Hneyksli?

Stefán Ómar Stefánsson fjallar í þessari grein hér á Pólitík.is um ráðningu Jóns Steinars Gunnlaugssonar í embætti hæstaréttardómara sem hann telur vera en eitt hneyksli Sjálfstæðisflokksins undir forystu Davíðs Oddssonar. Eins og alþjóð veit líklega nú þegar var Jón Steinar Gunnlaugsson skipaður í embætti hæstaréttardómara í gær 29. september. Við þetta vakna upp ýmsar spurningar, öðru sinni á skömmum tíma, varðandi skipan hæstaréttardómara. Á Íslandi hefur svokölluð fagleg stjórnskipan verið við lýði og á að tryggja lýðræði innan stjórnskipunarinnar. Nú er svo komið að fólk verður að spurja sig hvort forsendur hinnar faglegu stjórnskipunar séu ekki á leiðinni í vaskinn. Það er fyrst og fremst vegna tengsla þeirra tveggja síðustu dómara sem skipaðir hafa verið við ákveðinn stjórnmálaflokk sem starfar í ríkisstjórn ásamt öðrum minni. Sá flokkur hefur farið með vald dómsmálaráðuneytisins síðustu ár og séð því um skipan dómara í Hæstarétt.

Í fyrra var Ólafur Börkur skipaður í laust embætti dómara. Ekki er ég fær um að dæma til um hæfni hans, en að mati Hæstaréttar, sem vissulega ætti að vera hæfur til þess arna, var hann alls ekki sá hæfasti til að gegna embættinu. Engu að síður gaf ráðherra sér forsendur með rökstuðningi sem vissulega má efast um. Málið fór fyrir Umboðsmann Alþingis sem “skammaði” ráðherra.

Að þessu sinni var aftur farið gegn mati Hæstaréttar. Við skipanina síðast áleit Hæstiréttur að æskilegt væri að skipa í embætti dómara með reynslu af lögmennsku. Farið var gegn þeirri hugmynd þá, en að þessu sinni var það allt í einu aðalatriðið. Auðvelt er að búa til samsæriskenningar úr svona vinnubrögðum og auðvelt að ætla að þar sem ráðherra mátti vel vita hver hefði mesta reynslu af lögmennsku og að sá maður væri mikið tengdur stjórn flokks hans. Þykir mér þetta undarlegt háttarlag ráðherra, þar sem hann hefði mátt ætla að þetta myndi hafa í för með sér slíkar kenningar. Gengið var fram hjá þeim tveim mönnum sem taldir voru hæfastir og einnig fram hjá konu sem, enn og aftur, var talin hæfari en Jón Steinar.

Hefði að þessu sögðu ekki verið eðlilegt að forseti lagadeildar Háskóla Íslands, Eiríkur Tómasson, yrði skipaður í þetta embætti? Að mínu mati er það svo, þar sem Hæstiréttur taldi hann vissulega hæfari til starfans, hann hefur í 15 ár starfað við lögmennsku og hefur hann unnið að fræðastörfum mun lengur en Jón Steinar. Eiríkur Tómasson er að auki langt í frá eins umdeildur og Jón og hefur ekki, að mínu viti, blandað pólitík við sín störf. Þó svo að 15 árum muni á málaflutningsstörfum Jóns og Eiríks get ég ekki séð að það geri Jón hæfari í embættið. Myndi ég telja að fræðileg kunnátta Eiríks yrði alltaf að meta framar reynslu Jóns Steinars.

Samkvæmt þeim jafnréttissjónarmiðum sem samfélag okkar á að lifa við í dag verður ekki hægt að ætla að þeim hafi verið fram fylgt í þessu máli. Því myndi ég telja þetta enn eitt hneyksli Sjálfstæðisflokksins undir forystu Davíðs. Það er strax farið að kólna í stjórnarráðinu, og ekki kominn október.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand