé í reynd að draga úr þeirri fjölbreytni sem gæti orðið, ef að ríkismiðlarnir hyrfu af auglýsingamarkaðnum. Og ef að þær raddir verða of háværar, er aðeins tvennt til ráða; önnur breyting á stofnuninni eða sala hennar.

Það virðast í reynd öll rök standa gegn hlutafélagavæðingu. Því hlýtur maður að spyrja sig ef ekki á að selja – hvers vegna að standa í hlutafélagavæðingu? Ég persónulega treysti ekki sjálfstæðismönnum í þeim efnum. Og gleymum því ekki að þeir hafa farið með stjórn menningarmála allt of lengi. Vonum bara að það breytist sem fyrst.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand