Það hlýtur að mega gera kröfur til flokka sem öllu vilja ráða, helst án þess að þjóðin hafi nokkuð um það að segja nema í alþingiskosningum á fjögurra ára fresti. Er ekki eðlilegt að þeir hafi samráð um að opinbera fjárreiður íslenskra flokka að meira marki en nú er eða reisa skorður við því hvað fyrirtæki og einstaklingar geta lagt til þeirra mikið fé? Sumir stjórnarsinnar bera því við að farið verði á svig við slíkar reglur. En eru það gild mótrök? Á þá ekki sama við um mörg lög frá Alþingi? Væru ekki einhverjar reglur betri en engar þegar kemur að fjárreiðum stjórnmálaflokka? Eða er til of mikils mælst? Raun og mæða
2. júní 2004 markaði tímamót í Íslandssögunni þegar forseti lýðveldisins beitti í fyrsta sinn málskotsrétti sínum – og þó miklu fyrr hefði verið. Síðan þá hefur verið, er og verður hvimleitt að horfa upp á atlöguna að þeim rétti.
Í 2. grein stjórnarskrárinnar segir: „Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið.“ Ef Alþingi samþykkir lagafrumvarp og forsetinn skýtur því í dóm atkvæðisbærra manna í landinu öðlast það engu að síður bráðabirgðagildi, samanber 26. grein stjórnarskrárinnar. Þá geta kjósendur einir fellt það úr gildi (nema Alþingi verði fyrra til); til þess dugir ekki atbeini forsetans. Ef málskotsrétturinn verður afnuminn er það ekki aðeins aðför að forsetaembættinu heldur einnig aðför að þjóðinni.
Forseti Íslands sækir umboð sitt til þjóðarinnar í kosningum og þarf að svara fyrir verk sín ef hann býður sig aftur fram að fjórum árum liðnum. Ef enginn þungavigtarmaður treystir sér til að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta er það varla til marks um annað en hann hafi staðið sig vel í embætti, nógu vel til að enginn raunsær maður telji sig eiga mikið í hann. Þess utan geta 3/4 hlutar Alþingis sett forseta af áður en kjörtímabili hans lýkur og skal þá borið undir þjóðaratkvæði hvort honum er stætt á að taka aftur við, samanber 11. grein stjórnarskrárinnar. Aðhaldið kemur því ekki aðeins frá þjóðinni heldur einnig frá Alþingi. Þannig eru hömlur á að forsetinn beiti málskotsréttinum í óhófi eða eftir geðþótta.
Flokkshagsmunir eða almannahagsmunir?
Til viðbótar við málskotsrétt forsetans er sérlega æskilegt að tiltekið hlutfall atkvæðisbærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lagafrumvarp. En það er ekkert áhlaupaverk að safna tugþúsundum undirskrifta á stuttum tíma svo að óyggjandi sé. Málskotsréttur forsetans getur því komið til bjargar á ögurstundu ef lagasetning frá Alþingi er sérlega hæpin, mjög afdrifarík eða illa séð af þorra manna.
Í alþingiskosningum kjósa menn tiltekinn flokk af margvíslegum ástæðum og eru sjaldnast samþykkir stefnu hans í öllum málum, hvað þá öllum hans gjörningum í fortíð eða framtíð. Sumir greiða flokki atkvæði sitt af því einu að pabbi eða mamma gerir það, af því að þeir eru málkunnugir einum frambjóðandanum eða af því bara … Stjórnmálaflokkur getur ekki gengið að því vísu að þeir sem kusu hann síðast leggi blessun sína yfir öll hans verk á kjörtímabilinu.
Foringjaræðið
Það er til mikils baga þegar í innsta hring stjórnmálaflokka safnast jábræður forkólfanna, menn sem fátt annað hafa að segja, sama hvað á bjátar, en: Heill foringja vorum og flokki! Hann lengi lifi! Húrraa! Húrraa! Húrraa! Um foringjaræðið eru grátbroslega mörg dæmi en nú beina menn sjónum að því hvernig staðið var að þeirri ákvörðun að Ísland styddi opinberlega innrásina í Írak árið 2003.
Ef Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn ætla sér að afnema málskotsrétt forseta Íslands hlýtur það að bjóða heim tortryggni og vekja spurningar: Kann húsbóndahollustan þar góðri lukku að stýra? Og hverju sætir hún? Óbilandi trygglyndi? Blindri fylgispekt? Eða von um fé og frama? Fýsn í frekari völd þegar fram í sækir? Það verður víst hver og einn að eiga við samvisku sína hvers vegna hann skríður í duftinu fyrir forystu Flokksins.
Aðhalds er þörf
Það hlýtur að mega gera kröfur til flokka sem öllu vilja ráða, helst án þess að þjóðin hafi nokkuð um það að segja nema í alþingiskosningum á fjögurra ára fresti. Er ekki eðlilegt að þeir hafi samráð um að opinbera fjárreiður íslenskra flokka að meira marki en nú er eða reisa skorður við því hvað fyrirtæki og einstaklingar geta lagt til þeirra mikið fé? Sumir stjórnarsinnar bera því við að farið verði á svig við slíkar reglur. En eru það gild mótrök? Á þá ekki sama við um mörg lög frá Alþingi? Væru ekki einhverjar reglur betri en engar þegar kemur að fjárreiðum stjórnmálaflokka? Eða er til of mikils mælst?
Sennilega verður mesta armæða að fylgjast með karpinu um hversu litlu (frekar en miklu) þjóðin eigi að ráða um löggjöf í landinu en engu að síður getur það þjark orðið fyrirtaks mælistika á hvað stjórnmálaflokkarnir standa fyrir. Því hvað hafa þeir að óttast? Eigin þjóð? Þá sem þeir eiga að þjóna? Því þrengri skorður sem forsvarsmenn flokka vilja við því að landslýður geti hafnað nýsamþykktum lagafrumvörpum, þeim mun ljósara verður hvort þeir meta meira: vilja fámennrar flokksklíku eða vilja eigin þjóðar. Hvað er tímabærara en að íslenskir stjórnmálaflokkar sýni almenningi hvað leynist undir sauðargærunni?