Glansmynd

Tómas Kristjánsson segir það vera ljóst að til þess að Íslendingar standi við loforð um að aukið fé til þróunaraðstoðar og sjái sóma sinn í því að stuðla að jafnari lífi í heiminum þarf að koma núverandi ríkisstjórn frá.

Nú er kosningaár að nálgast og flokkarnir byrja að skella út loforðum sínum. Stjórnarflokkarnir byrja að reyna að láta líta út fyrir að þeir séu að gera eitthvað og reyna að skapa ímynd meðal almennings sem öflug stjórn með hagmuni þjóðarinnar að leiðarljósi, þótt sú ímynd byggist nú að mestu á kosningaloforðum og aðgerðum teknum korteri fyrir kosningar. Þessar aðgerðir eru teknar í þvílíku óðagoti að afleiðingar þeirra sjást ekki fyrr en eftir kosningar. Man einhver eftir hinum margfrægu skattalækkunum, rétt fyrir síðustu kosningar?

Ríkisstjórnin er þó alls ekki öfundsverð. Ekki aðeins verður hún að framkvæma einhverja mikilfenglegustu sjónhverfingu stjórnmálasögu Íslendinga, láta öll sín mistök, klúður og lagabrot hverfa fyrir framan augum 300.000 Íslendinga. Einnig verður hún að reyna að finna eitthvað sem hún hefur gert gott og að líma það saman eins og rifna glansmynd af David Beckham, og með UHU límtúpu að vopni að sannfæra okkur um það að þessi mynd sé ósvikin og heil. Heldur verður hún einnig að halda uppi sömu mynd Íslendinga á erlendri grundu.

Utanríkisráðherra okkar, nei ekki Halldór Ásgrímsson, ekki Davíð Oddsson, ekki Geir Haarde, heldur Valgerður Sverrisdóttir ávarpaði Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í lok síðasta mánaðar. Það er áhugavert að lesa ræðu hennar í heild sinni og sjá hverjar áherslur Íslendinga, því við vitum jú öll hvernig skoðanir utanríkisráðherra og forsætisráðherra eru jú hinar sömu og þjóðarinnar, eru í alþjóðamálum.

Hún hefur ræðu sína á því að fagna því að eftir þrjátíu ára hlé sé forseti allsherjarþingsins kona að nýju. Þarna sýnir hún staðfestu okkar Íslendinga í jafnréttismálum, við erum jú þjóðin sem kaus fyrsta kvennaforsetann í heiminum. Þegar betur er að gáð sést þó ískyggilega mikið UHU meðfram brúnunum. Valgerður talar um 30 ára hlé frá því að síðasta kona var forseti allsherjarþingsins, sem er rétt, alltof langur tími. Hinsvegar er enn sorglegra að skoða nítíu ára sögu framsóknarflokksins þar sem engin kona hefur nokkru sinni verið formaður. Sömu sögu er að segja þegar litið er til sjötíu og sjö ára sögu sjálfstæðisflokksins. Í samanlagðri eitthundrað sextíu og sjö ára sögu ríkisstjórnarflokkana hefur engin kona verið formaður.

Einnig er sorglegt til þess að vita að hinn kynjabundni launamunur kynjanna sem ríkisstjórnin lofaði að leggja til atlögu gegn, hefur ekki minnkað tölfræðilega á síðustu fjórum árum. Þegar ráðherrar eru síðan dæmdir fyrir að brjóta jafnréttislög og í stað þess að segja af sér gera þeir lítið úr lögunum, eins og í tilfelli Björns Bjarnasonar, hljóta viðvörunarbjöllur að hljóma í höfðum kjósenda. Það er staðreynd að eini flokkurinn sem hefur konu sem formann þegar gengið er til kosninga er Samfylkingin, það er staðreynd að enginn annar flokkur sem gengur til kosninga í vor hefur nokkru sinni í sögu sinni haft konu sem formann. Það er staðreynd að virkasti málsvari jafnréttis á þingi er Samfylkingin. Látum ekki glampann af kosningaloforðum blekkja okkur, höldum okkur við staðreyndir.

Valgerður heldur áfram og talar um mikilvægi þróunarhjálpar, varpar fram fallegri mynd af landi sem hefur, hvorki meira né minna, þrefaldað framlög sín til þróunarhjálpar. Glæsilegt ekki satt? Hún lýsir því hvernig stefnt er að enn frekari aukningu framlaga og segir að eftir 2009 sé stefnt að því að ná 0,7% framlaginu sem Sameinuðu þjóðirnar leggja til að þurfi frá öllum þjóðum. Þetta er svo sannarlega glæsileg mynd, Beckham bara kominn í Manchester treyjuna að nýju, en aftur þegar við lítum aðeins nánar á málin lekur UHU límið yfir hvert einasta orð.

Það er rétt að við höfum þrefaldað framlög okkar til þróunarhjálpar, það stafar hinsvegar ekki af mikilli mannúð og framsýni núverandi ríkisstjórnar, heldur af þeirri einföldu ástæðu að síðustu 13 ár hafa framlög ekki aukist í neinu samræmi við hagvöxt. Framlög okkar eru tæplega 0,2% af vergri þjóðarframleiðslu (GNI, gross national income) þrátt fyrir þessa þreföldun, sem segir okkur að áður en þessi rausnarlega aukning átti sér stað voru framlög innan við 0,06% það hljómar hinsvegar ekki jafnvel í ræðu.

Einnig er áhugavert að skoða orð hennar um framtíðar áætlanirnar. Hún talar um að eftir 2009 muni áframhaldandi aukning eiga sér stað til þess að ná 0,7% sem er markið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett og við höfum lofað að ná. Hún virðist þó gleyma að minnast á það að takmarkið fyrir 2009, sem finna má í grein eftir hana sjálfa á heimasíðu hennar er hvergi nærri 0,7% heldur 0,35%. Einnig er gaman að lesa í þeim sama pistli viðurkenningu hennar á síendurteknum brotum á loforðum þessarar ríkisstjórnar þegar hún skrifar: ,, …að Ísland leggi 0,7% vergrar landsframleiðslu til þróunarmála, sem er það markmið sem Sameinuðu þjóðarnar hafa sett og við höfum margoft lofað að ná.”

Það er jú satt að hún segir ekki ósatt, hún talar um að það sé eftir 2009 sem stefnt sé að því að uppfylla þetta loforð, spurning hvort hún sé að tala um 2015 eða 2030. Það er hinsvegar ljóst að til þess að Íslendingar standi við þetta loforð og sjái sóma sinn í því að stuðla að jafnari lífi í heiminum þarf að koma núverandi ríkisstjórn frá. Hún mætir jú eins og klukka með UHU límið sitt á fjögurra ára fresti, en aftur bið ég lesendur að líta á staðreyndir, líta á verk síðustu þrettán ára.

Hún heldur síðan áfram og talar um mikilvægi alþjóðasamtarfs, mikilvægi þess að vinna saman að orkumálum, auðlindum hafsins, velferð barna, mannréttindi og hvernig alþjóða samstarf sé grundvöllur þess að hægt sé að taka á þessum málum. Þetta er mjög gaman að sjá og mætti halda að hún hafi verið að glugga í stefnu Samfylkingarinnar í ferð sinni til New York. Ekki getur hún hafa verið að tala um núverandi ríkisstjórn sem hefur brotið á mannréttindum sinna eigin þegna (samanber öryrkjamálin) auk réttindum erlendra ferðamanna (samanber Falun-Gong). Ekki getur verið að hún sé að tala um ríkisstjórnina sem vegna minnimáttarkenndar og valdahroka, ítrekað útilokað að leyfa þjóðinni að ráða, eins og flestar ef ekki allar Evrópuþjóðir hafa fengið að gera, hvort við göngum í Evrópusambandið sem er einmitt vettvangurinn til þess að taka á þessum málum.

Nei, það er nokkuð ljóst að þrátt fyrir prýðis góða ræðu, falleg orð og mikilvæg málefni sem Valgerður tók fyrir í Sameinuðu þjóðunum, eru þetta ekkert annað en orð. Innantóm orð sett saman á fjögurra ára fresti til þess að varpa upp falskri glansmynd af frammistöðu Íslendinga í alþjóðamálum. Verum varkár í þessari kosningabaráttu, tökum eftir UHU líminu, afhjúpum sjónhverfinguna og tökum glansið af sundurtættri frammistöðu ríkisstjórnarinnar.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið