Hugleiðingar landsbyggðarmanns

,,Þar sem áætlanir stjórnvalda í byggðamálum hafa ekki hjálpað landsbyggðinni mikið undanfarin ár, er manni spurn hver lausnin sé, svo landsbyggðin geti staðið jafnfætis höfuðborgarsvæðinu?“ Spyr Sölmundur Karl Pálsson

Það kemur fyrir að maður heyrir orðið ,,landsbyggðarpakk”, og oftar en ekki í því samhengi að menn séu ósáttir við að þeir sem búa á landsbyggðinni vilji að ríkið styðji þá. Allir jafnaðarmenn hljóta að styðja aðgerðir sem stuðla að því að almenningur geti búið þar sem hann vill á landinu. Jafnaðarmenn styðja það að jafnræði sé með höfuðborgarbúum og íbúum landsbyggðarinnar. Hins vegar hafa aðgerðir stjórnvalda til að jafna búsetuskilyrði milli höfuðborgar og landsbyggðarinnar mistekist, bæði í nútíð sem og í fortíð.

 

Landsbyggðin hefur bundið miklar vonir við flutning opinberra starfa til landsbyggðarinnar, sem og störf án staðsetningar. Hins vegar hafa opinber störf sem skilgreind án staðsetningar ekki verið jafn mörg og væntingar landsbyggðarinnar gáfu til kynna. Þar sem áætlanir stjórnvalda í byggðamálum hafa ekki hjálpað landsbyggðinni mikið undanfarin ár, er manni spurn hver lausnin sé, svo landsbyggðin geti staðið jafnfætis höfuðborgarsvæðinu?

Háskóli en engin atvinna

Líklega ein besta byggðaraðgerð á Íslandi var stofnun Háskólans á Akureyri. Hann samt sem áður ekki reynst fullnægjandi lausn því þegar námsmenn útskrifast þaðan fara margir hverjir suður til Reykjavíkur eða jafnvel flytja úr landi þar sem litla vinnu er að fá hér á landsbyggðinni. Ýmsar aðstæður hafa gert það að verkum að skilyrði fyrir rekstri fyrirtækja á landsbyggðinni eru erfið. Þar sem að flest fyrirtæki landsbyggðarinnar eru útflutningsfyrirtæki olli hátt gengi krónunnar lengi vel þessum fyrirtækjum miklum erfiðleikum. Flutningskostnaður hefur einnig dregið úr mætti fyrirtækja á landsbyggðinni.

Himinháir stýrivextir og neikvæður hagvöxtur

Seðlabanki Íslands hefur einnig leikið atvinnulíf landsbyggðarinnar grátt. Mikill hagvöxtur hefur verið á höfuðborgarsvæðinu, það mikill að til að sporna við mikilli verðbólgu hefur Seðlabanki Íslands brugðið á það ráð að hækka stýrivexti til að sporna við þenslunni. En hvað gerist ef hækkaðir eru stýrivextir eins mikið og Seðlabanki Íslands hefur gert þar sem hagvöxtur er lítill og jafnvel neikvæður? Það að hækka stýrivexti þar sem hagvöxtur er neikvæður, drepur alla nýsköpun og fjárfestingu á því svæði. Sérstaklega þegar stýrivextir séu komnir upp í 15,5 prósent. Þetta vandamál hefur landsbyggðin þurft að glíma við síðustu misseri. Því er ekkert skrítið að margir á Vestfjörðum kalli eftir olíuhreinsistöð og Húsvíkingar kalli eftir álveri.

Aðlagast breyttum aðstæðum

Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum hefur verið mikið í umræðunni hér á landi og styðja þó nokkrir þá aðgerð. Húsvíkingar hafa lengi kallað eftir álveri og nú þegar þeir sjá hversu vel gengur að koma Helguvík á koppinn kalla húsvíkingar enn hærra. Óskir þessara sveitafélaga eru skiljanlegar, sérstaklega þegar efnahagsástandið er ekki betra en það er í dag.
Þessar aðgerðir munu þó ekki breyta miklu á þessum stöðum, enda eru þessar aðgerðir einungis skyndilausnir.

 

Í raun hugsar maður með hryllingi til olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum. Engu skiptir hvaða viðskiptamenn gætu verið á bakvið framkvæmdina, heldur þarf náttúran vera að hafa forgang í þessu máli. Með olíuhreinsistöð ætti umferð flutningaskipa að fjölga mjög hér á landi og það eykur hættu á stórslysum svo sem að olía berist í sjóinn í kringum Ísland. Þar sem sjórinn hér við land er kaldari en á suðrænum slóðum, tekur töluvert lengri tíma fyrir sjóinn að brjóta olíuna niður og þar með erum við að stefna fiskimiðum okkar í óþarfa áhættu.

 

Margir íbúar á landsbyggðinni líta á gróðurhúsaáhrifin sem stórt tækifæri. Þar sem íshellan á Norðurskautinu þynnist og með hverju árinu fara fleiri skip um svæðið. Einhverjir telja að Ísland sé tilvalinn staður fyrir uppskipunarhafnir og annað í þeim dúr þegar þessar ferðir verði algengari og tengi þannig Evrópu við Asíu. Aukin umferð um Norðurheimskautið og flutningsskipa í kringum Ísland eru þó ekki heppilegar þar sem þær munu hafa of neikvæð áhrif á náttúruna.

 

Hlýnun jarðar mun einnig hafa þær afleiðingar að margar nýjar fisktegundir munu að öllum líkindum veiðast í frekari mæli í efnahagslögsögu Íslands, en aðrar tegundir munu þó flýja norðar í kaldari sjó. Þessar breytingar verður landsbyggðin að vera tilbúin að færa sér nyt, því breytingar í sjó geta orðið að sóknarfæri.

Er Evrópusambandið langtímalausnin?

Það hefur vakið furðu að landsbyggðin hafi ekki þrýst meira á íslensk stjórnvöld að sækja um aðild að Evrópusambandinu, en ESB hefur verið duglegt við að jafna aðstöðumun milli svæða innan sambandsins. ESB notar mikla fjármuni til byggðastyrkja, til dæmis í gegnum uppbyggingasjóði í sérstök uppbyggingarverkefni. Þá hefur ESB styrkt landbúnað í Finnlandi, þar sem æ erfiðara er að stunda landbúnað í norðurhluta álfunnar.

 

Það er því deginum ljósara að ávinningur landsbyggðarinnar af aðild að ESB er meiri heldur en fyrir utan Evrópusambandsins, sé litið til mögulegra styrkja. Evran væri einnig stór ávinningur fyrir landsbyggðina. Ef Evra væri brúkuð hér á landi hjálpaði það mörgum fyrirtækjum á landsbyggðinni sem vinna í ferðaþjónustu. En eins og gengi krónunnar hefur verið undanfarið hefur gengisáhættan hjá hótelum og annarri ferðaþjónustu verið mjög mikil. Fyrirtækin þurfa að taka á sig gengistap þar sem krónan er ekki stöðugur gjaldmiðill.

 

Allir sveitarstjórnarmenn og íbúar landsbyggðarinnar eru hvattir til að sameinast um að þrýsta duglega á íslensk stjórnvöld að sækja um aðild að Evrópusambandinu og finna ný sóknarfæri fyrir landsbyggðina.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand