Hvernig er hagsæld mæld?

,,Lífsgæðakapphlaupið á ekki að snúast um að eiga flotta jeppa, falleg einbýlishús eða flatskjái. Það á að snúast um þær stærðir sem þjóðhagsreikningar ná ekki endilega til.“ Segir Sölmundur Karl Pálsson ritstjóri politik.is í grein dagsins.

Sumt verðum við Íslendingar að hafa í huga hvort sem er í góðæri eða hællæri. Við megum alls ekki gleyma einstaklingunum á bak við tölur og meðaltölin. Íslendingum finnst oft gaman af tölfræði, þá sérstaklega hinni margrómuðu höfðatölu. Í miklu góðæri finnst okkur gaman að skoða verga þjóðarframleiðslu. Aftur á móti í miklu harðæri lítum við gjarnan á atvinnuleysi. Þessar tölur segja okkur auðvitað ýmislegt um hagkerfið og ástand þjóðarbúsins og eru sjálfssögðu mikilvægar, en við megum þó ekki gleyma því að það eru einstaklingar bakvið þessar tölur og það eru einstaklingarnir sem búa til þessar þjóðhagsstærðir. Gleymum því ekki að það er meira til í lífinu en áhersla á efnisleg gæði því þau segja ekki alla söguna.

Hagvöxtur ekki ávísun á velferð

Hagvöxtur skiptir gríðarlegu miklu máli í allri hagþróun, þar sem hagvöxtur er mikilvæg forsenda fyrir minnkun fátæktar í heiminum. Hins vegar verðum við að hafa í huga að einblína ekki aðeins á hagvöxt. Það er merkilegt að þegar menn deila um hvort þjóð búi við mikla velferð miða þeir ávallt við þjóðarframleiðslu á hvern íbúa. Það er þó reynsla okkar að þó að þjóðir búi við háa þjóðaframleiðslu á hvern íbúa þýðir það ekki endilega að íbúarnir búi við mikla velferð. Annað sem oft gleymist í þessari umræðu er að ekki er tekið tillit til hversu margar vinnustundir liggja á bakvið þjóðarframleiðsluna. Íslendingar þurfa að vinna töluvert meira en aðrar þjóðir til að halda sömu lífsgæðum, en það er spurning hvort það séu sönn lífsgæði? Sameinuðu þjóðirnar hafa reynt að mæla velferð þjóða án þess að einblína einungis á þjóðarframleiðslu á hvern íbúa, sbr. Human development index og Human povetry index.

Þegar fólk rökræðir hvenær þjóðir búi við velferð, þá sérstaklega hvort Ísland búi við velferð bendir það ávallt á þjóðhagsstærðir sem er auðvitað gott og gilt. Hins vegar minnir umræðan mig ávallt á orð Roberts Kennedys:

,, Verg þjóðarsframleiðsla mælir ekki hreysti barna okkar, gæði menntunnar þeirra, eða leikgleði þeirra. Hún mælir ekki heldur fegurð ljóða okkar, eða styrk hjónabanda okkar, gáfur, eða heiðarleika ríkisstarfsmanna. Hún mælir hvorki hugrekki okkar, né visku, eða ást okkar af landi okkar. Verg þjóðarframleiðsla mælir allt, til skamms tíma, nema það sem gerir lífið þess virði að því sé lifað, og hún getur sagt okkur allt um Bandaríkin, nema ástæðurnar fyrir því að við séum stolt af því að vera bandaríkjamenn.”

Þessi orð Roberts Kennedys eiga ávallt við, hvort sem við búum á Íslandi eða í hinni stóru Ameríku. Í raun eiga stjórnmálamenn að hafa þessi orð Kennedys í huga þegar þeir ákveða stefnumarkmið sín um að auka lífsgæði samborgara sinna.

Styttri vinnutími og mikil lífsgæði

Verkefni Íslendinga í dag er stórt og erfitt en þó ekki óviðráðanleg. Markmið okkar hlýtur að vera að vinna jafn mikið og aðrar þjóðir og framleiða nóg til að halda uppi háum lífsgæðum. Við erum fámenn þjóð og því höfum við þurft að fá erlent vinnuafl til að vinna ýmis störf.

Markmiðið er einfalt, vinnum minna en afköstum samt nógu miklu til þess að við náum að halda uppi háum lífsskilyrðum. Það sem íslenskar fjölskyldur verða að muna er að ekkert kemur í stað fjölskyldunnar, en undanfarin ár höfum við heldur betur villst af leið og lífið okkar hefur einungis snúist um að vinna til að eiga fyrir ýmsum misnauðsynlegum neysluvörum.

Lífsgæðakapphlaupið á ekki að snúast um að eiga flotta jeppa, falleg einbýlishús eða flatskjái. Það á að snúast um þær stærðir sem þjóðhagsreikningar ná ekki endilega til, gott fjölskyldulíf með heilbrigðum börnum og tíma til að njóta lífsins með þeim. Þessi breyting krefst hugarfarsbreytingar og það er eitt af megin markmiðum okkar að breyta þessum hugsunarhætti með öllum hugsanlegum ráðum. Breytum rétt, ekki bara barna okkar vegna heldur okkar sjálfra vegna.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand