Hvalveiðar og þjóðarstolt

Hildur Edda Einarsdóttir segir að af sögulegum ástæðum kunni ögrandi ákvörðun við umheiminn að kitla þjóðarstolt landans og vekja hjá honum rembing gagnvart öðrum þjóðum sem dirfast að reyna að hafa áhrif á okkur, en nú sé árið 2006 og við ættum að vita að slíkar ögranir þykja hvorki fínar né göfugar nú til dags.

Einhverra hluta vegna þarf hin umdeilda og óvinsæla ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar, að leyfa aftur hvalveiðar í atvinnuskyni, ekki að koma neinum séstaklega á óvart. Með því að gera það er verið að gefa öðrum þjóðum langt nef og sýna þeim að enginn ráði yfir okkur. Það viðhorf kann að hafa komið sér vel á tímum sjálfstæðisbaráttunnar en ætti að vera úrelt nú þegar við eigum að vilja leitast við að sýna fram á að við séum samstarfsfús og friðsöm þjóð við umheiminn og náttúruna.

Þeir, sem hvað hæst mótmæla þessari vafasömu ákvörðun hér á landi, byggja flestir sín rök á möguleikanum á slæmum afleiðingum hennar á efnahagslífið fremur en öðrum þáttum. En eins og margur hvalveiðisinninn hefur bent á eru líkurnar á minnkandi straumi ferðamanna til landsins ekki miklar miðað við fyrri reynslu okkar og reynslu annarra hvalveiðiþjóða. Það stendur þó ekki allt og fellur með efnahagslegum rökum, heldur hljóta umhverfisverndarrökin að vega þyngra. Hvalastofnar eru margir hverjir taldir í útrýmingarhættu vegna ofveiði fyrri ára og mengunar hafsins af mannavöldum og því er engin ástæða til þess annars en að hlífa þeim við frekari ofsóknum. Þessu má í raun líkja við stóriðjuframkvæmdir; það er ekkert víst að ferðamönnum til Íslands eigi eftir að fækka við frekari framkvæmdir –en það þýðir ekki sjálfkrafa að þá sé í himnalagi að fórna náttúruperlum á hálendi Íslands á altari stóriðjustefnunnar.

Siðferðislegu rökin
Alþjóðleg umhverfisverndarsamtök hafa lengi verið litin hornauga hér á landi og það skal viðurkennast að þau eru alls ekki öll hafin yfir gagnrýni eða tortryggni. Það þýðir þó ekki að þau hafi ekki sitthvað til síns máls í andstöðu sinni við hvalveiðar. Því að fyrir utan áhyggjur manna af hvölum í útrýmingarhættu þá er ekki sjálfgefið að við höfum rétt á að myrða þá hvali sem eru svo óheppnir að villast inn í okkar fiskveiðilögsögu, enda eru heimkynni þeirra víða um höf en ekki bara hér við land. Því má telja eðlilegt að aðrar þjóðir telji sig hafa eitthvað um málið að segja. Auk þess eru hvalir ekki eins og hver önnur dýr í sjónum, heldur eru þeir einu spendýrin sem eyða allri sinni ævi neðansjávar og sýnt hefur verið fram á að þeir hafa flókið samskiptakerfi og greind á við hunda og ketti. Þá má bæta því við að ófáir hafa áhyggjur af ómannúðlegum aðferðum sem beittar eru við hvalveiðar –og ekki að ástæðulausu; um stærðarinnar skepnur er að ræða sem erfitt getur reynst að aflífa á skjótan og sársaukalítinn hátt, enda er vitað mál að margan hvalinn blæðir út eftir árásir hvalveiðimanna.

Hvorki fínt né göfugt
Af sögulegum ástæðum kann ögrandi ákvörðun við umheiminn að kitla þjóðarstolt landans og vekja hjá honum rembing gagnvart öðrum þjóðum sem dirfast að reyna að hafa áhrif á okkur. En nú er árið 2006 og við ættum að vita að slíkar ögranir þykja hvorki fínar né göfugar nú til dags.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand