Hvað er frjálslynd jafnaðarstefna?

Sverrir Bollason segir rætur jafnaðarstefnunnar vera í frelsi einstaklinga til að rísa upp gagnvart ólýðræðislegum yfirvöldum og níðingslegum vinnuveitendum. Frelsi til að gera og geta gert það sem hugur stendur til án tillits til efnahagslegra aðstæðna. Þess vegna berjumst við fyrir góðu og réttlátu heilbrigðis, trygginga og menntakerfi því að þar eru stoðirnar sem styðja við bak allra, ríkra sem fátækra. Frelsistilfinning Íslendinga er rík og að henni þarf að hlúa. Hið einstaklingslundaða fas og áræðni Íslendinga er títt til umræðu og aðdáunar. En stoðir íslensks samfélags síðustu öldina standa á grunni jafnaðarstefnunnar og höfum við þar fylgt hinum norðulöndunum að málum. Margt hefur þó verið gert öðruvísi hér og ljóst er að við fjarlægjumst æ hraðar þá hugmynd um samfélag sem við deilum með frændum okkar í norðri. Kaninn þykir meira spennandi.

Orðræðan í íslenskri pólitík og umræðu er mjög fjandsamleg samneyslu og velferðarmálum. Þó er kjarninn í samfélaginu byggður á samneyslu, skattar eru háir og ríkisútgjöldin blása út frá ári til árs.

Sameiginleg útgjöld þjóðarinnar eru hálfgert tabú og því tökum við sjaldan slaginn um grundvallarmálin. Hvernig viljum við að skólarnir okkar og heilbrigðiskerfið séu? Hvaða gæðum búumst við við af almennu velferðarkerfi? (Best í heimi er n.b. ekki gilt svar!) Hvað er eiginlega velferðarkerfi þegar allt kemur til alls?

Hvernig fer það þá saman að við greiðum stórar upphæðir sameiginlega til margvíslegra útgjalda en teljum okkur þó vera með ríka tilfinningu fyrir einstaklingsfrelsi? Svarið liggur í því að jafnaðarstefna og einstaklingsfrelsi eru ekki andstæður heldur sammagnandi hugmyndir.

Rætur jafnaðarstefnunnar eru í frelsi einstaklinga til að rísa upp gagnvart ólýðræðislegum yfirvöldum og níðingslegum vinnuveitendum. Frelsi til að gera og geta gert það sem hugur stendur til án tillits til efnahagslegra aðstæðna. Þess vegna berjumst við fyrir góðu og réttlátu heilbrigðis, trygginga og menntakerfi því að þar eru stoðirnar sem styðja við bak allra, ríkra sem fátækra. Dæmin sanna líka að þar sem jafnaðarstefnan er rík er lýðræðið sterkara og virkara, lífskjör hins almenna borgara eru betri og fyrirtæki búa sannarlega við sanngjarna meðhöndlun sem þátttakendur í samfélaginu.

Jafnaðarstefnan er nefnilega enginn óvinur einkaframtaks né fyrirtækjareksturs. Hún gerir bara þá kröfu að allir sitji í sömu hæð við samningaborðið og að fyrirtæki viðurkenni skyldu sína til að hugsa um umhverfi sitt, efnahagslega, umhverfislega og félagslega en þá ekki í meira mæli en gert er til getu hvers og eins. Skyldu þessa réttlætum við með því að heimurinn og samfélagið er okkar allra en ekki okkar sumra, a.m.k. ennþá.

Jafnaðarstefnan snýst fyrst og fremst um það að mínu mati að viðurkenna það að sum úrlausnarefni verða ekki leyst nema með sameiginlegu átaki samfélagsins; að sum vandamál séu í eðli sínu samfélagsins en ekki á herðum neins eins einstaklings. Vegna þessa sjónarhorns er lýðræðisleg umræða svo mikilvæg fyrir jafnaðarstefnuna. Ef almenningur eða fulltrúar hans ætla að láta til sín taka þarf að fara fram samráð og umræða. Mörgum finnst það vera tími sem eytt er til einskis en staðreyndin er sú að fólk þarf að tala saman til að komast að sameiginlegri niðurstöðu sem hægt er að una við.

Jafnaðarstefnan er frjálslynd í bæði fjárhagslegu og persónulegu tilliti því réttur fólks til að ganga sinn veg er ekki bara virtur heldur er hann studdur með sameiginlegum kerfum. Almennt skólakerfi og fæðingarorlof eru dæmi um slík kerfi. Það að hafa ódýra háskóla tryggir t.d. valfrelsi og réttinn til að mistakast eða endurskoða val sitt. Dæmi um það eru tveir einstaklingar sem ég þekki sem hófu læknanám að loknum BS og BA gráðum í efnafræði og heimspeki hvor um sig. Valið var á endanum þeirra sem einstaklinga en kerfið studdi við ákvörðun þeirra. Atvinnubótatryggingar veita áþekkan rétt á sviði atvinnuvals. Umboðsmenn almennings sjá til þess að fólki sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis eða kynhneigðar án þess að fara þurfi með mál fyrir dómsstóla.

Jafnaðarstefnan leggur grunn í samfélaginu sem allir eiga að geta staðið á. Val hvers einstaklings er stutt með virkum kerfum og stofnunum sem starfa í almannþágu. Í staðinn borgum við skatta og erum stundum beðin um að leggja tíma okkar af mörkum í kjörklefanum. Það er ekki fullkomið en það er réttlátasta og hagkvæmasta kerfi sem ég hef séð. Nú er tíminn til að verja þetta kerfi því núverandi stjórnvöld munu ganga frá leifum þess á næsta kjörtímabili fái þau stuðning til að klára verk sitt.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand