Hugleiðingar um stöðuna

kronur

PISTILL Þegar sest er niður við tölvuna til að rita pistla þessa dagana er ákaflega auðvelt að ausa úr skálum reiði sinnar yfir ástandinu sem okkur Íslendingum er boðið upp á um þessar mundir.

kronur

PISTILL Þegar sest er niður við tölvuna til að rita pistla þessa dagana er ákaflega auðvelt að ausa úr skálum reiði sinnar yfir ástandinu sem okkur Íslendingum er boðið upp á um þessar mundir.  Óvissan er gríðarleg, þó vissan sé meiri nú en í gær. Hvað sem öllu líður er þó nauðsynlegt að horfa til framtíðar og velta fyrir sér hvað hún ber í skauti sér. Sagnfræðingar og aðrir munu með tíð og tíma fletta ofan af því sem gerðist og um það verða ritaðar margar bækur.

Staðan sem við erum í núna er raunar ekkert sérstaklega pólitísk. Við skuldum sem þjóð, við höfum lítið sem ekkert lánstraust erlendis, ekki það að það séu til peningar að fá lánaða. Við horfum fram á samdrátt og verðhjöðnun í samfélaginu okkar sem er ákaflega sjaldgæft og eiginlega fordæmalaust. Atvinnuleysi eykst með ógnvænlegum hraða og fjölskyldur eru að tapa stórum hluta eigna sinna á verðbólgubáli sem skíðlogar. Með þessu er ekki verið að segja að orsakir vandans séu ekki pólitískir, en vandinn sem slíkur er það kannski ekki.

Skuldastaða Íslendinga er að því er virðist enn aðeins óljós enda erum við enn að fá gulu miðana, sem við erum svo hugsi yfir. Almennt virðist talið að hallinn á fjárlögum næsta árs verði í kringum 150-170 milljarðar sem er auðvitað gríðarlegt áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þess að í því niðursogi sem efnahagslífið okkar og atvinnustigið er í á ríkið erfitt með að spyrna við fótum og stöðva fallið. Því er ljóst að til róttækra aðgerða þarf að grípa og þar koma stjórnmálin aftur til sögunnar.

Það er algerlega ljóst að grundvöllur þess að reisa landið við er það að koma styrkum stoðum undir efnahagslífið. Þar eru flestir sammála um að grundvallarbreytinga sé þörf í stefnu okkar í peningamálum og margir telja að evran sé okkar kjörmynt, enda mest of erlendum viðskiptum okkar við evrusvæðið. Það er raunar ótrúlegt og mikill ábyrgðarhlutur að stinga hausnum í sandinn og neita að horfast í augu við þann raunveruleika. Ekki hafa komið fram jafn sterk rök fyrir öðrum gjaldmiðli og evrunni sem ekki eru byggð á tilfinngarökum.

Þá þarf líka að fá trú á hagkerfið upp á nýtt. Stundum hefur verið sagt að seðlabankar eigi fyrst og fremst eitt dýrmætasta tækið sitt til hagstjórnar í trausti. Hin virðulega stofnun á Svörtuloftum hefur glatað sínu, en það er nú líklega óumdeilt, bæði erlendis og það sem kannski sínu verra, innanlands. Vikurnar fyrir hrun hurfu gríðarlegar fjárhæðir út úr íslenska bankakerfinu og heyrðust tölur á bilinu 15-20 milljarðar í beinhörðum peningum. Víst er allavega að starfsmenn öryggisfyrirtækja höfðu nóg að gera við að fylgja fólki með innkaupapoka fulla af seðlum heim til sín. Ekki hefur undirritaður getað fundið nákvæmar tölur um þetta en telur sig þó hafa ágætis heimildir fyrir þessari staðreynd.

15 – 20 milljarðar hljóma kannski ekki sérstaklega eins og stórar upphæðir, svona í samhengi við aðrar tölur sem verið er að kasta fram varðandi skuldastöðu okkar Íslendinga.  En þá ber að minna á að peningar vinna inn í kerfinu, fyrir kerfið.  Þeir margfaldast er þeir renna inn og út af reikningum og vaxa. Yfirleitt hefur þessi margfaldari verið í kringum 10, þ.e. milljón velt út í kerfið verður að 10 milljónum þegar það hefur runnið í gengum kerfið (orðið að M3 úr M1, fyrir þá sem hafa áhuga) en við breytingar á eiginfjárhlutfalli bankanna hjá Seðlabanka árið 2003 fór þessi margfaldari úr skorðum. Margfaldarinn sem hafði verið í kringum 10 fór í og rokkaði á milli 15-20 með tilheyrandi verðbólgu. Það var að vísu mjög stórt hættumerki um óöruggt kerfi og færir hagfræðingar hefðu líklega hækkað stýrivexti mikið við þá aðgerð til að sporna við verðbólgunni. Það var ekki gert fyrr en talsvert seinna og er líklega efni í aðra grein.

Það sem ég held fram er að á nokkrum dögum og vikum á síðasta ári hurfu líklega á bilinu 150-200 milljarðar út úr fjármálakerfinu, varlega áætlað, í formi M3 og var það ekkert annað en stórfellt áhlaup á bankana sem var hrundið af stað með óljósum upplýsingum og hjarðhegðun.

Því má vera ljóst að fyrir stjórnvöldum liggur gríðarlegt verkefni á sviði uppbyggingar traustsins til þess að þessir peningar skili sér að fullu til baka inn í kerfið. Það gerist ekki með yfirlýsingum um að þjóðin standi ekki við alþjóðlega skuldbindingar sínar. Leikritið sem á sér stað í kringum Seðlabankann þessa dagana er því sorglegra en orð fá lýst.

En um leið og talað er um efnahaginn og markaðinn í landinu má ekki gleyma því að almenningur er ekkert annað en markaðurinn. Þ.e. markaður er fólk. Hvort sem það eru lögaðilar eða einstaklingar þá erum við hér öll saman í þessari súpu og fyrirtæki virka ekki án fólksins. Því verður að huga að hvoru tveggja við uppbygginguna.

En vandinn er eins og áður segir ekkert sérstaklega pólitískur. Lausnin er það í sjálfu sér ekki heldur að mati þess sem þetta ritar þó vel flestir séu líklega ósammála því. Straumar og stefnur í pólitíkinni undanfarin ár eiga ekki við lengur, þjóðin þarf á raunsæisstefnu að halda þar sem jafnt er litið til einstaklinga og fyrirtækja.  Hér þarf að ná niður gríðarlegum fjárhagshalla og það verður ekki gert nema með sársaukafullum niðurskurði og líklegast einhverskonar skattahækkunum. Ekki getum við tekið lán og eini möguleikinn er þá að prenta peninga. Annað er eiginlega ekki í boði. Peningaprentun mun auðvitað leiða til verðbólgu sem verður líklega einhver kostur vegna mögulegrar verðhjöðnunar en er ekkert annað en verðbólguskattur, þ.e. form af skattlagningu frá ríkinu og því ber að varast í lengstu lög þá freistingu að setja vélarnar í gang.

Útfærsla þessara erfiðu aðgerða er auðvitað pólitísk, en sú staðreynd að við verðum að gangast fyrir þessum aðgerðum er ekki pólitísk.  Því væri óskandi að hið háa Alþingi tæki sig til einu sinni og legðist á eitt, þegnum landsins til hagsbóta.

Hitt ber síðan að nefna að þau verk sem bíða næsta þings eru gríðarleg.  Þar verður að taka mjög erfiðar ákvarðanir og má nánast telja víst að þær verða óvinsælar.  Því eru þeir einstaklingar og þingmenn sem nú eru að fara í prófkjör ekki öfundsverðir af því verkefni sem þeirra bíður, nái þeir kjöri.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið