Ávísun á mismunun

Þótt að þessir tveir ágætu ungu menn hafi líklegast rétt fyrir sér um að ekki sé sjálfgefið að með ávísanafyrirkomulaginu muni allir skólar taka upp skólagjöld, minnast þeir ekkert á hvernig hægt sé með því að tryggja öllum fyrsta flokks menntun. Þeir virðast taka því sem gefnu að með einkarekstri verði allir skólar fyrsta flokks, óháð því hvort þeir taka upp skólagjöld eður ei. Það er hins vegar það sem ég efast um, þar sem ég tel að þeir sem taka upp skólagjöld muni hafa efni á bestu kennurunum og aðstæðunum á meðan hinir, sem taka ekki upp skólagjöld bera skarðan hlut frá borði og nemendur þeirra sömuleiðis. Þeir Kristinn Már Ársælsson og Snorri Stefánsson voru ekki lengi að svara grein minni um ávísanafyrirkomulag í skólakerfinu. Í stuttu máli sagt fjallaði mín grein um að hugmyndir hægrimanna um slíkt ávísanafyrirkomulag væru slæmar, þar sem það byði upp á mismunun, og gæti skilað sér í því að skólarnir færu að skiptast í fyrsta flokks skóla og annars flokks skóla. Mín rök voru á þá leið, að allir ættu að hafa rétt á fyrsta flokks menntun óháð efnahagslegum aðstæðum foreldra þeirra. Með því að greiða ákveðna lágmarksupphæð með hverju skólabarni en bjóða skólum upp á að taka upp skólagjöld umfram það, geta þau sem innheimta skólagjöld fengið til sín bestu kennarana og bestu aðstæðurnar á meðan hinir, sem gera það ekki eru í lakri samkeppnisstöðu hvað það varðar. Ég hélt því ekki fram að allir skólarnir myndu taka upp skólagjöld. Það sem ég er nefnilega andsnúin er að það fari eftir tekjum foreldranna hversu góða grunnmenntun börn fá, og að það sé einungis á færi þeirra ríku að tryggja börnum sínum fyrsta flokks menntun, á meðan hinir efnaminni gætu þurft að sætta sig við annars flokks menntun. Það sem ég vil er nefnilega fyrsta flokks menntun fyrir alla, ekki bara suma, og ekki annars flokks menntun fyrir alla.

Ég nefndi það ekki í minni grein að ég vildi auka framlag hins opinbera til menntamála, en þeir Kristinn Már og Snorri virðast hafa lesið það úr orðum mínum þegar ég sagði að “það bæri að efla skólakerfið, veita kennurum mannsæmandi laun, tryggja að aðstæður séu hinar bestu, og að menntun teljist ekki til munaðar heldur sjálfssagðra mannréttinda sem hvorki ríkir né fátækir þurfi að greiða sérstaklega fyrir”. Ég tek því sem svo að í þeirra túlkun á þessari staðhæfingu fælist ákveðin viðurkenning á því að framlag til menntamála væri ekki nægjanlegt fyrir til að tryggja fyrsta flokks menntun fyrir alla. Sjálf hef ég reyndar ekkert á móti því að auka framlag hins opinbera til menntamála ef á því er þörf, þar sem ég tel að menntun, eins og fyrr segir, eigi ekki að flokkast sem munaður heldur sjálfssögð mannréttindi. Þeir vilja hins vegar seilast ofan í vasa foreldranna frekar en í sjóði hins opinbera, þrátt fyrir að þeir viti væntanlega að foreldrar eru misfjáðir.

Fyrir utan að benda á að ekki allir skólar þyrftu að taka upp skólagjöld, segja þeir líka að “ef einhverjir vilji bæta við fjármunum umfram það sem hið opinbera tryggir hverju barni [sé] af hinu góða”. En hér erum við einmitt komin að vandanum varðandi þetta valfrelsi. Allflestir góðir foreldrar vilja væntanlega að börn þeirra fái góða menntun, en ef þessir umframfjármunir eru eina tryggingin fyrir því að menntunin sem þau hljóta er góð, er gæði grunnmenntunar farin að snúast um ekki bara val, heldur líka getu. Það er nefnilega eitt að vilja borga fyrir menntun barna sinna, annað að hafa efni á því.

Þótt að þessir tveir ágætu ungu menn hafi líklegast rétt fyrir sér um að ekki sé sjálfgefið að með ávísanafyrirkomulaginu muni allir skólar taka upp skólagjöld, minnast þeir ekkert á hvernig hægt sé með því að tryggja öllum fyrsta flokks menntun. Þeir virðast taka því sem gefnu að með einkarekstri verði allir skólar fyrsta flokks, óháð því hvort þeir taka upp skólagjöld eður ei. Það er hins vegar það sem ég efast um, þar sem ég tel að þeir sem taka upp skólagjöld muni hafa efni á bestu kennurunum og aðstæðunum á meðan hinir, sem taka ekki upp skólagjöld bera skarðan hlut frá borði og nemendur þeirra sömuleiðis.

Ef hins vegar niðurstaðan af þessu valfrelsi ríka fólksins í menntakerfinu skyldi vera sú að allir skólar verði jafn góðir, þá er varla ástæða til að hafa áhyggjur af misgóðri menntun barna eftir fjárráðum foreldranna. En þá er heldur varla ástæða til að predika nauðsyn þess að leyfa skólum að innheimta skólagjöld, því hver færi að borga hærri gjöld fyrir skóla sem er jafngóður og sá næsti, sem kostar ekki neitt? En skilyrðið fyrir þessu er einmitt það sem okkur jafnaðarmönnum þykir svo mikilvægt, það er, að hið opinbera tryggi menntakerfinu nægilega fjármuni til að það megi efla, kennarar fái mannsæmandi laun, tryggja að aðstæður séu hinar bestu, og að menntun teljist ekki til munaðar heldur sjálfssagðra mannréttinda sem hvorki ríkir né fátækir þurfi að greiða sérstaklega fyrir.

Til einföldunar tek ég fram að ég er einungis að tala um grunnskólastigið þótt réttilega hafi verið bent á að ég nefndi ekki önnur skólastig í fyrri grein minni. Að vísu fara þeir Kristinn Már og Snorri með rangt mál þegar þeir segja að á háskólastigi sé greidd sama fjárhæð með hverjum nemanda; enda greiðir ríkið mun hærra með hverjum nema í tannlæknadeild og læknadeild heldur en til dæmis í hugvísindadeild, enda um mun dýrara nám að ræða þar. En það er önnur saga.

Að lokum vil ég benda öllum heimsins Heimdellingum á að jöfnuður er ekki það sama og jöfn tækifæri. Ég er ekki að beita mér fyrir því að tannlæknirinn og ræstitæknirinn fái sömu tekjur. Hins vegar vil ég að tannlæknisdóttirin og ræstitæknissonurinn fái jöfn tækifæri í lífinu, og slík tækifæri getur einmitt skólakerfið veitt, svo lengi sem það mismunar ekki eftir efnahag.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand