Hver vilt þú að stjórni þínu landi?

,,Hvernig ríkisstjórn viljum við hafa í landi sem á að vera byggt á öryggi, lýðræði, friði og jafnrétti? Viljum við ríkisstjórn sem er eins konar hundur í bandi, dreginn áfram af Bush, Cheney og félögum eða viljum við ríkisstjórn með sjálfstæða utanríkisstefnu, óháða Bandaríkjastjórn?” Segir Guðfinnur Sveinsson í grein dagsins. Dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, og nú í heil fjögur ár höfum við þurft að lifa við það að fá beint í æð, stanslausar sorgarfréttir frá Írak. Árið 2003, nánar tiltekið aðfaranótt 20. mars það ár, réðst Bandaríkja- og Bretlandsher inní Írak með stuðningi 49 annarra þjóða, sem kölluðu sig ,,Bandalag viljugra þjóða”. Ein af þeim þjóðum var, og er Ísland. Síðan þá hafa átök staðið yfir án hléa. Morð á saklausum borgurum, mannréttindabrot og eyðilegging samfélagsins – allt í okkar nafni.


Er ekkert óeðlilegt við það, að ólögleg ákvörðun tveggja manna sem var tekin án samráðs við Alþingi og Utanríkismálanefnd, standi ennþá óhreyfð enn þann dag í dag? Hvað er það sem hindrar íslensk stjórnvöld í því að taka okkur af lista hinna viljugu þjóða? Fulltrúar frá öllum flokkum, meira að segja samstarfsmenn Davíðs Oddsonar og Halldórs Ásgrímssonar til margra ára, hafa lýst því yfir að ákvörðunartaka í þessu máli hafi verið röng og að innrásin í Írak verið á röngum forsendum. Er það einungis dugleysi sitjandi ríkisstjórnar sem slær því á frest að við séum tekin af listanum?


Hvernig ríkisstjórn viljum við hafa í landi sem á að vera byggt á öryggi, lýðræði, friði og jafnrétti? Viljum við ríkisstjórn sem er eins konar hundur í bandi, dreginn áfram af Bush, Cheney og félögum eða viljum við ríkisstjórn með sjálfstæða utanríkisstefnu, óháða Bandaríkjastjórn?


Hver svari fyrir sig, en eitt er víst. Ég vil vera íbúi í ríki sem gerir allt sem í sínu valdi stendur til að ná fram friði í heiminum. Ríkisstjórn síðustu 12 ára, hefur nánast ekkert gert. Tökum sem dæmi ástandið fyrir botni miðjarðarhafs þar sem Ísraelsher brýtur á mannréttindum Palestínumanna dag hvern, meðal annars með byggingu aðskilnaðarmúrs sem að stangast á við öll alþjóðalög. Hvað hefur Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur sagt eða gert í því máli? Ekkert.


Það skiptir máli hver stjórnar landinu okkar. Þó við séum lítil eyja á miðju Atlantshafi, höfum við samt margt að segja um gang mála í heiminum, og getum breytt ótrúlega miklu ef að viljinn er fyrir hendi. Þann 12. maí verður gengið til Alþingiskosninga. Áður en þú merkir við reit á kjörkassanum, hugsaðu þá um framtíðina. Hvað vilt þú? Samfélag þar sem fólk styður við bakið á hvort öðru eða samfélag þar sem hinir hæfustu lifa af og enginn lætur sig varða að aðrir séu beittir misrétti? Hugsaðu þig vel um!

Greinin birtist í Morgunblaðinu í dag, 5. apríl.


Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand