Hinn gullni meðalvegur

Í Egils sögu Skalla-Grímssonar segir af því að stórskáldið á Borg gerist senditík Hákonar Aðalsteinsfóstra, konungs í Noregi, fer austur til Eiða við fjórða mann og þiggur beina hjá auðugum bónda, Ármóði skeggi. Fyrst er þeim borið skyr en síðan öl, „hið sterkasta mungát“, eins og þeir geta í sig hellt. Drekkur Egill manna stífast og fyrir förunauta sína þegar þá þrýtur örendið:„Egill fann þá að honum mundi eigi svo búið eira. Stóð hann þá upp og gekk um gólf þvert þangað er Ármóður sat. Hann tók höndum í axlir honum og kneikti hann upp að stöfum. Síðan þeysti Egill upp úr sér spýju mikla og gaus í andlit Ármóði, í augun og nasirnar og í munninn, rann svo ofan um bringuna. En Ármóði var við andhlaup og er hann fékk öndunni frá sér hrundið þá gaus upp spýja. En allir mæltu þeir er hjá voru, húskarlar Ármóðs, að Egill skyldi fara allra manna armastur.“ En hið þorstláta skáld iðrast einskis: „Ekki er að hallmæla mér um þetta þótt eg geri sem bóndi gerir. Spýr hann af öllu afli eigi síður en eg.“ Óhófið
Í Egils sögu Skalla-Grímssonar segir af því að stórskáldið á Borg gerist senditík Hákonar Aðalsteinsfóstra, konungs í Noregi, fer austur til Eiða við fjórða mann og þiggur beina hjá auðugum bónda, Ármóði skeggi. Fyrst er þeim borið skyr en síðan öl, „hið sterkasta mungát“, eins og þeir geta í sig hellt. Drekkur Egill manna stífast og fyrir förunauta sína þegar þá þrýtur örendið:

Egill fann þá að honum mundi eigi svo búið eira. Stóð hann þá upp og gekk um gólf þvert þangað er Ármóður sat. Hann tók höndum í axlir honum og kneikti hann upp að stöfum. Síðan þeysti Egill upp úr sér spýju mikla og gaus í andlit Ármóði, í augun og nasirnar og í munninn, rann svo ofan um bringuna. En Ármóði var við andhlaup og er hann fékk öndunni frá sér hrundið þá gaus upp spýja. En allir mæltu þeir er hjá voru, húskarlar Ármóðs, að Egill skyldi fara allra manna armastur.

En hið þorstláta skáld iðrast einskis: „Ekki er að hallmæla mér um þetta þótt eg geri sem bóndi gerir. Spýr hann af öllu afli eigi síður en eg.“

Aðgengi að áfengi nú á dögum
Í mannlegu eðli býr löngun – missterk og misbæld þó – til að lyfta sér upp í grámósku hvundagsins. Í því skyni hafa menn löngum haft áfengi um hönd. Fyrir Alþingi – þeirri stofnun íslenskri sem helst og lengst hefur verið bendluð við hvers kyns flokkadrætti – liggur nú merkilegt frumvarp, flutt af þingmönnum úr öllum flokkum nema frá Vinstri-grænum. Ef að lögum verður geta einkaaðilar, þar á meðal matvöruverslanir, fengið leyfi til að selja áfengi, sé það 22% eða minna að vínandastyrk, rétt eins og þeim er nú treyst til að selja tóbak.

Einokun getur verið varhugaverð. Á Íslandi hefur hún skilað sér í svimandi háu verði á bjór og léttvíni; það er sérlega ósanngjarnt gagnvart efnaminna fólki sem vill neyta áfengra veiga. Samkeppni gæti bætt nokkuð úr – þó að óheimilt yrði að selja áfengi undir kostnaðarverði. Einnig gæti slík lækkun laðað að fleiri erlenda ferðamenn en margir þeirra láta áfengisverð ráða för og hrýs því hugur við að sækja Ísland heim.

Greiðara aðgengi gæti sparað dýrmætan tíma og ferðakostnað um leið og hlúð yrði að verslunarrekstri í fámennari byggðarlögum. Eins yrði trúlega minna drukkið af sterkara áfengi og heimabruggi, þar á meðal landa. Það getur jú skipt meira máli hvers konar áfengi menn láta ofan í sig en hvort þeir drekka aðeins meira eða aðeins minna af því.

Drykkjusiðir nú á dögum
Höfundur Eglu – sennilegast Snorri Sturluson (1178/1179–1241) – dregur dár að drykkjusiðum Íslendinga og varla að ástæðulausu. Ekki ætlar undirritaður heldur að sverja það af sér eða landanum að enn þann dag í dag er lítið vit í íslenskri vínmenningu, alla vega miðað við margar aðrar vestrænar þjóðir.

Eins og frægt er orðið var leyft að selja bjór hér á landi 1. mars 1989. Skemmst er frá því að segja að þá var mikið um bölmóð og svartagall en þvert á dómadagsspárnar virðist vínmenning á Fróni hafa skánað síðan þá. Alltént væri æskilegt að hér væri frekar drukkið léttara áfengi en sterkara. Rauðvínsdreitill við og við getur jú verið hollur fyrir hjartað eins og ýmsar rannsóknir styðja.

Meðalhófið
Blind trú á takmarkalaust frelsi getur hæglega leitt til ófarnaðar. Á hinn bóginn eru boð og bönn, höft og hömlur ekki óbrigðul meðul til að bægja mönnum frá ýmsu misæskilegu. Að beina fólki frekar að léttara áfengi en sterkara – með greiðara aðgengi og fyrr eða síðar lægra verðlagi – gæti verið hinn gullni meðalvegur til að bæta rysjótta vínmenningu Íslendinga. Hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand