Icesave aftur á dagskrá

IcesaveIcesave er aftur komið á dagskrá en fátt nýtt virðist ætla að koma þar fram, enda viðsemjendur samþykkt mikilvægustu fyrirvara Alþingis. Greinarhöfundur spyr hvort að ástæða sé til að tefja lyktir þessa máls með málþófi þegar ekkert nýtt á að koma fram með þeim umræðum. Greinin endar með umfjöllun um hin títtnefnda galla regluverksins sem Íslendingar bera víst enga ábyrgð á.

IcesaveÞað er ekki gott til þess að vita að umræðan um Icesave geti farið á ‚repeat‘ núna þegar samkomulag liggur fyrir um lyktir þessa máls. Ef ekkert nýtt er að koma fram í umræðunni um samkomulagið, hví þá að endurtaka leikinn. Alþingi náði saman í sumar um fyrirvara við samkomulagið sem verða að teljast góðir, þó svo að sumir fyrirvararnir hafi verið nokkuð fjarstæðukenndir. Er þar um að ræða fyrirvarinn um tímalengd ríkisábyrgðar. Í reynd er nokkuð ljóst að sá fyrirvari hefði aldrei haldið.

Það er mikill sigur fyrir Íslendinga að Bretar og Hollendingar samþykki að hámarksgreiðslur á ári vegna samkomulagsins fari aldrei yfir ákveðið hlutfall af hagvexti. Þessu reyna andstæðingar ríkisstjórnarinnar og samkomulagsins helst að gleyma, þegar þeir reyna að sannfæra almenning um að verið sé að knýja Íslendinga til lags við ‚nauðungarsamninga‘. Maður hlýtur einfaldlega að spyrja sig, ef verið er að kúga Íslendinga, því eru þá hinir vondu viðsemjendur okkar að samþykkja slíka fyrirvara? Og hví ekki þá að láta okkur byrja að borga ekki seinna en strax? Kúgunin virðist ekki vera meiri en svo.

Í öðru lagi er nokkuð sérstakt að stjórnvöld á Íslandi viðurkenni ábyrgð á innistæðutryggingum upp að því lágmarki sem kveðið er á um í tilskipun Evrópusambandsins, líkt og stjórnvöld gerðu með Sjálfstæðismenn í broddi fylkingar í ríkisstjórn og Sjálfstæðismanninn Davíð Oddson í forsvari fyrir Seðlabanka Íslands, en ætli sér síðan einhliða að ákveða hversu mikið og hversu lengi skuli borga. Fyrirvarinn um lengd ríkisábyrgðar virtist einmitt fela þetta í sér.

Mismunað á grundvelli þjóðernis
Í þessu samhengi er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að Íslendingar eru að fá því framgegnt að mismuna innistæðueigendum eftir þjóðerni. Sem gengur þvert á þau prinsipp EES samningsins að ekki sé mismunað með þeim hætti. Íslenska ríkið ábyrgðist nefnilega innistæður Íslendinga í kjölfar bankahrunsins að fullu, en í Icesave samkomulaginu liggur fyrir að Ísland borgar aðeins lágmarkið til handa útlendingum, um 20.000 evrur. Það virðist helst sem að Sjálfstæðismenn, sem tóku fullan þátt í að semja þessa fyrirvara í sátt við meirihluta fjárlaganefndar, hafi með þessu verið að reyna leggja stein í götu ríkistjórnarinnar með því að ginna nokkra græna og grunlausa þingmenn til að samþykkja fyrirvara sem öllum var ljóst að myndu aldrei halda, til þess eins að koma stjórninni í bobba. Þessir sömu Sjálfstæðismenn sáu sér síðan ekki fært að styðja þær breytingar sem þeir tóku sjálfir þátt í að semja og skiluðu einfaldlega auðu!

Galli í regluverkinu?
Í þriðja lagi er mikilvægt að skilja hver þessi títtnefndi galli á evrópska regluverkinu er og mikið er hrópað um að Íslendingar séu einir að bera skaða af. Gallinn er sá að ekki er til staðar sameiginlegt evrópskt innistæðutryggingakerfi eða sameiginlegt evrópskt fjármálaeftirlit. Ástæða þess er nokkuð einföld. Lönd ESB hafa ekki viljað samþykkja að gefa frá sér aukin völd til ESB stofnana, þ.e. deila yfirráðum yfir sínu fjármálakerfi með evrópskri stofnun. Fyrir lönd eins og Bretland, sem hafa – eða höfðu – eina sterkustu fjármálamiðstöð heims í London, er skiljanlega erfitt að samþykkja að gefa frá sér þessi mál. Í ljósi þess að Bretar hafa ekki viljað taka upp evru með inngöngu í Myntbandalag Evrópu er þetta skiljanlegt. Það sem gerðist hins vegar með stofnun Seðlabanka Evrópu var að peningastefna aðildarríkjanna færðist á yfirþjóðlegan grunn, en fjármálaeftirlit og innistæðutryggingar voru áfram byggðar á grundvelli þjóðríkjanna. En bankarnir urðu samt sem áður evrópskir. Eins og Trichet, seðlabankastjóri evrópska seðlabankans komst að orði, þá eru bankar Evrópu „evrópskir í lífi en þjóðbundnir í dauða.“ Þessi stefna virðist einmitt hafa beðið skipbrot, enda bendir Turner lávarður, stjórnarformaður breska fjármálaeftirlitsins, á að evrópskar stofnanir af þessu tagi séu nauðsynlegar ef halda eigi áfram á braut aukinnar samþættingar evrópska fjármálakerfisins. Annað sé skref afturábak.

Pólitísk mistök að hafna evrópsku samstarfi

En hvar hafa Íslendingar staðið í þessum málum? Íslendingar hafa haft þá stefnu gagnvart ESB að ekki sé þörf á inngöngu þar sem EES samningurinn sé meira en nóg. Líkt og Bretar og Danir, sem ekki gátu samþykkt að taka þátt í sameiginlegri peningastefnu ESB og fengu því undanþágur frá Maastricht sáttmálanum 1994, hafa Íslendingar ekki séð sér fært að taka þátt í samstarfinu á neinn hátt. Allt tal um galla regluverks Evrópusambandsins er því í reynd sömuleiðis viðurkenning á hinum pólitísku mistökum sem fólust í því að hafna auknu samstarfi, með aðild að ESB. Eða hvernig öðruvísi er hægt að skilja þá gagnrýni Íslendinga að evrópska regluverkið hafi verið gallað? Gallinn er af mannavöldum, vegna skorts á vilja til að auka samstarf í evrópskum stofnunum. Þennan vilja hefur tvímælalaust skort af hendi íslenskra ráðamanna.

Í framhaldi af þessu er einnig mjög auðvelt að skilja hvers vegna þjóð eins og Noregur mun aldrei samþykkja að Íslendingar beri ekki ábyrgð á Icesave innistæðunum. Enda hver væri staða norskra innistæðueigenda í sænska bankanum Nordea, ef í ljós kæmi að sú þjóð sem veitir bankaleyfi – og því leyfi til að starfa allstaðar á hinum sameiginlega evrópska markaði – bæri enga ábyrgð gagnvart erlendum viðskiptavinum. Þessu hefði alveg mátt gauka að Sigmundi Davíð og framsóknarmönnum áður en lagt var í hina fræknu skógarferð til Noregs.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand