Hvernig get ég sparað fullt af peningum?

Verkalýðsfélögin keppast nú við að kynna kröfugerðir sínar fyrir komandi kjaraviðræður. Virðist mér þau sýna mikla skynsemi í kröfum sínum – staðráðin í að leggja sitt af mörkum til að viðhalda kaupmáttarauka og efnahagsbata. Vekur sérstaka ánægju mína að lögð skuli vera áhersla á hækkun lægstu launa – stefnt er að því að þau verði 130 þúsund krónur á mánuði í lok samningstímans. Verkalýðsfélögin keppast nú við að kynna kröfugerðir sínar fyrir komandi kjaraviðræður. Virðist mér þau sýna mikla skynsemi í kröfum sínum – staðráðin í að leggja sitt af mörkum til að viðhalda kaupmáttarauka og efnahagsbata. Vekur sérstaka ánægju mína að lögð skuli vera áhersla á hækkun lægstu launa – stefnt er að því að þau verði 130 þúsund krónur á mánuði í lok samningstímans. Svo er bara að vona að þetta gangi eftir og að öryrkjar og aðrir þeir sem neyðast til að byggja afkomu sína á bótum frá ríkinu fylgi með. Það er nefnilega með öllu ótækt að til skuli vera allstór hópur fólks sem þarf að lifa af jafnvel innan við 70 þúsund króna tekjum á mánuði.

Spörum í heimilisrekstrinum
En það er hægt að fara fleiri leiðir til að bæta kaupmátt sinn en að sækja sér hærri laun. Einhver besta leið okkar til að hafa fleiri krónur milli handanna er einfaldlega að fara yfir útgjaldaliðina og sjá hvar hægt er að spara, án þess að lífsgæðin rýrni. Margir hafa þegar gert þetta og uppskorið ríkulega. Mun ég hér á eftir telja upp nokkra liði sem við ættum alltaf að hafa ofarlega í huga við rekstur heimilisins:

1. Kaupa matvörur í lágvöruverðsverslunum. Ótrúlegt er hvað það munar miklu á vöruverði milli verslana. Hér geta fjölskyldur sparað sér tugi þúsunda á ári, stundum mun meira. Sumir segjast ekki geta keypt allt sem þeir þurfa í lágvöruverðsverslunum og freistist því til að leita annað. En vilji menn spara, hafa meira fé milli handanna til að eyða í eitthvað annað en mat, þá fara menn í ódýra verslun og kaupa allt sem þeir geta þar; afganginn er síðan hægt að kaupa annars staðar.

2. Kaupa bensín á sjálfsafgreiðslustöðvum. Hér munar jafnvel um 7 krónum á bensínlítrann. Maður sem ekur 10 þúsund kílómetra á ári á bíl sem eyðir 10 lítrum á hundraðið getur samkvæmt því sparað 7 þúsund krónur á ári. Sparnaður meðalfjölskyldu getur numið tugum þúsunda króna á ári.

3. Kaupa tryggingar hjá þeim tryggingafélögum sem bjóða best. Hér getur líka munað tugum þúsunda króna á ári þegar allt er tekið með. Það er ekkert launungarmál að Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur komið af stað samkeppni á tryggingamarkaði sem neytendur verða að styðja við bakið á, ef þeir á annað borð kunna að meta framtak þeirra sem vilja lækka bifreiðatryggingar.

4. Skoða hvaða banki býður best vaxtakjör og lægst þjónustugjöld. Staðreyndin er sú að vaxtakjör bankanna eru afar mismunandi. Til fróðleiks skulu hér birtar fáeinar tölur úr Mogganum 6. desember 2003:

Almennar sparisjóðsbækur:
Netbanki: 4,65-6,30%
Landsbanki: 0,15%
Íslandsbanki: 0,15%
Kaupþing-Búnaðarbanki: 0,15%
Sparisjóðir: 0,2%

Yfirdráttarlán einstaklinga (grunnvextir):
Netbanki: 10,85-13,75%
Landsbanki: 14,75%
Íslandsbanki: 15,20%
Kaupþing-Búnaðarbanki: 15,25%
Sparisjóðir: 15,30%

Ef maður á 100 þúsund krónur í 10 ár á bankareikningi sem ber 0,15% ársvexti, þá verða vextirnir á tímabilinu (með vaxtavöxtum) 1.510 krónur. Aftur á móti verða vextirnir 57.540 krónur miðað við 4,65% ársvexti. Hér getur því munað verulegum upphæðum til lengri tíma litið. Ef menn eru að spara reglulega, eða sjá fram á að eiga fé í dálítinn tíma, getur margborgað sig að færa það inn á reikninga sem eru verðtryggðir – jafnvel að leita ráða um hvort fjárfesting í verðbréfasjóðum eða hlutabréfum geti verið góður kostur. Hér getur munað hundruðum þúsunda, jafnvel milljónum króna á áratug.

5. Ef þess er nokkur kostur ættu menn að forðast í lengstu lög að draga greiðslu reikninga eða fara yfir á reikningnum sínum. Dráttarvextir og vextir af yfirdrætti eru nefnilega mjög háir. Sumir geta athugað hvort það henti þeim að leita til greiðsluþjónustu bankanna. Stundum nægir einfaldlega að nota kreditkort í stað debetkorta til að sleppa við yfirdráttarvextina – eða að draga fram gömlu góðu peningaseðlana til að sjá hvað maður má eyða miklu. Debetkort eru reyndar almennt óhagstætt greiðsluform fyrir flesta. Þessu skylt er að reyna að forðast að þurfa að greiða sektir á bókasöfnum og videóleigum.

6. Fara vandlega yfir tilboð símafyrirtækjanna og kanna hver býður best miðað við þær kröfur sem hver og einn gerir. Senda sem flest SMS-skilaboð á netinu, ef það er á annað borð tiltækt.

7. Mörg fyrirtæki bjóða hagstæðari kjör ef reikningar eru greiddir með beingreiðslu eða beint af kreditkorti – þetta eiga menn að nýta sér. Hérna má nefna Símann og RÚV sem dæmi. Sum fyrirtæki eru einnig með sérstök afsláttarkjör í boði ef keypt er í miklu magni – til dæmis Strætó bs. Þannig kostar stakt far fyrir 12-18 ára unglinga 220 krónur en aðeins 120 krónur ef keypt eru miðakort. Fari unglingur 200 sinnum á ári í strætó getur hann því sparað sér 20 þúsund krónur á ári.

8. Hætta að reykja, ef menn gera það á annað borð. Einn sígarettupakki á dag gerir hátt í 200 þúsund krónur á ári.

Nú kunna sumir að segja, eftir að hafa lesið þennan lista – sem er á engan hátt tæmandi um sparnaðarmöguleika heimilanna – að þeir nenni þessu bara ekki. Þeir nenni ekki að fara út í banka að breyta viðskiptum sínum, þeir nenni ekki að vasast í að breyta tryggingunum sínum, þeir nenni ekki að fara í aðra verslun en vanalega, þeir nenni ekki að fylla sjálfir á bílinn – þeir nenni ekki að kaupa strætómiðakort.

En hér verðum við að muna að það kostar yfirleitt blóð, svita og tár að græða peninga. Launin í launaumslaginu koma ekki þangað af sjálfsdáðum. Langflest höfum við þurft að vinna hörðum höndum við að afla þeirra. Þannig er því líka farið með að spara útgjöld eða afla sér bestu vaxtatekna. Sparnaðurinn kemur ekki af sjálfu sér – oft þarf að vinna dálítið fyrir honum líka. En ég er viss um að tímakaupið þar er síst verra en í vinnunni – stundum margfalt hærra.

Ráðdeild borgar sig.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand