Hið hnignandi veldi I

Þegar litið er yfir stöðu bandaríska heimsveldisins í heild sinni þá blasa við ansi mörg hnignunarmerki. Skiptir það litlu hvort litið er til efnahagsmála, hernaðarmála, menntamála eða hvort huganum sé rennt yfir huglægari efni ss. almannaálit, hugmyndafræði og þróun orðræðunnar.Ég ætla að renna yfir þessi mál og skoða hvað er til í því þegar bandaríska heimsveldinu er spáð hnignun, jafnvel falli á komandi árum. Þegar litið er yfir stöðu bandaríska heimsveldisins í heild sinni þá blasa við ansi mörg hnignunarmerki. Skiptir það litlu hvort litið er til efnahagsmála, hernaðarmála, menntamála eða hvort huganum sé rennt yfir huglægari efni ss. almannaálit, hugmyndafræði og þróun orðræðunnar.

Ég ætla að renna yfir þessi mál og skoða hvað er til í því þegar bandaríska heimsveldinu er spáð hnignun, jafnvel falli á komandi árum.

Eftir heimsveldið
2001 gaf franski sagnfræðingurinn Emmanuel Todd út bókina Eftir heimsveldið þar sem hann spáir því að Bandaríkin sem heimsveldi séu að líða undir lok. Það sem gefur röksemdafærslu hans aukinn þunga er sú staðreynd að hann spáði fyrir um fall Sovétríkjanna í annari bók Síðasta fallhlífin 1976 og reyndist þar sannspár. Hann byggði spána á tölum um aukinn vöggudauða, aukna menntun alþýðunnar, hindrunum í alþjóðlegum viðskiptum ríkisins og fyrirtækja, hnignum hugmyndafræðilegrar umræðu og lækkandi fæðingartíðni.

Bandaríkin hófu heimsvaldastefnu sína árið 1948 með Marshallaðstoðinni. Fyrir þann tíma höfðu þau staðið mjög til hliðar í alþjóðlegum samskiptum og lítið beitt þunga sínum í alþjóðamálum (Gaman að geta þess að hagkerfi þeirra, líkt og annarra stórvelda í gegnum tíðina, byggði á afar vernduðu markaðsumhverfi. Þetta er svo í beinni mótsögn við þá stefnu sem þeir predika nú yfir þeim ríkjum sem eru að berjast undan fátækt). Í kjölfar Marshallaðstoðarinnar fylgdu hersveitir sem tóku sér stöðu í ríkjum þeim er hjálpina hlutu. Þá sérstaklega Þýskaland og Japan. Þeim var tekið opnum örmum eftir afrek þeirra í seinni heimsstyrjöldinni (þó svo að Bretar sem misstu 300.000 hermenn, Frakkar með 280.000 fallna hermenn og sérstaklega Rússar með 13.000.000 hermenn hafi lagt meira á vogarskálarnar en þeir. Bandaríkin misstu um 265.000 hermenn og báru Breskar, Kanadískar og Franska herveitir oftar en ekki þungan af innrásaraðgerðum).

Í kjölfarið jókst útflutningur Bandaríkjanna gífurlega og styrktu þeir með því hagkerfi sitt og tengsl annara ríkja inn í eigið hagkerfi.

Í kjölfarið kom kalda stríðið þar sem línurnar um áhrifasvið bandaríkjanna var skýrt. Þeir voru boðberar frelsis, og því hugmyndafræðilegur bakhjarl hins ,,frjálsa heims”, og stóðu í vegi fyrir rússnesku ógnina sem ranglega er kennd við kommúnisma (Það fyrsta sem Lenín gerði eftir Októberbyltinguna var að leggja niður sovétin svokölluðu og kippti þar með grundvellinum undan hugmyndafræði kommúnismans. Ef orðræðan væri frjáls þá hefði stjórnkerfi Sovétríkjanna verið kallað einræði… ). Bandaríkin voru því sjálfvalin sem ríkjandi heimsveldi vesturveldanna.

Um 1980 varð stór breyting á efnahagskerfi Bandaríkjanna. Allt í einu fór að bera á viðskiptahalla sem aldrei hafði sést þar áður. Neyslan jókst alveg stöðugt og til að standa undir henni þurftu Bandaríkjamenn að flytja inn vörur í stórfelldum stíl. Og samhliða aukinni neyslu fóru fyrirtæki að flytja framleiðsluna úr landi og stækkaði viðskiptahallinn því hratt. Viðskiptahallinn fór úr 10 milljörðum dollara 1980 í 450 milljarða dollara 2001. Þessu samfara varð svo mikil raunlækkun á launum í neðri- og millistéttum.

Annar vendipunktur var innrásin í Víetnam. Var það í fyrsta skipti sem Bandaríkjamenn þurftu frá að hverfa vegna almenningsálitsins. Í því stríði sannaðist líka það sem hefur margsýnt sig síðan þá og það er að Bandaríkjaher er ekki landher heldur tækniher og verður því að velja sér óvini samkvæmt því.

Þó svo að efnahagslega hafi á þessum tíma, og auðvitað með falli austurblokkarinnar, orðið miklar breytingar þá er það ekki fyrr en nú síðustu ár sem hinar raunverulegu hættur eru að koma í ljós. Og er það í raun ótrúlegt að ekki skuli hafa verið meira fjallað um það í fjölmiðlum vestursins. Eða var stríðið í Írak sett í gang til þess að draga athyglina frá stærri hættu, yfirvofandi falli hagkerfis Bandaríkjanna?

Ég ætla að í kjölfar þessa stutta og síður en svo tæmandi inngangi að rúlla yfir helstu hættumerkin.

1. Hagkefið: Hættumerkin í bandaríska hagkerfinu eru fjölmörg. Mætti þar helst nefna viðskiptahallann, veika stöðu dollarans, gífurlega skuldsetningu ríkisins, yfirvofandi lífeyrisskuldbindingar, lægsta sparnað heimila í sögu Bandaríkjanna, hæstu skuldasöfnun heimila í sögu Bandaríkjanna, ótrúlega hátt hlutfall einkaneyslu í hagkerfinu, kostnað í heilbrigðiskerfinu og síðast en ekki síst útlát vegna stríðsrekstur Bandaríkjanna í Íak.
2. Hernaður: Styrkur hers hlýtur að dæmast eftir því hverja þeir ráðast á. Bandaríski herinn hefur margsýnt það að hann kann ekki til landhernaðar og er því illa undir það búinn að stunda hernám. Að síðustu andstæðingar Bandaríkjamanna skuli hafa verið Haítí, Panama og Írak segir sína sögu á meðan mun ,,hættulegri” ríki hafa að mestu verið látin óskipt. Má þar nefna Íran, N-Kóreu og þar til nýlega Kína.
3. Menntamál: Menntamál hafa lengi verið í miklum ólestri í Bandaríkjunum. Má því til stuðning nefna tölur um ólæsi, allt að 30 % þegar innflytjendur eru taldir með, allt og lítil útgjöld til menntamála og 50% fall í inntöku erlendra nýnema í topp háskólum bandaríkjanna.
4. Heilbrigðismál: Fæðingardauði meðal minnihlutahópa í Bandaríkjunum er með því hæsta sem þekkist í hinum vestræna heimi. Helgast þetta af menntunarskorti, mismunun í heilbrigðiskerfi og samfélagslegri stöðu minnihlutahópa. Einnig eru útgjöld til heilbrigðismála í Bandaríkjunum 16% af þjóðartekjum (á móts við 8% að meðaltali í Evrópu) og virðast Bandaríkjamenn ekki hafa nokkur tæki til þess að halda aftur af útgjaldaaukningu þar sem útgjöldin eru í höndum einkaaðila.
5. Almenningsálit heima og heiman: Bandaríkin eru í öðru sæti þegar spurt er í Evrópu um hættulegasta ríki heims rétt á eftir Ísrael. Þeir eru svo langefstir þegar spurt er utan Evrópu. Þetta þýðir að útflutningur ,,lýðræðisgilda” eru ekki lengur tengd Bandaríkjunum og er sá hópur sem afneitar heimsýn þeirra alltaf að stækka. Þegar heimsveldi missir frumkvæðið og almenningur afneitar leiðsögn þeirra þá verður sífellt erfiðara að viðhalda ríkjandi stöðu sem heimsveldi.
6. Þróun orðræðunnar: Það er augljóst hverjum þeim manni sem fylgist með umræðunni vestanhafs að valdatíð Bush hefur fylgt gífurleg stefnubreyting. Á það bæði við um alþjóðamál sem og innanríkimál Bandaríkjanna. Í innanríkismálum virðist sem um algert andvaraleysi sé að ræða fyrir yfirvofandi hættum og er því umræðunni drepið á dreif. Aukin áhersla á þjóðerniskennd helst hönd í hönd við takmörkun á réttindum borgaranna, hugmyndir um ,,eignarhaldssamfélagið” er örvæntingarfull tilraun til þess að fela þá staðreynd að ríkið getur ekki staðið undir komandi lífeyrisskuldbindingum og feluleikurinn um spillingu í viðskiptalífinu er augljóst merki um ákveðna úrkynjun sem þar á sér stað. Í utanríkismálum ber hæst fyrirlitning gegn gömlum samherjum, Frökkum og Þjóðverjum, og hvernig þeir hafa virt að vettugi alþjóðasamtök eins og Sameinuðu þjóðirnar.

Að lokum
Vissulega er þetta ekki svart og hvítt. Málin eru flókin og ofangreindir þættir tengjast innbyrgðis og aðrir koma þar til. En til þess að draga upp mynd af hnignuninni þá verður að taka ákveðna þætti út og skoða þá bæði sér og í samhengi við hvora aðra.

Ég mun í komandi greinum reyna að gera einmitt það. Draga fram þætti og velta þeim fram og til baka til þess að athuga hvort heimsmyndin eins og við þekkjum hana sé að líða undir lok. Því ekki verður litið hjá þeirri staðreynd að fall heimsveldis er ekki þeirra einkamál og því betur sem þjóðir heims eru meðvitaðar um hætturnar, því betur sem þær eru undirbúnar, því betur geta þær komist út úr þeim hremmingum sem fall heimsveldisins hefur óhjákvæmilega í för með sér.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand