Hvað vill ungt fólk fyrir sig og sína núna og í framtíðinni?

Það á að vera verkefni ríkisstjórnarinnar að gera dagleg vandamál fólks að opinberum málefnum og stuðla þannig að betri hagsæld almennings og hér þarf að ríkja traust.

Ungt fólk vill nútímalegt, fjölbreytt atvinnulíf.

Ungt fólk vill gott skólakerfi sem stenst alþjóðlegan samanburð, fjölbreytt námsúrval, kennslu á heimsmælikvarða og tækifæri til náms erlendis.

Ungt fólk vill jafnréttissinnað samfélag og traust velferðarkerfi.

Ungt fólk vill tækifæri.

Atvinna

Við efnahagshrunið jókst atvinnuleysi til muna. Atvinnuleysi er 8,6% á Íslandi og mælist mest hjá ungu fólki á aldrinum 16-24 ára, eða 18% allra atvinnulausra. Það gerir um rúmlega 2700 ungmenni sem hafa ekkert að gera.

Reynsla nágrannaþjóða okkar sýnir að afleiðingar langtímaatvinnuleysis eru hvað alvarlegastar fyrir ungt fólk, mörg hver með litla skólagöngu að baki og skamma starfsreynslu. Þessi aldurshópur er jafnan sá hópur sem missir fyrst vinnuna þegar kreppir að og fær síðastur vinnu þegar birta tekur á vinnumarkaði. Atvinnuleysi ungs fólks sem í raun hefur starfsferil sinn í atvinnuleysi, getur haft áhrif á starfsævina á enda.

Ríkisstjórnin í samvinnu við Vinnumálastofnun hefur staðið fyrir átakinu Ungt fólk til athafna frá árslokum 2009, þar sem markmiðið er að aldrei skuli líða meira en 3 mánuðir frá því að einstaklingur á aldrinum 16-29 skrái sig án atvinnu að haft verði samband og honum eða henni boðið starf, námstækifæri, starfsþjálfun eða þátttaka í öðrum verkefnum.

Þetta átak er frábær viðleytni til þess að leysa erfitt og flókið atvinnuástand en þrátt fyrir verðug markmið þá eru ennþá 18% ungmenna atvinnulaus rúmu ári síðar.

Það verður að finna öllu þessu unga fólki hlutverk í lífinu. Annars eigum við það á hættu að horfa upp á týnda kynslóð á vinnumarkaðnum.

Þess vegna er það svo sannarlega fagnaðarefni að ríkisstjórnin sé nú búin að lofa öllum þeim sem sækja um skólavist undir 25 ára aldri inngöngu í framhaldsskóla. Þetta er gríðarlega stórt og mikilvægt skref og vonandi leysir þetta að öllu eða miklu leyti atvinnuleysi ungs fólks. Þetta er líka rétt skref í átt að því að hafa hér vel menntað vinnuafl í framtíðinni. Allt annað er í raun ófyrirgefanleg sóun á kröftum ungs fólks í samfélaginu.

Skuldir

Ef lítum til skulda þá er ungt fólk undir 35 ára aldri skuldsettasti aldurshópurinn. Þetta er sá þjóðfélagshópur sem er að búa sér sitt fyrsta heimili og hefur fyrir ungum börnum að sjá.

Í dag eigum eigum við heil ósköp og skuldum heil ósköp. En það er vont að hefja lífið skuldum vafin og föst með eignir sem ekki er hægt að borga af og ekki er hægt að selja.

Stór þáttur af þessu vandamáli er húsnæðiskerfið á Íslandi. Íslendingar hafa verið nánast átthagabundnir vegna húsnæðiskaupa á húsnæðismarkaði þar sem venjan er hátt leiguverð og skammtímaleiga eða húsnæðiskaup þar sem eignamyndun er engin eða lítil.

Það er engin ástæða til þess að viðhalda þessu kerfi. Það er því framfaraskref að ríkisstjórnin ætli nú að gera átak í húsnæðismálum svo að vonandi finnist viðunandi lausn. Hér þarf að skapa húsnæðisstefnu og kerfi sem gerir fólki kleift fyrir viðunandi og viðráðanleg verð að eignast heimili, hvort sem er keypt eða leigt.

Menntun

Ef ég vík aðeins að menntun, þá búum við að háu menntastigi, við fjárfestum mikið í lægri skólastigum en erumfyrir neðan meðaltal OECD ríkjanna þegar kemur að fjárfestingum í háskólum þrátt fyrir mikla aukningu útskrifaðra nemenda.

Menntun skiptir öllu máli. Menntun er mikilvæg fyrir efnahagslega þróun. Niðurskurður á þessu sviði mun hafa alvarlegar afleiðingar. Það getur verið að aukinnar skilvirkni og hagræðingar sé þörf og þá skulum við ganga í það verk. En við megum ekki fyrir neina muni leyfa okkur að skera niður svo að bitni á menntunni sjálfri. Þannig spörum við ekki, við töpum bara.

Háskóli íslands er þarna mikilvægur. Það má ekki fjársvelta okkar eina háskóla sem uppfyllir þær kröfur að mega kalla sig universitet. Háskóli Íslands er góður háskóli og hér er sterkt og gott rannsóknarsamfélag. Þetta má ekki breytast.

Það þarf að auka samstarf á milli menntastofnana og vinnumarkaðar og tengja nám og starf betur saman. Á Íslandi er t.d. lítið um starfsþjálfun.

Átak ríkisstjórnarinnar í fyrra og aftur nú í ár við að skapa sumarstörf fyrir námsmenn er flott átak. Þegar þessar starfsauglýsingar er skoðaðar nánar má sjá að þarna er vísir að því sem kalla mætti starfsþjálfun fyrir nemendur í sínu fagi. Þetta mætti þróa áfram og efla.

Við eigum líka að skapa samfélag þar sem menntun er fjárfesting til framtíðar sem svo skilar sér tilbaka. Tilhneygjing hefur verið til að færa atvinnugreinar yfir á háskólastig eða lengja háskólanám án þess að það skili sér í bættum kjörum. Hér þarf að skapa jafnvægi. Að ekki sé minnst á þá láglaunastefnu sem hefur ríkt þegar kemur að menntuðum kvennastéttum.

En hvert stefnum við?

Flestar þróaðar þjóðir í dag hafa það markmið að vera þekkingarsamfélög. Til þess að vera samkeppnishæf á alþjóðlegum vettvangi verðum við að leggja aukna áherslu á menntun, vísindi, tækni og frumkvöðlastarfsemi. Við eigum að byggja á þeim sigrum sem þegar eru unnir og ekki leyfa því sem áunnist hefur að tapast. Hvorki að drabbast niður né að missa þekkingu og fyrirtæki úr landi. Það þarf að styrkja samkeppnissjóði, stuðla að aukinni samvinnu og efla alþjóðlegt samstarf. Vísindi geta skapað eina af stoðum nýs íslensk samfélags.

Við eigum þannig að nýta þau tækifæri til fulls sem styrkleikar okkar samfélags bjóða upp á.

Við þurfum að stuðla að nútímalegu, fjölbreyttu atvinnulífi þar sem ungt fólk fær bæði valkost og tækifæri.

Réttlætið

Við þurfum líka að tryggja að íslenskt samfélag sé réttlátt samfélag og að allir fái jöfn tækifæri. Við viljum ekki búa í landi þar sem það skiptir máli hverjir foreldrar þínir eru eða hvern þú þekkir þegar kemur að atvinnutækifærum. Við eigum að geta stefnt að hverju sem er óháð uppruna.

Velferðarmál eru líka réttlætismál. Velferðarkerfið má ekki vera blekking, það verður að vera raunverulega til staðar. Við viljum búa í velferðarríki. Fyrir ungar konur á vinnumarkaði skiptir öllu máli að ekki sé ráðist að fæðingarorlofssjóði og greiðslur þar skertar. Að leikskólar taki við öllum börnum og að til staðar sé öryggisnet fyrir okkur öll þegar á þarf að halda. Annars erum við ekki að starfa í anda jafnréttis.

Við búum í litlu landi og við höfum fullt færi á því að hlúa að hverjum og einum sem í landinu búa. Mismunun, stéttaskipting, hroki og yfirlæti ættu ekki að vera til staðar.

Við viljum búa í landi þar sem ekki er stanslaus valdabarátta sérhagsmunahópa sem koma í veg fyrir uppbyggingu og þróun. Við viljum búa í landi þar sem kraftar þjóðarleiðtoga og annarra fara í að auka lífsgæði okkar og hag.

Það á að vera verkefni ríkisstjórnarinnar að gera dagleg vandamál fólks að opinberum málefnum og stuðla þannig að betri hagsæld almennings og hér þarf að ríkja traust.

Það sem skiptir ungu fólki þó mestu máli eru tækifærin. Meira en helmingur ungs fólks telur tækifærin fleiri og betri utan Íslands. Við þurfum að skapa hér samfélag þar sem eru raunveruleg tækifæri. Ungt fólk þarf að trúa því að framtíðin sé björt. Að hægt sé að búa sér gott líf. Ekki vegna þess að annars flýji ungt fólk landið heldur vegna þess að annars fer það vondauft út í lífið. Við viljum búa í landi þar sem ríkir bjartsýni og von.

Með baráttukveðju.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand