Formaður UJ: „Þeir fara með ríkisvaldið eins og þeir eigi það“

Er firringin slík og valdþreytan að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn séu tilbúnir að fórna stjórnarskránni? Manni sýnist á þessum sem og ýmsu öðru að þeir vilja fara með ríkisvaldið eins og það sé þeirra einkaeign. Það er auðvitað misskilningur og sömuleiðis allt tal um að þeir hafi einhvern rétt umfram þjóðina í skjóli þingræðisins. Það er bara eitt vald. Það er vald fólksins. Stundum kallað lýðræði. Þjóðin framselur vald sitt til þingmanna á fjögurra ára fresti en það hættir ekki að vera vald fólksins. Það er ekki hægt að skila því með einhverjum afslætti! Ritstjórn Pólitík.is: Hvernig líst þér á tilraunir ríkisstjórnarinnar til að leggja hömlur á þjóðaratkvæðagreiðsluna um fjölmiðlalögin?

AJ: Þetta er forkastanlegt hvernig þeir fara fram gegn stjórnarskrárbundnum rétti þjóðarinnar. Þeir eru auðvitað að reyna að auka líkurnar á að þeir vinni í atkvæðagreiðslunni og eru greinilega tilbúnir að ganga langt til þess. Þegar að prófessorar eins og Sigurður Líndal segja að stjórnarskráin leyfi ekki takmarkanir þá er ekki hægt að vaða fram með þessum hætti. Þetta er ekkert smá mál að ganga gegn stjórnarskránni. Er firringin slík og valdþreytan að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn séu tilbúnir að fórna stjórnarskránni? Manni sýnist á þessu sem og ýmsu öðru að þeir vilji fara með ríkisvaldið eins og það sé þeirra einkaeign. Það er auðvitað misskilningur og sömuleiðis allt tal um að þeir hafi einhvern rétt umfram þjóðina í skjóli þingræðisins. Það er bara eitt vald. Það er vald fólksins. Stundum kallað lýðræði. Þjóðin framselur vald sitt til þingmanna á fjögurra ára fresti en það hættir ekki að vera vald fólksins. Það er ekki hægt að skila því með einhverjum afslætti!

Það er bara ekki leyfilegt að haga sér þannig gagnvart stjórnarskránni. Þeir verða að lúta þvi ef meirihluti þjóðarinnar er ósammála þeim. Þeim kann að mislíka að fá ekki allt sitt í gegn. En svona er nú bara lýðræðið. Og það er mikilvægara mál en svo en að því megi fórna til að Davíð geti troðið í gegn ritskoðunar- og eignaupptökulögum á ímyndaða andstæðinga sína.

Ritstjórn Pólitík.is: Nú er Davíð loksins búinn að fá fund með Bush. Hverju heldur þú að sá fundur skili?

AJ: Því miður held ég að hann skili litlu. Davíð er þarna kominn í vondan félagsskap. Bush ber ábyrgð á drápi yfir 10.000 óbreyttra borgara í Írak. Það er ekki síst ógeðfellt í ljósi frétta um stóra samninga í Írak sem Bush hefur án útboða úthlutað stórfyrirtækjum tengdum sér og varaforseta sínum. Varla er framferði Bush og félaga okkur til eftirbreytni. Manni virðist líka að þessir fundir Halldórs og Davíð með æðstu valdamönnum Bandaríkjanna hafi hingað til snúist um að lofa frekari fylgisspekt okkar við stríðsrekstur og valdatafl þeirra í vanþróuðum ríkjum heims.

Bush-stjórnin er á góðri leið með að ónýta orðspor Bandaríkjamanna meðal heimsbyggðarinnar með aðgerðum sínum. Nú síðast var Hæstiréttur Bandaríkjanna að hafna stefnu Bush stjórnarinnar í meðferð á föngum sem teknir hafa verið í tengslum við hið svokallaða stríð gegn hryðjuverkum. Þeir hafa ekki viljað skilgreina þessa menn sem stríðsfanga né sem fanga sem njóta eigi sömu réttinda og fangar í Bandaríkjunum sjálfum. Er skrýtið að siðapredikanir þessara manna standi í fólki hvartvetna þegar að þeir fara fram með þessum hætti? Er skrýtið að menn efist um siðferði mann sem vilja láta eitt gilda um sig og annað um aðra. Þarna í Guantanamo á Kúbu eru börn allt niður í 12 og 14 ára teymd um fangabúðir í járnum með hauspoka, sum tekin fyrirvaralaust úr einhverjum fjarlægum sveitaþorpum í Afganistan. Eða þá hrikalegar pyntingar og virðingarleysi gegn föngum í Írak. Nú hefur komið í ljós að Bush stjórnin hefur brugðist við þessu með því að banna myndavélasíma í fangelsunum. Jafnframt kemur í ljós að þeir hafi látið lögfræðinga útbúa greinargerðir sem leyfi hernum að beita pyntingum. Og þessi sömu stjórnvöld þykjast þess umkomin að vanda um við okkur fyrir að veiða nokkra hvali?

Annars situr það auðvitað enn í manni að Davíð og Halldór skuli einir og sér hafa ákveðið að gera okkur að formlegum aðila að þessu stríði. Að þeir skuli hafa leyft sér að gera slíkt án nokkurs samráðs við Alþingi eða Utanríkismálanefnd. Í þessu samhengi gæti ég tekið mér í munn frægan frasa forsætisráðherrans sjálfs og sagt: „Og slíkt þekkist ekki, hvergi nokkurs staðar í heiminum.“

Ritstjórn Pólitík.is: Hvernig finnst þér ríkisstjórnin standa sig í að þjóna þörfum Íslendinga sem vilja mennta sig og skapa með því aukin arð fyrir þjóðfélagið?

AJ: Þeir standa sig illa. Það er náttúrulega ótrúlegt að á sama tíma og fjármunum er kastað í alls kyns gæluverkefni, bruðl og vitleysu þá sé allt í einu vafamál hvort 600 íslenskir unglingar geti fengið inni í framhaldsskóla. Það sýnir kannski best skökk viðhorf stjórnvalda að þau skuli leyfa þessu að gerast svona. Foreldrar og börn eru víða algjörlega miður sín og ekki furða því við höfum talið að framhaldsskólavist eigi að standa öllum til boða. Mig grunar því miður að þetta sé viljandi gert og sé ætlað að vera vatn á myllu þeirra afla í Sjálfstæðisflokknum sem vilja afnema jafnrétti til náms og koma hér upp tvöföldu kerfi með einkaskólum eins og í Bandaríkjunum. Þeir vilja leggja á skólagjöld þannig að það verði eins hér og það er þar, að foreldrar þurfi að spara alla ævi til að koma börnum sínum í skóla. Nokkuð sem fæstir ráða við. Það væri synd ef íslenska þjóðin þyrfti að vakna upp við þann vonda draum að uppgvöta að ríkisrekið menntakerfi á Íslandi hafi verið afnumið. Nokkuð sem við leggjum flest að jöfnu við mannréttindi og höfum getað verið stolt af á vettvangi þjóða.

Ritstjórn Pólitík.is: Þú hefur sagt að þessi ríkisstjórn sé fjandsamleg ungu fólki. Getur þú nefnt einhver dæmi um þetta?

AJ: Já, dæmin eru því miður fjölmörg. Það að fyrsta skólastigið, leikskólinn, sé enn rekin að miklu leyti á kostnað foreldra er svo sannarlega ekki til fyrirmyndar. Hér vil ég sjá Alþingi setja lög sem geri leikskólann gjaldfrjálsan og útvegi sveitarfélögunum þá tekjustofna sem þarf til þess að slíkt megi verða. Það er mikil byrði á ungu barnafólki að þurfa að greiða í kringum 50 þúsund krónur fyrir tvö börn á leikskóla. Þetta er gjarnan fólk sem er að koma þaki yfir höfuðið, greiða háa húsaleigu, er í námi eða byrjað að greiða af háum námslánum. Það er ekki eðlilegt að leggja svona miklar byrðar á einn einstakan hóp í þjóðfélaginu. Ungt fólk verður að fá sér öflugri málsvara á Alþingi en þessa tindáta sem kosnir voru inn síðast og hugsa um ekkert nema að koma sér í mjúkinn hjá leiðtogum sínum.

Annað dæmi sem við sjáum eru t.d. lög um húsaleigubætur sem ekki hafa tekið neinum breytingum þrátt fyrir að markaðurinn í dag sé allur annar en hann var þegar að lögin voru sett. Ungt fólk sem neyðist til að leigja íbúðir í félagi við aðra vegna lítils framboð á einstaklingsíbúðum og hárrar leigu getur ekki fengið húsaleigubætur þótt það sé réttu megin við tekjumörkin. Þetta er vegna þess að ríkið metur fjárhag slíkra meðleigjanda sem einn og hinn sama þótt slíkt sé auðvitað algjör fjarstæða. Þessu verður að breyta. Fjölmörg dæmi eru um slík lagaákvæði sem eru fjandsamleg ungu fólki og eru beinlínis ranglát. Framfærsluviðmið LÍN er eitt dæmið. Aukið atvinnuleysi ungs fólks annað. Hvenær ætla stjórnvöld að fara að einbeita sér að því að skapa litlum og meðalstórum fyrirtækjum betri vaxtarskilyrði? Svigrúm til frumkvöðlastarfs verður að bæta ef atvinnuleysi vel menntaðs ungs fólks á að minnka. Það nær ekki nokkurri átt að fólk sem er búið að mennta sig í háskólum heima og erlendis þurfi að grotna niður í störfum sem eru ekki á þeirra sérsviði. Það er slæmt fyrirkomulag. Ríkið verður að minnka ríkisafskipti sem þrátt fyrir yfirlýsingar hafa auksit í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Ritstjórn Pólitík.is: Hvernig sérðu fyrir þér að stjórn landsins verði háttað á næstu misserum?

AJ: Ég er reyndar nokkuð bjartsýnn á að þessi ríkisstjórn verði skammlíf. Það er ekki aðeins meirihluti þjóðarinnar sem er kominn með upp í kok heldur eru framsóknarmenn og sjálfstæðismenn sjálfir orðnir hundleiðir á samstarfinu. Þessi ríkisstjórn mun ekki standa fyrir neinum framförum. Hún hefur engar nýjar hugmyndir. Helstu afrek hennar eftir kosningar er að fara í stríð við hina og þessa hópa í samfélaginu og leggja fram frumvörp sem fjalla um skerðingu á ýmsum grundvallarmannréttindum fólks og jaðra við fasisma. En það stendur auðvitað upp á okkur sem erum í stjórnarandstöðu að sýna að við séum traustsins verð. Samfylkingin hefur að mínu mati styrkt stöðu sína mikið að undanförnu. Við erum tilbúin að taka við og vinna þau verk sem nauðsynleg eru til að tryggja farsæld allra Íslendinga á komandi árum. Við erum reiðubúin. Það er kominn tími á breytingar. Við þurfum nýjar hugmyndir og nýja ríkisstjórn sem er ekki hokin af valdþreytu og hroka út í þjóð sína. Við þurfum ráðamenn sem þjóna þjóð sinni en ekki öfugt. Það býr svo margt í okkar þjóð. við getum lagt svo margt af mörkum til heimsins og við þurfum að byrja sem fyrst.

Við þökkum Andrési kærlega fyrir skýr og skorinorð svör. Búast má við fleiri svona yfirheyrslum hér á Pólitík.is næstunni

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand