Bærinn minn – kosningar 2006

Stefán Ómar Stefánsson , ungur frambjóðandi á Seyðisfirði, er með ýmsar hugmyndir um hvernig gera meigi gott sveitafélag betra


Nú fer að líða að kosningum og hefur það sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum sem gengur um götur bæjarins. Að þessu sinni ætti valið að vera öllu auðveldara fyrir fólk hér í bæ en fyrir fjórum árum, þar sem nú eru aðeins tvö framboð, en eins og menn muna voru þau fjögur síðast. Síðan þá hefur Þ-listinn horfið á braut, en farsælt meirihlutasamstarf Tinda og Framsóknarmanna hér í bæ hefur leitt til þess að ákveðið var að bjóða fram sem ein heild og er það ekkert annað en stimpill á það hversu ágætt samstarf hefur verið með mönnum síðustu fjögur árin. Ég samþykkti að vera með á þessum lista og varð með því yngsti frambjóðandinn í bænum fyrir komandi kosningar. Vegna þess tel ég mig geta leyft mér að setja fram nokkuð róttækar hugmyndir um framtíð bæjarins, þær takmarkast ekkert endilega við næsta kjörtímabil heldur frekar þá framtíð sem ég myndi óska bænum mínum og þá framtíð sem ég væri til í að eiga að námi loknu, vonandi hér á Seyðisfirði, þar sem ég fékk þau forréttindi að alast upp.

Samgöngur

Í stefnuskrá A-listans er ítarlega farið ofan í saumana á samgöngumálum, einkum fjallað um jarðgöng en einnig fleiri smærri framkvæmdir. Ætla ég einkum að staldra við hið fyrrnefnda. Auknir þungaflutningar vegna ferjunnar hafa skapað mikla þörf fyrir þessi göng og hafa vegna þessa orðið ýmis óhöpp. Einna mest tjón varð þegar flutningabíll með tugi tonna af fiski til útflutnings fór á hliðina í “Neðri-Stafnum” í vetur. Minnstu munaði að illa færi þegar tveir steypubílar fuku útaf og fólk sem er þaulvant að fara yfir heiðina í ýmsum veðrum hefur farið sömu leið. Þetta er alvarlegt mál, einkum með það í huga að möguleiki er orðinn fyrir hendi að laða fólk erlendis frá á bílunum sínum til Íslands yfir vetrartímann. Er það í raun skammarlegt að það fyrsta sem útlendingur sem kemur hingað á bílnum sínum, illa útbúnum til vetraraksturs, skuli þurfa að fara yfir einn erfiðasta þjóðveg landsins í fljúgandi hálku.

Fleira felst í samgöngubótum en bara það að geta boðið ferðamönnum upp á sómasamlegar aðstæður til aksturs og að koma þeim heilum frá fyrstu ökuferðinni á Íslandi (bæði andlega og líkamlega). Með jarðgöng niður á Norðfjörð um Mjóafjörð sé ég möguleika á ýmsu samstarfi við Fjarðabyggð og má þar nefna á milli Fjórðungssjúkrahússins og HSA á Seyðisfirði og einnig myndi þetta auðvelda aðgang Seyðfirðinga að Verkmenntaskólanum. Vinna sveitarfélaga á Mið-Austurlandi um að koma þessum göngum í framkvæmd sem fyrst er öllum sveitarfélögum svæðisins til hagsbóta og vonandi geta menn sammælst um að þetta verkefni á að vera í forgangi í fjórðungnum næstu árin.

Stjórnsýsla

Ég hef rekið mig á það persónulega í samskiptum við stjórnvöld hér “úti á landi” (reyndar ekki við Seyðisfjarðarkaupstað!) að oft er meðferð mála hjá þeim bundin ýmsum annmörkum. Öllum stjórnvöldum ber að fara að lögum, mega ekki brjóta í bága við þau í sínum störfum og þau mega í raun ekkert aðhafast nema hafa til þess heimild í lögum. Öllum erindum sem stjórnvaldi berst ber að svara. Það er þó ekki nóg, heldur verður öll málsmeðferð frá A-Ö að vera í fullu samræmi við stjórnsýslulög og virðast einhverjir vankantar vera á, t.d. ef erindi lendi á röngum stað að það skuli framsent og aðila máls tilkynnt um það. Þetta hafa A-listamenn sett í sína stefnuskrá og treysti ég því að þeir muni fylgja því eftir að starfsmenn stjórnsýslu bæjarins verði meðvitaðir um þær málsmeðferðarreglur sem þeim er skylt að fara eftir. Tiltrú á stjórnsýsluna verður ekki aflað með því að afgreiða mál svona og hins vegin eftir geðþótta manna hverju sinni og virðing fólks fyrir stjórnvöldum eykst þegar mál eru afgreidd fljótt og örugglega, þeim séu veittar góðar leiðbeiningar í samskiptum sínum við þau, mál séu rannsökuð ofan í kjölinn auk þess að stjórnvöld gæti meðalhófs og jafnræðis í ákvarðanatöku er varða hinn almenna borgara. Við viljum að bæjarbúar beri virðingu fyrir stjórnvöldum og eina leiðin til að ná því er að bera virðingu fyrir bæjarbúum.

Stuðningur við námsmenn

Ég vill að bæjarfélagið standi ríkulega að baki námsmönnum. Það er allra mesta auðlind bæjarins, hugvitið sem virkjað er í þeim sem hafa gengið í gegn um grunnskóla í Seyðisfjarðarskóla. Mörg sveitarfélög hér á landi styrkja t.d. framhaldsnám í tónlist með því að greiða niður skólagjöld þeirra sem þurfa langt að sækja í slíkt nám. Það er ekki endilega sjálfsagt að stoppa þar. Af hverju ætti bærinn t.a.m. ekki að styrkja þá til frekara náms er sækja í annars konar nám, t.d. bóknám og iðnnám? Skilyrði fyrir slíkum styrkjum væri lögheimili í sveitarfélaginu og ágætur eða góður námsárangur (í skóla er ágætt best). Þessir krakkar yrðu þannig skattgreiðendur í sveitarfélaginu lengur og við myndum viðurkenna þá staðreynd að mennt er máttur. Hjálpum unga fólkinu okkar til mennta, það er auðlindin okkar og slíkir styrkir þurfa ekki að vera háir, allt er hey í harðindum og námsmenn á Íslandi hafa sjaldnast mikið fé milli handa og myndu hugsanlega borga sig til lengri tíma litið.

Stuðningur við fólk sem er að klára nám

Seyðisfjarðarkaupstaður á að fylgjast með námsmönnunum sínum. Þegar kemur að því að velja sér lokaverkefni í háskólanámi er oft og tíðum úr mörgu að velja. Þarna gæti bærinn komið að. Stuðningur við rannsóknir og samstarf rannsakenda við kaupstaðinn gæti auðveldlega hagnast báðum aðilum. Þarna er að mörgu leyti um sömu rök að ræða og um það sem segir að ofan um námsmannastuðning nema það að þarna eru báðir aðilar farnir að hafa hugsanlega beinan hag í meira mæli af því sem hér um ræðir.

Stiklað stutt á öðrum málum

Eftir ágætan borgarafund á sunnudaginn hef ég ákveðið að styðja þau áform sem uppi eru um virkjun Fjarðarár heils hugar. Vona ég að ný bæjarstjórn setji sig fljótt inn í málið og komi framkvæmdum af stað hið fyrsta eftir kosningar.

Allir vilja “nýja skólann” kláraðan sem allra fyrst og vona ég að framboðin geti með samstarfi klárað það mál frá, hvernig sem kosningarnar fara. Teikningarnar eru víst til og ekkert að vanbúnaði. Gjaldfrjáls leikskóli á að vera í forgang og skoða verður kosti og galla frístundakorta og eigum við að vera í fararbroddi meðal austfirskra sveitarfélaga í ummönnun barna til að laða barnafólk í bæinn.

Ferðaþjónustumál lúta einkum að því að fá ferðamenn til að stoppa lengur í bænum, t.d. með eflingu flóamarkaðarins, sem verið hefur síðustu ár og jafnvel með götumarkaðastemmingu, eins og tíðkaðist svo mjög í minni æsku, á ferjudögum. Markaðssetning skíðasvæðisins með tilheyrandi uppbyggingu þess gæti komið í kjölfarið, bæði innanlands og utan.

Menningarmál hafa verið á góðri leið síðustu ár og hefur verið vel gert í þeim málum. Halda ætti áfram á þeirri braut.

Mörg eru fleiri málin sem mætti ræða en hér hef ég sett fram nokkrar hugmyndir sem mér eru hugleiknar þessa dagana og vona ég að eitthvað af þessu komi á borð bæjarstjórnar til umræðu eftir kosningar. Ef ekki neyðist ég til að koma aftur að fjórum árum liðnum og taka sæti ofar á lista til að hafa bein áhrif um þessi mál. Að lokum vill ég þó benda Sjálfstæðismönnum á að þeir eru ekki einir í ríkisstjórn eins og ráða má af orðum Ólafs Hr. Sigurðssonar í stefnuskrá þeirra og ekkert er víst um það að þeir hafi nokkuð með ráðuneytin að gera að ári liðnu.

Stefán Ómar Stefánsson, 9. sæti á A-listanum.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand