Hvað er að gerast í bænum mínum? – Sveitastjórnarmál á Seyðisfirði

Þessi spurning vaknar hjá mér þegar ég heyri sögur um það að á einu ári, frá desember 2003 til desember 2004 hafi Seyðfirðingum fækkað um 26 og þannig sé íbúafjöldi bæjarins kominn niður fyrir 700. Þannig er þessi minnsti kaupstaður landsins orðinn enn minni. 110 ár eru síðan hann hlaut kaupstaðarréttindi, s.s. árið 1895 bjuggu þar yfir 1000 manns. Hækkaði sú tala fyrstu áratugi 20. aldar en sá fyrsti á þessari öld virðist vera á góðri leið með að ganga frá bænum. Hvernig væri að vakna?
Þessi spurning vaknar hjá mér þegar ég heyri sögur um það að á einu ári, frá desember 2003 til desember 2004 hafi Seyðfirðingum fækkað um 26 og þannig sé íbúafjöldi bæjarins kominn niður fyrir 700. Þannig er þessi minnsti kaupstaður landsins orðinn enn minni. 110 ár eru síðan hann hlaut kaupstaðarréttindi, s.s. árið 1895 bjuggu þar yfir 1000 manns. Hækkaði sú tala fyrstu áratugi 20. aldar en sá fyrsti á þessari öld virðist vera á góðri leið með að ganga frá bænum.

Eitthvað er verið að gera rangt og maður spyr sig hvort bæjarstjórnin geti ekkert að gert. Ég skrifaði harðorða grein árið 2003 í garð ÚA-manna (Brims) þegar þeir pökkuðu saman og lokuðu. Þá komu heimamenn til bjargar og hafa staðið sig frábærlega í þeim verkefnum sem þeir hafa lagt fyrir sig. Yfir 1000 tonn af loðnu var fryst í Brimbergi á fyrstu misserum starfsemi þess fyrirtækis og er loðnufrysting þegar komin í gang á nýju ári. Vel hefur verið staðið að sölu og birgðastjórnun fyrirtækisins og sjaldan hlaðist upp bretti af afurðum sem ekki hefur verið hægt að losna við. Sala á ferskfiski virðist einnig henta vel. Ennfremur er nóg að gera hjá löndunargenginu, þökk sé m.a. því að togarinn okkar heldur enn tryggð við sína heimahöfn. Við höfum að auki ferjuna og togarar Samherja eru farnir að landa nánast í hverri viku í tengslum við hana. Að auki var bræddur meiri kolmunni en nokkru sinni fyrr í bræðslunni ,,okkar”, sem er búin mjög góðum tækjabúnaði til slíkrar vinnslu og uppbygging hefur verið þó nokkur þar. Gallinn er þó sá, finnst mér, að við eigum ekki bræðsluna okkar sjálf síðan SVN keypti upp SR.mjöl hf, en það væri efni í allt aðrar og þungar pælingar. Að mínu mati ætti að vera mun meiri bjartsýni í bænum okkar, en því virðist öfugt farið ef tölurnar eru skoðaðar.

Hvers vegna gengur ekki nógu vel að fjölga í bænum? Af því að dæma, sem áður var rakið mætti ætla að það væri eðlilegt að fólki væri að fjölga, eða amk. að fjöldinn stæði í stað. Það vekur því upp ýmsar spurningar þegar því er gefinn gaumur að í stöðum sem sveitarfélagið sér um að veita er oftar en ekki sama fólkið sem fer með hin ýmsu störf. Meðan áhrifafólk er að taka að sér stöður sem verður til þess að stöðugildi þeirra er á bilinu 150-250% gefur augaleið að ekki fjölgar í bænum. Það mætti halda að þeir sem fara með völdin í bæjarstjórninni hafi ekki hugmynd um hvað margfeldisáhrif eru, fleira fólk skapar fleiri störf. Ég held að bæjarstjórnin þurfi að vakna upp við þann veruleika að það er að halla undan fæti og það þarf að fá nýtt blóð í bæinn. Nýtt blóð sem heldur sér, nýtt blóð sem kemur til að vera. Bæjarstjórnin á að vera fremst í flokki á þessu sviði, skipun í stöður á að fara fram á faglegan hátt en blóðtengsl eða flokkaskipan á ekki að skipta hér máli. Það þýðir lítið að hafa einkarekin fyrirtæki sem standa sig ef opinberir aðilar innan bæjarfélagsins gera það ekki.

Ungt fólk og Seyðisfjörður
Viðhorf unga fólksins er það sem máli skiptir upp á framtíðina að gera. Ég hef áður bent á það að það þarf að hlúa að þessu fólki. Á Seyðisfirði er gríðarlega stór hluti ungs fólks, sem alist hefur þar upp, kominn langt á veg á menntaleiðinni. Við höfum nema í sálfræði, læknisfræði, lögfræði, húsasmíði, viðskiptafræði, hjúkrunarfræði, fornleifafræði, félagsráðgjöf, fatahönnun, lyfjafræði, spænsku og er enn langt í að talningin sé tæmandi. Allir þeir sem ég hef í huga við þessa upptalningu eru á bilinu 19-24 ára. Þetta unga fólk horfir í fjarlægð á bæinn sinn koðna niður og einhvern veginn sé ég ekki mikil atvinnutækifæri fyrir þetta hámenntaða fólk. Það verður því líklega þróunin og það sem virðist vera að gerast að unga fólkið fari að ná sér í menntun og komi svo jafnvel ekki við nema annað hvert ár til að líta æskustöðvarnar.
Ég veit ekki hversu algengt það er, en ég er ennþá með lögheimili mitt á Seyðisfirði. Ég telst þá enn með þegar íbúafjöldinn er fundinn, en þar sem ég er ekki í bænum nema á sumrin í 3 mánuði á ári, og hugsanlega á það sama við um margt ungt fólk sem þar býr, má ætla að á veturna sé íbúafjöldi Seyðisfjarðar í reynd töluvert minni en ég slumpaði á í byrjun greinarinnar. Sumarbærinn Seyðisfjörður er eitthvað sem framtíðin virðist gefa í skyn, listir og ferðamennska eru þá í blóma, en neikvæðni og kuldi komi til með að einkenna veturna.

Eru jarðgöng lausn?
Í haust fjallaði ég um vöntun jarðgangna sem tengja saman mið-austurland. Þar talaði ég um nauðsyn og hagkvæmni þessara gangna. En eru göngin lausn? Ég er fullviss um að svo sé. Göngin myndu tengja bæinn við fjóra ,,stóra” byggðakjarna, stytta leiðir gífurlega og ýta undir samstarf sveitarfélaganna á svæðinu. En það er ekki þar með sagt að við eigum bara að sitja og bíða eftir að þau komi af himnum ofan, bæjaryfirvöld verða að berjast fyrir þessum göngum. Umræðan þarf að halda stöðugt áfram, en aðrar leiðir þarf einnig að skoða. Þarna er ég t.d. að tala um það sem ég nefndi áðan með ráðningar í stöður á vegum sveitarfélaganna. Ferjan gengur nú allt árið og vonandi er orðrómur um að það sé að detta upp fyrir sig rangur, en kynningarstarfsemi tengd henni er gríðarlega mikilvæg, ekki bara fyrir fyrirtækið sem rekur hana heldur einnig fyrir bæinn. Þarna þarf enn að koma fleira til bæjaryfirvöld þurfa að vera algerlega á tánum yfir öllu sem getur orðið til að kynna bæinn, verða honum til framdráttar og ennfremur koma í veg fyrir neikvæðni í garð bæjarins. Þá erum við aftur komin að því sem kalla má ýmsum nöfnum en gæti heitið klíkuskapur. Það verður að ráða í stöður á faglegum grundvelli, það verður að fá hæfasta fólkið sem völ er á til starfa hverju sinni og það þarf að auglýsa allar stöður á vegum bæjarins eins vel og unnt er. Þá er og atriði að taka vel á móti þeim sem koma í bæinn og horfa fram á veg, ekki festast í fortíðarhyggju og þegar árangur verður af erfiðri vinnu, staldra við, sjá hvað vel var gert og halda svo á næsta tind fyrir ofan. Rífum bæinn okkar upp úr lægðinni, verum stolt af honum á ný. Bærinn undir Bjólfi lengi lifi!

Deila

Facebook
Twitter
Ungir jafnaðarmenn

Nýlegar færslur

Fréttir

Ný stjórn kjörin á landsþingi UJ

Landsþing Ungs jafnaðarfólks var haldið á laugardaginn, 31. ágúst 2024 í Samfylkingarhúsinu íHafnarfirði, Strandgötu 43.

Fréttir

Jöfn og Frjáls komið út

Jöfn og Frjáls er komið út. Blaðið sem er málgagn Ungs Jafnaðarfólks hefur nú verið