Til háborinnar skammar

Stefán Ómar Stefánsson fjallar um öryggismál vegna framkvæmdanna á Austurlandi vegna virkjunnarinnar og álversins í grein dagsins. Stefán Ómar segir m.a. ,,Ég furða mig á því Landsvirkjun, eða hver svo sem það er sem sér um öryggismál þarna á virkjanasvæðinu skuli ekki líta til Bechtel sem fyrirmyndar í öryggismálum. Mér þykir skammarlegt að það sé látið við una að fólk láti lífið við framkvæmdir sem þessar, það er unnt að taka til hendinni og fyrirbyggja meirihluta vinnuslysa.“

Stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi hafa ekki farið fram hjá neinum. Ég ætla ekki að ræða ágæti þessara framkvæmda hér, en vill taka fram að ég er mjög hlyntur þeim, enda hafa þessar framkvæmdir haft miklum mun meiri jákvæð áhrif á atvinnulíf á Austurlandi en hinn almenni Austfirðingur þorði að vona við upphaf framkvæmdanna. Það er þó galli á gjöf Njarðar er tengist öryggismálum, og er það einmitt það sem ég vill ræða í þessari grein.


Ég var svo heppinn að vinna bæði á Reyðarfirði í tengslum við álversframkvæmdirnar, og svo aftur í Fljótsdal, við framkvæmdir í stöðvarhúsi vegna Kárahnjúkavirkjunnar. Þetta voru tveir vinnustaðir þar sem markmiðið var svipað, að byggja risavaxin mannvirki til atvinnusköpunar í fjórðungnum. Þeir voru þó gríðarlega ólíkir að því er snýr að öryggismálum og þurftum við m.a. að taka tveggja daga öryggisnámskeið hjá Bechtel, yfirverktaka framkvæmdanna á Reyðarfirði, áður en við hófum störf og voru öryggisreglur mjög strangar og eftirlit sömuleiðis. Þegar komið var í Fljótsdal var allt annað uppi á teningnum. Starfsmenn voru ekki sendir á námskeið þar, eftirlit var margfalt minna en á vinnusvæði Bechtel, fæstir virtu hraðatakmarkanir á vegum, hvorki inni í svokölluðum aðkomugöngum, né utan þeirra. Fyrir þess háttar framkomu hefðu menn verið reknir hjá Bechtel.


Ýmsir sem ég hef talað við hafa gert gys að ströngum öryggisreglum Bechtel og þótti mér margar þeirra býsna skondnar þegar ég byrjaði að starfa þar. Það hefur hins vegar heldur betur sýnt sig að þessar reglur hafa haldið tíðni vinnuslysa í algjöru lágmarki á álverssvæðinu, á meðan að á laugardag fyrir viku bárust fréttir frá Kárahnjúkum með þessum fyrirsögnum:
Alvarlegt vinnuslys við stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal og Alvarlegt vinnuslys á Kárahnjúkastíflu . Í fyrra tilvikinu var um banaslys að ræða og ekki það fyrsta sem verður við þessar framkvæmdir. Þessi tvö slys eru einnig langt frá því að vera einangruð tilvik á virkjunarsvæðinu.


Ég furða mig á því Landsvirkjun, eða hver svo sem það er sem sér um öryggismál þarna á virkjanasvæðinu (þrátt fyrir að hafa unnið þarna var mér það aldrei fullljóst!), skuli ekki líta til Bechtel sem fyrirmyndar í öryggismálum. Mér þykir skammarlegt að það sé látið við una að fólk láti lífið við framkvæmdir sem þessar, það er unnt að taka til hendinni og fyrirbyggja meirihluta vinnuslysa (það gæti jafnvel komið mér á óvart ef öryggi á vinnustöðum vegna Kárahnjúkavirkjunar standist reglugerðir um slíkar framkvæmdir). Tölfræði sem Bechtel fer eftir, segir að yfir 90% allra vinnuslysa verði fyrir áhættuhegðan starfsmanna. Með því að koma í veg fyrir slíka hegðan og með því að gera starfsmenn ábyrga í að gæta eign öryggis hafa Bechtel nú nánast reyst heilt álver nánast stórslysalaust. Ég mæli með því að sem flestir sem standa í framkvæmdum athugi hvernig Bechtel hugar að öryggi starfsmanna sinna, það er til fyrirmyndar. Þannig ætti lang stærstur meirihluti starfsmanna við framkvæmdir sem þessar að snúa heim með 10 fingur og 10 tær… andandi og með virka heilastarfsemi!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand