Hið undarlega mál er varðar 5.000.000 kr. lán Baugs til forsvarsmanna Útvarps Sögu

Í Ísland í dag í gærkvöldi mættu tveir af eigendum Útvarps Sögu og þráttuðu um ýmis óppgerð mál sem komið hafa upp á yfirborðið í kjölfar brotthvarfs meirihluta þeirra úr dagskrá stöðvarinnar. Virtist manni reyndar sem sumt af því sem sagt var í þættinum ekki eiga erindi við aðra en hlutaðeigandi og vonandi ná þau að sættast á lokum, hin fjögur fræknu sem gáfu okkur talmálsútvarp allan sólarhringinn. Vettvang sem ég tel að hafi sannast að sé nauðsynlegur ventill fyrir íslenska þjóðarsál. Í Ísland í dag í gærkvöldi mættu tveir af eigendum Útvarps Sögu og þráttuðu um ýmis óuppgerð mál sem komið hafa upp á yfirborðið í kjölfar brotthvarfs meirihluta þeirra úr dagskrá stöðvarinnar. Virtist manni reyndar sem sumt af því sem sagt var í þættinum ekki eiga erindi við aðra en hlutaðeigandi og vonandi ná þau að sættast að lokum, hin fjögur fræknu sem gáfu okkur talmálsútvarp allan sólarhringinn. Vettvang sem ég tel að hafi sannast að sé nauðsynlegur aftöppunarventill fyrir íslenska þjóðarsál.

Útvegaði lán til að hindra yfirtöku Ingva Hrafns
Málið er nokkuð ruglingslegt en snýst í meginatriðum um það að Ingvi Hrafn Jónsson gerði tilboð í hlut hinna þriggja í stöðinni, en þau vildu ekki að hann eignaðist hana. Þá mun Arnþrúður Karlsdóttir hafa útvegað 5.000.000 kr. lán frá Baugi til að koma í veg fyrir yfirtöku Ingva og notað það til að kaupa hann út að fullu og hina tvo eigendurna að hluta. Síðan hefur hlaupið í kekki milli eigendanna og deilt er um hvort samkomulag hafi verið í gildi við Baug um frekari aðkomu vegna lánveitingarinnar. Tveir karlar segja já, ein kona segir nei.

Andrúmsloft tortryggni
Það er full ástæða til þess að óska eftir því við aðila málsins að þeir leggi öll spilin á borðið. Í ljósi forsögunnar væri það einfaldlega heppilegast fyrir alla. Ekki er, mér persónulega allavega, ljóst þegar hér er komið sögu hvað vakti fyrir Baugi með þessari lánveitingu. Vera má að það sé allt hið einfaldasta og eðlilegasta mál.

Má ekki lána peninga?
Vissulega má einn maður lána öðrum peninga í frjálsu landi, kjósi hann það. Spurningar hljóta þó að vakna í kjölfarið á fréttum gærdagsins. Það er m.a. vegna þess hér er um vinsælan fjölmiðil að ræða og líka vegna þeirrar miklu athygli sem fjárfestingar Baugs í fjölmiðlum hafa vakið undanfarin misseri. Spurningar eins og:

-Hvers vegna lánar Baugur fé til fyrirtækis sem er í beinni samkeppni við þeirra eigin fyrirtæki?

-Hvers vegna er Baugur yfirleitt að lána til rekstur sem þeir eru ekki þátttakendur í? Baugur er ekki lánastofnun – er það?

-Hvaða skilmálar giltu um lánið? Var þetta einhvers konar víkjandi lán?

-Hafði það áhrif á ákvörðun Baugs um veita lánið að nota ætti það til að kaupa Ingva Hrafn út? Var það e.t.v. ætlað til að hindra að einhverjir ónefndir nýir eigendur gætu komið að stöðinni?

-Hvers vegna var það ekki gefið upp á þeim tíma sem lánafyrirgreiðslan átti sér stað að Baugur væri að styðja við rekstur stöðvarinnar? Eldri ummæli forsvarsmanna bæði Útvarps Sögu og fjölmiðla í eigu Baugs gefa fullt tilefni til að ekkert pukur sé með slík tengsl og að ætlast hefði mátt til þess af þessu fólki að það upplýsti um það þá og þegar, en ekki að þetta komi aðeins í ljós nú þegar að allt er komið í háa loft á milli þessara einstaklinga.

Samsæriskenningar þurfa ekki að fara af stað
Ég býst reyndar við því að eðlilegar skýringar liggi að baki flestum þessum spurningum. Varla eru Baugsmenn það smeykir við Ingva Hrafn fyrst þeir hafa ráðið hann á nýja talmálsstöð sem þeir ætla fljótlega að koma í loftið.

En áhrif eigenda Baugs eru mikil í íslensku samfélagi og það væri gott að geta sannfærst um að hér sé ekkert óeðlilegt á ferðinni. Í stað lagasetningar þarf einmitt að koma til aðhald almennings. Við þurfum að fylgjast með athöfnum auðmanna alveg eins og stjórnmálamanna.

Fjölmiðar = VÖLD (og allir vita það)
Andstaða þjóðarinnar við fjölmiðlalög ríkisstjórnarinnar kom ekki til vegna þess að menn tryðu því ekki að ríkir menn gætu viljað eignast fjölmiðla til að hafa áhrif í samfélaginu. Hvað væri Rupert Murdoch þá? Frelsarinn endurfæddur?

Einhverjir þröngsýnir menn hafa hins vegar afhjúpað hroka sinn með því að reyna að halda því fram að Baugur hafi heilaþvegið þjóðina með því einu að dreifa Fréttablaðinu frítt í flest hús.

Þjóðin er sigurvegari fjölmiðlamálsins
En þjóðin er ekki vitlaus. Við vitum vel að ákveðin hætta er á að eigendur reyni að hafa óeðlileg áhrif á ritstjórnarákvarðanir. Það voru bara engin klár dæmi fyrir hendi um að eigendur Fréttablaðsins hefðu reynt að villa um fyrir lesendum þess. Hins vegar hafði fólk það sterklega á tilfinningunni að einhverjar annarlegar hvatir lægju að baki málatilbúnaði þáverandi forsætisráðherra og sú var helsta ástæðan fyrir hinni sterku mótspyrnu sem fjölmiðlafrumvarpið mætti hjá þjóðinni.

En…

Það kemur í mínum huga ekki til greina að eigendur þessarar sístækkandi fjölmiðlasamsteypu geti snúið aftur til þeirrar stefnu, sem fylgt var fyrstu mánuðina eftir endurreisn Fréttablaðsins, þar sem neitað var að upplýsa um það hverjir ættu blaðið.

Það er best að hafa allt uppi á borðinu
Sú staða sem nú er uppi á fjölmiðlamarkaðnum leggur að mínu mati ríkar siðferðislegar skyldur á herðar forsvarsmanna bæði Baugs og Fréttar/Íslenska útvarpsfélagsins um að koma hreint fram og eyða öllum vafamálum um leið og þau koma upp á yfirborðið.

Trúverðugleiki og traust almennings er undir og því mikið í húfi fyrir alla sem hlut eiga að máli.

Ég vona að Jóhannes í Bónus eða einhver annar forsvarsmaður Baugs mæti í Kastljósið í kvöld og skýri aðkomu Baugs að þessum bræðravígum á Útvarpi Sögu.

Þjóðin á skilið að spilin séu lögð á borðið.

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Uncategorized @is

Ungt jafnaðarfólk á Landsfundi

Þann 28. – 29. október síðastliðinn var haldinn Landsfundur Samfylkingarinnar – Jafnaðarflokks Íslands á Grand