Það hentar afar vel fylgismönnum Dabbaliðsins að ásaka forsetann um að hafa varpað sprengju í samfélagið með að gera embætti sitt pólítískara en það hefur verið, án þess að pæla nokkuð í því hvort embættið hafi þegar verið orðið pólítískt í kjölfar þrýstings frá almenningi og ásökunum forsætisráðherrans, og hvort meintri sprengju hefði ekki verið varpað af hálfu ríkisstjórnarflokkanna þegar þeir samþykktu lögin á þingi. Því skyldi þeim ekki vera í nöp við gamla allaballann á Bessastöðum, sem setur sig upp á móti foringjanum í þeirra liði, honum Davíð? Hann hlýtur að fara alveg óendanlega í taugarnar á þeim fyrir vikið. Niðurstöður forsetakosninganna síðustu þurfa ekkert að koma neitt ofsalega á óvart. Síst af öllu sú staðreynd að fimmti hver kjósandi ákvað að mæta gagngert á kjörstað til þess eins að skila auðu. Ekki svo að skilja að hann Ólafur sé ekki ágætis forseti. Mér finnst hann fínn karlinn þótt hann mætti alveg taka sig minna hátíðlega svona á stundum og æfa vinkið sitt betur. Hann nefnilega vinkar alveg eins og Díana heitin prinsessa að mínu mati. Að öðru leyti hef ég ekkert út á hann að setja og veitti ég honum mitt atkvæði þegar ég þrammaði á kjörstað. Ef hann hefði hins vegar ákveðið að skrifa undir fjölmiðlalögin umdeildu möglunarlaust og steinþegjandi er alls ekki ólíklegt að ég hefði skilað auðu sjálf. Þegar ríkisstjórnin ákvað að setja hin afar umdeildu fjölmiðlalög ákvað fólk nefnilega að líta til stjórnarskrárinnar í leit að úrræðum til varnar yfirgangi hinnar stórspilltu ríkisstjórnar, og tugþúsundir manna skrifuðu undir áskorun til forsetans þess efnis að neita hrákasmíðinni staðfestingar. Ekki bætti úr skák að Davíð sjálfur Oddsson fór hamförum í ásökunum sínum í garð forsetans þess efnis að hann væri ekki hæfur til annars en að skrifa undir möglunarlaust. Þar með var forsetinn gerður að pólítískum embættismanni bæði af almenningi og ríkisstjórn, og þannig hefði hann áfram verið þótt hann hefði skrifað undir lög konungsins Davíðs.
Dabbalið gegn Ólaliði
Það hentar afar vel fylgismönnum Dabbaliðsins að ásaka forsetann um að hafa varpað sprengju í samfélagið með að gera embætti sitt pólítískara en það hefur verið, án þess að pæla nokkuð í því hvort embættið hafi þegar verið orðið pólítískt í kjölfar þrýstings frá almenningi og ásökunum forsætisráðherrans, og hvort meintri sprengju hefði ekki verið varpað af hálfu ríkisstjórnarflokkanna þegar þeir samþykktu lögin á þingi. Því skyldi þeim ekki vera í nöp við gamla allaballann á Bessastöðum, sem setur sig upp á móti foringjanum í þeirra liði, honum Davíð? Hann hlýtur að fara alveg óendanlega í taugarnar á þeim fyrir vikið. Það má tína til ýmis rök gegn því að forsetinn beiti málskotsrétti þeim sem stjórnarskráin tryggir honum, til dæmis með að benda á hefðina; -í 60 ára sögu lýðveldisins hefur honum jú ekki verið beitt til þessa-, eða halda því fram að það sé þingræðinu ekki samboðið. Eða kalla þessa einstöku ákvörðun forsetans ,,geðþóttaákvörðun eins manns”. Nú eða bara setja sig upp á móti þjóðaratkvæðagreiðslum almennt.
Hugsjónum fórnað fyrir liðsheild
Sjá ekki allir hvað það er mikil einföldun að kalla ákvörðun Ólafs ,,geðþóttaákvörðun eins manns”? Fór það framhjá einhverjum að fjöldinn allur af almennum borgurum skoraði á forsetann að neita að staðfesta lögin? Er andstaða Dabbaliðsins við ákvörðun Ólafs ekki bara tilkomin af því að hann ákvað að bera lögin undir fólkið í landinu, sem flest er jú andvígt umræddum lögum? Það kemur ekki vel út fyrir liðið að lúta lægra haldi fyrir almenningi, enda er það vant því að konungurinn Davíð ráði. Í öllum þeim umræðum sem hafa átt sér stað um þjóðaratkvæðagreiðslur, ríkisstjórnina, málskotsréttinn og embætti forsetans, hef ég aldrei orðið vör við það að fylgismenn Davíðs hafi sett sig í spor andstæðinga ríkisstjórnar. Þeim virðist vera tamara að ímynda sér að þeir verði alltaf í ,,sigurliðinu” sem Dabbaliðið hefur verið álitið vera síðastliðin 13 ár. Það að vera í stjórnarandstöðu virðist vera fjarlæg hugmynd í þeirra augum og óþarfi að hafa áhyggjur af því. Hvernig væri að einhver þeirra fjölmörgu liðsmanna Dabbaliðsins prófaði að hugsa um þjóðaratkvæðisgreiðslur út frá lýðræðishugsjónum en ekki ,,liðsheildarhugsjónum”? Ætli það sé bara sameiginlegt einkenni þeirra að halda fast í þá hugmynd að þjóðaratkvæðagreiðslur séu af hinu slæma? Er þetta ekkert lýðræðislega sinnað fólk? Hvað ef, og þá meina ég bara ef, þeir stæðu frammi fyrir því að missa meirihluta á þingi og komast í stjórnarandstöðu, og stjórnin kæmi með frumvarp sem meirihluta þjóðarinnar mislíkaði? Ætli þeir væru þá eins mikið á móti beitingu málskotsréttarins?
Gott að standa með sínum foringja
Hörðustu stuðningsmenn ríkisstjórnar hafa að undanförnu staðið sína pligt og atað forsetann aur, og sakað hann um að vera beinlínis valdur að þeirri pólítísku ólgu sem einkennt hefur samfélagið að undanförnu. Að viðurkenna þátt eigin foringja í henni er auðvitað leiðitömum fylgismönnum ekki samboðið og það er alltaf gott að beina kastljósinu að andstæðingnum. Mannvitsbrekkurnar í Heimdalli hafa líka verið duglegar við að taka undir ásakanir Davíðs á hendur forsetanum. Enda um að gera að taka undir með sínum foringja. Einn úr þeirra röðum, Haukur Eggertsson, sker sig reyndar úr að því leyti. Í grein sinni ,,Þingræði” á vefritinu frelsi.is viðurkennir hann þá staðreynd að það sé í ,,anda lýðræðisins að reynt sé að halda þjóðaratkvæðisgreiðslu um öll veigameiri umdeild mál, og að lýðræðið verði seint of dýru verði keypt”. En það er einmitt mergurinn málsins; ákvörðun Ólafs var fyrst og fremst lýðræðisleg. Hvernig væri að prófa að gleyma hægri-vinstri togstreitunni um stund og hugsa fyrst og fremst um lýðræðið í sambandi við málskotsrétt forsetans? Að vísu gleymir Haukur Eggertsson ekki hægri-vinstri togstreitunni í grein sinni þar sem hann beinlínis eignar hægrimönnum lýðræðishugsjónir, svona til þess að undirstrika það að hann tilheyri nú samt rétta liðinu og að vinstrimenn hafi að öllu jöfnu alltaf rangt fyrir sér. Þó svo að sú staðhæfing hans séu ansi hæpin og vafasöm, og að ég sem vinstrikona taki hana ekki nærri mér og telji hana að sjáfsögðu ranga, þá hljóta hægrimenn að velta henni fyrir sér. Því að ef það er rétt að það einkennir hægrimenn frekar en aðra að vera hlynntir lýðræðinu, hvernig má þá útskýra andstöðu þeirra við það að forsetinn geti borið lög ríkisstjórnar undir þjóðina? Hvaða misbrestur hefur orðið sem veldur því að þeir eru í þeirri mótsögn sem þeir eru í? Kunna þeir kannski ekki að vera hægrimenn? Reyndar held ég að þeir kunni ekkert annað en að vera liðsmenn Davíðs.