Sjálfstæðisflokkurinn er að njóta sín í skoðanakönnunum, í skugga erfiðra verkefna sem bíða Samfylkingu og Vinstri grænum. Samkvæmt greinarhöfundi verða vinstri menn að takast á við íhaldið með umræðu til að svipta hulunni af gamla, óbreytta auðvaldsíhaldinu.Eftir samfleytta 18 ára stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins hefur honum loks verið rutt frá og nýjir straumar fá að njóta sín í stjórnkerfi landsins. Vissulega eru verkefni stjórnvalda ekki í spennandi kantinum þar sem að einungis skuldum verður úthlutað en ekki glaðningum líkt og fyrri ríkisstjórn fékk að njóta.
Sjálfstæðisflokkurinn er og hefur ávallt verið býsna mikið bálkn með marga og öfluga bakhjarla, hann hefur verið leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum frá upphafi lýðveldisins og ávallt fremstur í flokki þegar að kemur að þjóðfélagsumræðu. Eða að minnsta kosta þangað til eftir síðastliðnar alþingiskosningar, Bjarni Benediktsson, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og formaður Sjálfstæðisflokksins heldur aftur af sér þessa daganna. Samherji hans í stjórnarandstöðunni, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er þá öllu heldur stjórnarandstöðuleiðtogi ef hann er þá einhver, BorgaraHreyfingin rýmist að minnsta kosti ekki í bóli stjórnarandstöðunnar.
Herkænskubragð að forðast umræðu?
Hvað ollir þessu andvaraleysi Bjarna og samflokksmanna hans? Það mætti helst halda að þeir skammist sín eftir stjórnartíð flokksins og óttist það að skoðanir þeirra eigi ekki upp á borð vegna fyrri voðaverka, hann hefur vissulega átt sinn þátt í hruni íslenska efnahagskerfisins, en þar er hann ekki eini hlutaðeigandinn, aðrir flokkar á Alþingi bera vissulega líka hlut ábyrgðar en þögulmælskan er ekki eins ríkjandi þar og í flokk íhaldsins.
Eða er þögn þeirra ef til vill pólitískt herkænskubragð? Kannski er bara best að láta lítið á sér bera uns kosningar renna í garð, þá mun íhaldið stökkva úr fylgsni sínu og sporðrenna öllum kjósendum í einni atrenu, koma núverandi ríkisstjórn frá og taka heiðursljóman og hetjudáðirnar fyrir sig og engan annan, ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna titluð sem glundroðastjórn og skemmdarvargar, Sjálfstæðisflokkurinn hefur endurheimt dýrð sína.
Sviptum hulunni!
Þessa dagana er Sjálfstæðisflokkurinn með gríðarlegt fylgi í skoðanakönnunum og er samkvæmt þeim stærsti stjórnmálaflokkur landsins með um 30% atkvæða. Jafnaðarmenn og félagshyggjufólk verða að bregðast við þessu klækjabragði íhaldsins með upplýstri umræðu. Við megum aldrei láta neinn komast upp með að slá ryki í augu kjósenda, sviptum hulunni af Sjálfstæðisflokknum, því innan undir er hann eflaust sama gamla auðvaldsíhaldið.